Facebooklöggan ónáðar fólk á djamminu

loggan-a-facebook-688x451

Fyrir tveimur vikum birti ég pistil þar sem ég velti fyrir mér tilganginum með Fésbókarhangsi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel meginmarkmiðið vera ímyndarsköpun en finnst einnig líklegt að lögreglan noti Facebook til persónunjósna. Það kom mér því ekki á óvart að heyra sögu konu sem varð fyrir óvæntri truflun á djamminu aðfaranótt sunnudags.

Kleópatra Mjöll Heiðudóttir var stödd á skemmtistað þegar tveir einkennisklæddir lögreglumenn nálguðust hana. Þeir voru ekkert í vafa um nafn hennar og tilkynntu henni að prófílmyndin hennar á Facebook gæfi tilefni til húsleitar heima hjá henni.

1555438_471610586297805_658806354_n

 

„Ég tók þessu fyrst sem gríni og spurði hvort þeir ætluðu að gera handjárnin mín upptæk. Þeim fannst ég greinilega ekkert fyndin og þegar mér varð ljóst að þeim var alvara varð ég bara orðlaus“ segir Kleópatra. „Ég átti alveg eins von á að verða handtekin en trúði því nú varla að þeir hefðu fengið húsleitarheimild út á þessa mynd svo ég spurði hvort þeir ætluðu í alvöru að fara að vekja börnin mín af því að á internetinu væri mynd sem þeim líkaði ekki.

Þeir fóru þá að ásaka mig um þjófnað á þessum blessaða búning en ég sagði, sem satt er, að ég hefði verið á kvikmyndasetti þar sem þessi búningar hefðu verið fengnir að láni hjá embættinu og ekki staðist þá freistingu að máta. Þeir tuðuðu eitthvað meira og ég spurði hvort það væri bara húmorslaust fólk í löggunni sem hefði ekkert annað að gera en að spotta prófílmyndir hjá fólki út í bæ. Ég ögraði þeim svo eitthvað að drífa þá í þessari leit og bað um far með þeim heim. En auðvitað að því gefnu að þeir fengju heimild. Þá urðu þeir bara fúlir og löbbuðu í burtu.“

Saga Kleópötru vekur margar spurningar. Til dæmis hvort algengt sé að lögreglan ónáði fólk á skemmtistöðum með erindum af þessu tagi. Er algengt að löggan hóti fólki húsleit þótt engin heimild hafi fengist til húsleitar? Má það? Og ekki síst; hversu hátt hlutfall af tíma Facebooklöggunnar fer í það að fylgjast með nethegðun borgaranna og hverskonar innlegg er litið á sem tilefni til þess að gruna fólk um lögbrot?