Frásögn Biblíunnar af heimsendri pizzu

Varla er til sá Íslendingur sem hefur ekki borðað heimsenda pizzu en hver ætli hafi borðað fyrstu heimsendu pizzu veraldarsögunnar?

Það er sjálfsagt auðvelt að finna út hvenær almenningi stóð slík þjónusta fyrst til boða en þjóðsögur af einstaka tilvikum, löngu fyrir þann tíma, eru ekki síður áhugaverðar.

 

Ítalska þjóðsagan

Sagan segir að Margherita drottning Ítalíu (upphaflega prinsessa af Savoy) hafi verið á ferð í Napólí ásamt manni sínum árið 1889 og orðið hundleið á því að borða veislumat. Hún hafi því beðið um venjulegan heimilsmat. Raffaele Esposito, nafntogaður pizzubakari, á að hafa verið fenginn til þess að setja saman pizzu sem teldist kóngafólki boðleg. Hann útbjó þrjár pizzur, þar af eina sem mun hafa samanstaðið af rauðum tómötum, grænni basiliku og hvítum mozzarella sem raðað var í rendur þannig að minnti á ítalska fánann.

 

 

Ekki þótti svo göfugu fólki samboðið að snæða málsverð á pizzustað svo Raffaele Esposito færði þeim pizzurnar, heitar að sjálfsögðu. Drottningin fékk sér sneið af fánapizzunni og sagði að þetta væri besti matur sem hún hefði fengið. Raffaele varð rígmontinn vegna velþóknunar drottningarinnar nefndi pizzuna að sjálfsögðu eftir henni.

Sumir telja söguna af pizzu Margarítu drottningar  vera fyrsta dæmi veraldar um heimsenda pizzu en hvort eitthvað er hæft í sögunni get ég ekki fullyrt. Núna um helgina benti vinur minn mér á mun eldra dæmi um slíka heimsendingu og það sem meira er, heimildin er áreiðanleg – sagan er nefnilega í sjálfri Biblíunni, og ekki lýgur hún.

 

 

Biblíusagan

Pizzusöguna er að finna í 19. kafla fyrri Konungabókar. Elía spámaður hafði verið að brytja niður heiðingja og átti hefnd yfir höfði sér. Hann var því á flótta og þurfti að skilja son sinn eftir á leiðinni. Eftir dagsferð yfir eyðimörk lagðist hann í hroðalegt þunglyndi, hrjáður af samviskubiti vegna manndrápanna, söknuði eftir syninum, ótta um líf sitt og vonleysi um framtíðina. Kallgreyið var gersamlega í rusli og langaði bara að deyja.

Hann sofnar svo undir gýfilrunna (ég veit ekkert hvernig þessháttar runni lítur út) en vaknar við að engill kemur askvaðandi með pizzu handa honum. Það stendur reyndar ekki pizza í Biblíunni, heldur glóðarbakað brauð, en vinur minn benti mér á að líklegast er að brauðið hafi verið flöt kaka og að fólk á þessum slóðum hafi alla tíð gluðað ólívuolíu yfir brauðið sitt og oft borðað með því þann ost, kjöt og grænmeti sem tiltækt var. Þeir kunnu heldur ekki ítölsku svo auðvitað töluðu þeir um réttinn á sínu eigin tungumáli.

Ég fann ekki betri mynd en það er ekkert að marka brauðið á þessari mynd því einhver síðari tíma listmálari vissi náttúrulega ekkert hverskonar brauð var vinsælt í Damaskus á tímum Elía spámanns. (Ekki svo að skilja að ég viti það heldur en góð saga er ekki verri þótt hún sé login.)

 

Þetta mun því vera fyrsta skrásetta heimildin um heimsendingu á pizzu, eða í það minnsta á pizzubotni, en það er ekki síður áhugavert að skoða þau áhrif sem þetta hnossgæti hafði á spámanninn. Í fyrstu fékk hann sér bara smábita og lagðist svo aftur fyrir. Engillinn ýtir þá við honum og segir honum að klára matinn sinn því annars haldi hann ekki ferðina út. Nema hvað, gæinn gúllar í sig pizzunni, rís svo úr þunglyndinu og arkar þindarlaust bæði að nóttu og degi, fjörutíu daga leið að fjalli þar sem Gvuð almáttugur var víst til húsa á þeim tíma. Gvuð ráðlagði honum svo að segja af sér (smyrja annan mann til spámanns í sinn stað).

Af þessari sögu má því læra að ef maður þjáist af aðstæðubundnu þunglyndi er gott ráð að panta sér pizzu (helst eldbakaða), klára matinn sinn og drusla sér síðan í mjööög langan labbitúr. Ennfremur að valdhafar og áhrifamenn sem eru búnir að gera upp á bak, eiga að panta sér pizzu og drífa svo í því að segja af sér.

Söguna af pizzu Margarítu drottningar fann ég hér.

Einnig birt hér