Ekki svo slæmt að lemja konu ef maður á hana?

Athyglisvert er að bera mál Doningers saman við kynferðisbrotamál. T.d. mál nuddarans sem var á dögunum dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir nauðgun.

Nuddarinn misnotaði aðstöðu sína til að káfa á kynfærum viðskiptavinar. Setti fingur í leggöng hennar, sem er og á að vera refsivert.

Doninger hefur tvívegis verið dæmdur fyrir líkmasárás, fyrst fyrir að kasta glasi í höfuð karlmanns á skemmtistað, fyrir það fékk hann 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Í seinni dómnum er hann dæmdur fyrir tvær fyrir árásir á sömu konuna. Í fyrra tilvikinu er honum gefið að sök að hafa slegið brotaþola í andlitið með krepptum hnefa á skemmtistað, elt hana út af skemmtistaðnum rifið í hár hennar, hent henni í götuna og ýtt henni ítrekað niður. Um seinni árásina segir í dómnum að hann hafi „rifið í hár hennar, hrist hana og dregið hana á hárinu inn í svefnherbergi þar sem hann henti henni upp í rúm, settist ofan á hana og sló hana utan undir, tók um munn hennar og nef með þeim afleiðingum að hún átti erfitt með andadrátt og að því loknu skallað hana í andlitið þannig að enni hans lenti á munni hennar allt með þeim afleiðingum að hún hlaut yfirborðsáverka í andliti og á hálsi og að báðar varir hennar sprungu þannig að úr blæddi.“

Líkamlegar afleiðingarnar árásanna á konuna eru mar og bólga á kjálkabeini vinstra megin, mar og yfirborðsáverki á hné og fótlegg og tognun á ökkla. Vitni eru að báðum árásunum. Fyrir þessa hegðun fær maðurinn 45 daga fangelsisdóm, skilorðsbundinn til þriggja ára.

Ég er svona að velta fyrir mér hvernig þetta sé hugsað af hálfu dómstóla. Telja menn að maður sem misnotar aðstöðu sína á þann hátt sem nuddarinn gerði sé margfalt hættulegri  en sá sem ítrekað ræðst á manneskju, slær hana í höfuð, tekur fyrir vit hennar o.s.frv. Eða er áfallið af því að fá fingur ókunnugs manns upp í sitt helgasta svona miklu verra en áfallið af því að verða fyrir líkamsárás sem felur í sér höfuðhögg og líflátsógn?

Einnig vekja viðbrögð vitna í málum Doningers áleitna spurningu um afstöðu almennings til ofbeldis. Í seinna máli konunnar bera fjórir menn vitni um öskur og hljóð sem rökrétt er að túlka sem merki um átök. Þeir þora ekki inn, fjórir saman, sem bendir nú til þess að gerandinn hafi verið þokklega brjálaður en þeir hringja ekki í lögguna heldur í Þórð þjálfara!

Margir hafa gagnrýnt misræmið á milli refsinga í fíkniefnamálum og ofbeldismálum. Hvaða afstöðu sem maður hefur til fíkniefna verður ekki framhjá því litið að sá sem neytir fíkniefna getur afþakkað þau en líkamsárásir og kynferðisbrot eru ekki valkvæð; það stríðir því gegn réttlætiskennd alls sæmilegs fólks að það skuli teljast miklu stærri glæpur að standa í fíkniefnaviðskiptum en að beita líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi. Dómar í kynferðisbrotamálum hafa þyngst á síðustu árum og hlýtur það að vera til vitnis um að dómstólar séu farnir að líta kynferðisbrot alvarlegri augum en fyrr. Nuddarinn er ágætt dæmi en einnig má nefna dóminn yfir Austurvallardónanum sem fékk 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Einnig má benda á dóm fyrir „skammvinna stroku inn á kynfæri„, (dóm sem kveðinn var upp án neinna sannana) Þar fékk sá dæmdi 3ja mánaða dóm, skilorðsbundinn til tveggja ára.

Það er ekkert nema  jákvætt að kynferðisofbeldi sé tekið alvarlega en hversvegna í ósköpunum eru líkamsárásir ennþá taldar minniháttar brot?

Hefur sú hugmynd skotið rótum að sál konunnar sé staðsett í píkunni og kynferðisbrot sé því árás á sálarlíf konunnar og þar með mun alvarlegra en að lemja hana, hárreita og ógna lífi hennar? Hefði Doninger fengið óskilorðsbundinn dóm og þyngri ef hann hefði líka káfað á konunni? Eða er allt ofbeldi gegn konu léttvægt ef maður á hana?

2 thoughts on “Ekki svo slæmt að lemja konu ef maður á hana?

  1. Í fyrra tilvikinu var ákært fyrir meiriháttar líkamsárás (218) enda notaði hann þar glas og taldi dómari það að kasta bjórglasi að brotaþola eins og þarna var gert vera sérstaklega hættulega aðferð.

    Í síðara tilvikinu er ákært fyrir minniháttar líkamsárás (217) og er það vegna þess að hann notaði ekki vopn auk þess sem áverkar á konunni voru ekki verulegir. Hefði brotnað tönn þegar hann skallaði hana, eða nef, hefði þetta þó verið 218.

    Þá kemur að lykilsetningunni í dómnum síðari: Verður honum nú dæmdur hegningarauki við fyrrgreindan dóm. Það er að segja refsingin bætist við fyrri dóminn og mætti því allt eins segja að hann hafi fengið fimm mánaða og fimmtán daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brotin saman.

    Ekki að það sé nokkuð sem réttlæti svo vægan dóm fyrir þrjár líkamsárásir, en hann var með hreint sakarvottorð og áverkarnir sem hlutust af atlögum hans voru líkamlega ekki miklir.

  2. Takk fyrir þetta innlegg. Ef við lítum svo á að hér sé um að ræða fimm og hálfsmánaðar skilorðsbundinn dóm, þá er tilvalið að bera það saman við kynferðisbrotadómana sem ég nefni í pistlinum. Í öllum tilvikum er um að ræða menn með hreint sakavottorð.

Lokað er á athugasemdir.