Býsn

Orðið býsn er skemmtilegt. Orðsifjabókin gefur nokkrar skýringar á því. Sú sem ég fíla best er fornsaxneska orðið „ambusni“ og gotneska orðið „anabusns“ en þau merkja boðorð. Og hvernig tengist svo býsn og borðorð kann einhver að spyrja. Mín skýring er þessi:

„Býsna gott“ merkir það sama og „ýkja gott“ og boðorðin eru náttúrulega býsna ýkt. Ég meina „þú skalt ekki ljúga“ -jafnvel guðhræddustu klerkar tóna sömu gömlu lygasögurnar og halda þeim fram sem staðreyndum. Menn með tekjur á borð við olíukaupmenn stela, fólk er drepið í nafni læknisfræðinnar og svei mér þá alla daga ef það er ekki full ýkt krafa að menn stilli sig um að girnast maka nágrannans.

Honum guði væri nær að endurskrifa boðorðin í takt við tímann. Ég var t.d. að lesa Samkvæmisleiki eftir Braga Ólafsson og þar er þó nokkuð um það að fólk sé sleikjandi boruna hvert á öðru. Nú hef ég sjálf verið hlynnt því að fólk ástundi allt það sódómí sem það sjálft hefur smekk fyrir enda fari leikar fram með upplýstu samþykki allra aðila og svo um hnútana búið að lágmarks líkur séu á því að einhver beri skaða af (t.d. hef ég margsinnis fallið fram og tilbeðið smokkinn). En þessar nýmóðins rassasleikjur; það er ekki bara það að mér þyki það eitthvað svo ódannað og finnist ótrúlegt að fólk fá kynferðislegt kikk út úr því að vera með nefið bókstaflega ofan í annars rassi, heldur velti ég því líka fyrir mér hversu heilnæmt þetta sé. Ég hef hingað til trúað því að ég sé undir meðallagi í tepruskap ef eitthvað er en þetta er kannski bara normið í dag? Er maður kannski bara orðinn svona gamall? Eða hefur þetta alltaf tíðkast? Er kannski orðatiltækið „að vera með nefið ofan í hvers mann koppi“ komið til af einhverju algengu blæti sem hefur bara farið fram hjá mér?

Líklega er það skýringin. Sennilega eru rassasleikjufantasíur eitthvað sem ég er bara of bæld til að hafa látið eftir mér. Ætli ég þurfi ekki leita til spákonunnar og láta hana hjúpa rassgatið á mér með rauðu ljósi til að ná mér út úr skelinni? Og ástæðan fyrir því að fólk undir þrítugu er ekki upp til hópa með njálg og malaríu er líklega sú að það virðir reglurnar og viðhefur varúðarráðstafanir til þess að forðast smit. Sennilega latexdúka eins og tannlæknar nota.

Ég legg því til að við afleggjum gömlu úreltu boðorðin um að menn eigi ekki að ljúga, stela og drepa annað fólk og tökum í staðinn upp nýtískulegri og býsnminni boðorð. T.d. „Þú skalt ekki sleikja rassboru náunga þíns, nema hylja hana fyrst með latexpjötlu.“