Hirti löggan Búdda eða snúðinn?

Löggumann hafði aftur afskipti af Búdda vikur síðar en þá átti Búddi engan snúð

 

Búddi fór í bæinn
og Búddi fór í búð.
Búddi sat á torginu
og var að éta snúð.
Þá kom löggumann,
og hirti hann
og stakk honum ofan í rassvasann.

Þegar ég var lítil sá ég Búdda fyrir mér sem róna. Ég er ekki viss um hvernig ég fékk þá hugmynd, það voru engir rónar í mínu nærumhverfi en einhvernveginn vissi ég af þeim samt. Kannski var eitthvað rónalegt við nafnið. Ég vissi líka að rónar höfðust við á torgum, ég veit ekki hvaðan ég hafði þær upplýsingar.

Semsagt, Búddi var róni. Löggan kom og hirti Búdda – hann hlaut þá að hafa stolið snúðnum. Ég vissi ekki þá að stundum hirti löggan blásaklausa róna.

Það var ekki fyrr en um þetta leyti í fyrra sem vinkona mín benti á að löggan hefði líklega hirt snúðinn en ekki Búdda. Satt að segja hafði sá möguleiki aldrei hvarflað að mér. Fésbók rifjaði þetta upp fyrir mér í gær og ég spurði fésverja álitis:

Hvort hirti löggumann Búdda sjálfan eða snúðinn hans?
Er þetta ljóð um síbrotamann sem er handtekinn fyrir að stela snúði eða er þetta ljóð um spillingu innan lögreglunnar?

Einn svarenda, sem tók undir þá túlkun að löggan hefði hirt snúðinn, benti á að krakki kæmist ekki fyrir í rassvasanum. Góð ábending. Mig rámar í að einhver hafi haldið því fram þegar ég var lítil að Búddi hafi verið strákur en ég afskrifaði þá kenningu því börn máttu ekki fara ein í bæinn og ég var nokkuð viss um að löggan hefði ekki hirt krakkann heldur komið honum heim til sín og látið barnaverndarnefnd skrifa nöfn foreldra hans í „svörtu bókina“.

En aldur, reynsla og fyrri störf eru nú kannski aukaatriði, því þar sem Búddi fór í búð hlýtur hann alltént að vera manneskja og ekki komast fullorðnir heldur fyrir í vasa. Ég man reyndar mér þótti þetta með Búdda í rassvasanum undarlegt en með eða án hjálpar komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri líkingamál – löggan hefði náttúrulega haft Búdda alveg í vasanum. Mér finnst líklegt að sú skýring sé komin frá ömmu minni.

Ég efast ennþá um að það hafi verið snúðurinn sem lenti í vasa löggunnar. Það væri kannski trúverðug skýring ef Búddi hefið verið að gæða sér á svona litlum, stökkum kanelsnúði. Ég er hinsvegar nokkuð viss um að þetta var stór bakaríissnúður með glassúr því stökku, heimabökuðu snúðarnir voru alltaf kallaðir kanelsnúðar eða snælur í mínu ungdæmi. Ég held reyndar að hvorki gersnúðar né kanelsnúðar hafi fengist í búðum á þeim tíma sem ljóðið var ort og það kemur ekki fram að Búddi hafi farið í bakarí, sem stuðlar þó prýðilega. En hann gæti auðvitað hafa farið í bakarí líka þótt þess sé ekki sérstaklega getið.

Það mælir reyndar með kanelsnúðakenningunni að stór gersnúður fer illa í vasa, einkum rassvasa, og löggan hefði líklega ekki tímt að skemma glassúrinn með því. Ég spáði ekki sérstaklega í það þegar ég var fjögurra ára en núorðið finnst mér líka ótrúlegt að löggan hefði viljað fá glassúr í buxurnar. En kannski var þetta karlrembulögga sem lét konuna sína um þvottinn. (Við vitum að löggan var ekki kona því þetta var „löggumann“ og þótt konur séu líka menn eru þær aldrei kallaðar „-mann“.) Löggan gæti semsagt hafa hirt kanelsnúð af Búdda. Annar möguleiki er að löggumann hafi ekki ætlað að éta snúðinn heldur hafi hann bara tekið hann sem sönnunargagn og verið sama þótt glassúrinn hafi skemmst.

Eftir allar þessar pælingar var ég engu nær um „rétta“ merkingu textans. Glöggur sagnfræðingur benti á að textinn hefði tvíræða merkingu og því fráleitt að reyna að komast að rökréttri niðurstöðu en þaulreyndur bókmenntaprófessor kom að lokum með bestu túlkunina:

Hér gilda tilfinningarök. Löggan hirti Búdda og snúðinn með, stakk Búdda í kjallarann og át snúðinn.

Ég fellst á þessa skýringu. Ljóðið er semsagt ádeila á valdníðslu lögreglunnar. Það er í senn raunsæ lýsing á lífi rónans sem stelur snúði og er hirtur upp af götunni – ekkert endilega af því að löggan hafi vitað um stuldinn heldur bara af því að hann er róni – og gagnrýni á spilltan löggumann sem misnotar vald sitt til þess að stela sætabrauði af okkar minnstu bræðrum. Þetta var auðvitað fyrir tíma kleinuhringjanna.

Það er náttúrulega háalvarlegt mál að hápólitískur kveðskapur sem ætti að vekja ungviðið til umhugsunar um meðferð lögregluvalds og réttarstöðu handtekinna útigangsmanna skuli sunginn við svona létt og skemmtilegt lag, rétt eins og þessi ömurlegi veruleiki sé bara jafn eðlilegur þáttur tilverunnar og sólskinið og blómin. Það þyrfti því að velja textanum drungalegra lag.

Hinn kosturinn er sá að henda Búdda á haugana ásamt negraskrípum og jarðálfum. Lítil börn eru nefnilega mjög vitlaus og engin leið að koma réttum viðhorfum inn í hausinn á þeim nema með róttækri ritskoðun.

 

Uppfært:

Þættinum hefur borist bréf frá lesanda sem býður upp á enn eina túlkun. Samkvæmt túlkun lesandans er það hvorki Búddi né snúðurinn sem hafnar í vasa löggumanns heldur táknar síðasta línan háttsemi sem varðar við 194. gr. almennra hegningarlaga, og þar sem lögreglan á í hlut, einnig við 134. gr. sömu laga.

Löggumann stingur semsagt „honum“ [á sér] ofan í rass“vasann“ á Búdda.

Lesandinn segist sökum pempíuháttar síns ekki vilja láta nafns síns getið auk þess sem hán megi ekki vera að því að díla við rétthugsunarlögregluna á Fésinu, sem hán segir síst skárri en löggumanninn í þessari túlkun.