Aðild mín að meintu hryðjuverki gegn Alþingi

Ég hef sent frá mér eftirfarandi bréf


Ríkislögreglustjóri; Haraldur Johannessen
Ríkissaksóknari; Valtýr Sigurðsson/Lára V. Júlíusdóttir
Forseti Alþingis; Ásta R. Jóhannesdóttir


Yfirlýsing um aðild að uppákomunni í Alþingishúsinu þann 08.12.2008

Ég, Eva Hauksdóttir (kt.010767-5559) lýsi hér með yfir beinni aðild minni að þeim atburði sem varð í Alþingishúsinu þann 8. desember 2008, þegar almennir borgarar nýttu sér lögvarinn rétt sinn til að mæta á þingpalla en voru bornir út og sumir handteknir, síðar sakaðir um að stefna sjálfræði þingsins í hættu.

Aðild mín felst í þátttöku í skipulagningu aðgerðarinnar, m.a. því að skrifa yfirlýsingu sem fólkið sem fór inn í Alþingishúsið hugðist lesa upphátt á þingpöllum og dreifingu þeirrar yfirlýsingar, ásamt öðru plaggi þar sem hvatt er til fleiri slíkra aðgerða. Auk þess hvatti ég fólkið eindregið til að fara á þingpallana í þessum tilgangi og lýsti síðar yfir stuðningi mínum við aðgerðina á mörgum vefsíðum þar sem fjallað var um málið.

Greinargerð

Þann 8. desember 2008 sat ég fund 34 almennra borgara sem töldu nauðsynlegt að koma stjórnvöldum í skilning um að þau hefðu brugðist hlutverki sínu og bæri því að víkja. Áttu þeir sem fundinn sátu fátt sameiginlegt, annað en að álíta tímabært að grípa til róttækari aðgerða en hefðbundinna útifunda, til að koma á viðunandi stjórnarfari í landinu. Var markmiðið með fundinum að skipuleggja eina slíka aðgerð.

Strax í upphafi fundarins kom fram sú skoðun að þar sem hópurinn væri stór, margir væru að sjást í fyrsta sinn og sumir hefðu aldrei tekið þátt í róttækum mótmælaaðgerðum, væri nauðsynlegt að hafa aðgerðina einfalda. Einnig vildi sá sem tók til máls vera þess fullviss að aðgerðin yrði innan ramma laganna. Hlaut þessi skoðun almennar undirtektir. Jafnframt var þó talið nauðsynlegt að ganga lengra en að veifa skilti og hrópa slagorð enda höfðu yfirvöld ekki tekið minnsta mark á slíkum aðgerðum sem þúsundir manna höfðu staðið í, þá á þriðja mánuð. Ýmsar hugmyndir komu fram en sú sem varð fyrir valinu fólst í því að fjölmenna á þingpalla og hvetja þingmenn til að segja skilið við stjórnkerfi sem greinilega þjónaði hagsmunum auðmanna betur en almenningi. Var lagasafn skoðað og auk þess rifjuð upp atvik þar sem almennir borgarar höfðu mætt á þingpalla í fortíðinni og töldu allir viðstaddir það hafið yfir vafa að almenningi væri heimilt að mæta á þingpalla.

Ég tók sjálf að mér að semja tillögu að yfirlýsingu sem breyttist svo lítillega eftir að hún var borin undir aðra fundarmenn. Niðurstaðan varð svohljóðandi.

Alþingi á að vera vettvangur samráðs og lýðræðis. Hlutverk Alþingis er að setja lög, almenningi til verndar og heilla. Alþingi sem þjónar hagsmunum auðvaldsins og bregst skyldum sínum gagnvart almenningi er ekki Alþingi fólksins.

Þetta hús þjónar ekki lengur tilgangi sínum, þessvegna skorum við á ykkur þingmenn að ganga héðan út.

Þessa yfirlýsingu prentaði ég út í ca 100 eintökum og tók þátt í að dreifa henni á götum úti. Ætlunin var að þeir sem færu upp á þingpallana læsu yfirlýsinguna upp en þar sem brotið var á rétti fólks til að ganga upp á pallana varð ekkert af því.

Einnig skrifaði ég annan texta sem var ætlað að útskýra aðgerðina eftir á og hvetja til fleiri aðgerða af svipuðu tagi. Þeim texta hef ég týnt en efni hans var á þá leið að þegar stjórnvöld hunsi hróp almennings fyrir utan opinberar byggingar, þá sé rökrétt að fara þangað inn og freista þess að ná áheyrn. Þessum texta var dreift í um 50 eintökum.

Ég reiknaði lengi með því að hinum fíflalega málatilbúnaði á hendur níu einstaklingum úr hópi um 30 manns sem fóru inn í Alþingishúsið þennan dag, yrði vísað frá dómi. Svo er þó að sjá sem Alþingi og ríkissaksóknari séu staðráðin í því að halda uppi pólitískum ofsóknum á hendur því fólki sem dirfist að mótmæla valdhöfum. Einn þáttur í kúgunaraðgerðum yfirvalda gagnvart lýðræðinu er að halda til streitu ákærum á hendur níu manns sem valdir voru af handahófi úr hópi um 30 friðsamra mótmælenda.

Nú hefur loksins komið fyrir almenningssjónir myndbandsupptaka sem sýnir svo ekki verður um villst, að það sem raunverulega gerðist þennan dag var hvorki til þess fallið að skerða sjálfræði Alþingis né fól í sér ofbeldi af nokkrum toga og ætti það að fullvissa hvern hugsandi mann um fáránleika þessara málaferla. Enda þótt málið sé allt of ómerkilegt til að eiga erindi við dómstóla og það hefði aldrei hvarflað að mér að lýsa yfir nokkurskonar ’sekt’, hefði þetta gerst í siðmenntuðu samfélagi, get ég ekki látið pólitískar ofsóknir á hendur félögum mínum viðgangast án þess að mín aðild komi fram.

Ég ítreka því aðild mína eins og henni er lýst hér að ofan og fer þess á leit að mér verði send stefna á heimilisfangið

Bytoften 7a, Bovrup
6200 Aabenraa
Danmörk.
Með kveðju (en án tiltakanlegrar virðingar)
Eva Hauksdóttir

1 thought on “Aðild mín að meintu hryðjuverki gegn Alþingi

 1. —————————————————————————

  Til hamingju Eva.

  Posted by: níels a. ársælsson | 24.05.2010 | 8:21:08

  —————————————————————————

  Nú veit maður ekki hvort maður á frekar að óska þess að þú fáir óskina uppfyllta eða ekki :-S

  Posted by: Sigrún | 24.05.2010 | 15:02:30

  —————————————————————————

  Ég á ekki orð yfir heimsku þinni, Norn.

  Svona skipta menn sér ekki af sakamálum fólks sem á yfir höfði sér þunga fangelsidóma.

  Var þér ekki nóg að skrifa undir yfirlýsinguna sem mörg hundruð mans hafa gert nímenningunum til stuðnings!?

  Þetta lyktar af taumlausri athyglisisýki af þinni hálfu og ótrúlegu dómgreindarleysi.

  Who needs enemies when they have friends like you?

  Posted by: Jón | 26.05.2010 | 11:08:28

  —————————————————————————

  Hugsanlega væri þetta mál í ögn gáfulegri farvegi í dag ef allir þeir sem komu nálægt þessari aðgerð hefðu lýst ábyrgð sinni og þá með rökum sem ákæruvaldið þarf að taka mark á. Komið hefur fram að einn þeirra sem handteknir voru, sá góði maður Lárus Páll Birgisson (sem einmitt hefur fengið á sig orð fyrir ‘athyglissýki’ vegna bæði þessa máls og annarra afskipta sinna af mannréttindamálum) hafi farið fram á að verða ákærður. Ekki veit ég þó hvort sú krafa hans var formleg eða hefur aðeins verið sett fram í vinsamlegu spjalli við lögreglumenn. Það hlýtur að vera öllu erfiðara að hunsa formlega yfirlýsingu og það skulu yfirvöld og aðrir sem standa fyrir pólitískum ofsóknum vita að ég læt ekki hunsa mig í þessu máli.

  Það er góðra gjalda vert að undirrita yfirlýsinguna sem þú nefnir en því fylgir nákvæmlega engin ábyrgð eða áhætta því það er útilokað að nokkur verði ákærður í kjölfar hennar. Hún er ágæt stuðningsyfirlýsing en ekkert meira en það og nei, það er mér ekki nóg að lýsa yfir stuðningi þegar möguleiki er á að fólk verði dæmt í fangelsi vegna máls sem ég ber ekkert minni ábyrgð á og sennilega ívið meiri en sumir þeirra sem nú sæta ákæru um að hafa ógnað sjálfstæði þingsins.

  Vissulega er þægilegra að læðast með veggjum og forðast að vekja athygli á hlutdeild sinni en að taka áhættu á því að sæta pólitískum ofsóknum. Hvort það er heilbrigðara en að hlýða réttlætiskennd sinni er svo aftur undeilanlegt.

  Þann 20. maí sl. birti Kastljósið myndskeið sem sýnir atburði sem fjölmiðlar hafa hiklaust fjallað um sem ofbeldi. Smugan minntist á það daginn eftir en aðrir fjölmiðar virðast ætla að þagga það niður í stað þess að biðjast afsökunar. Síðast í dag birti rúv umfjöllun um þetta mál þar sem hvergi er komið inn á rangfærslurnar varðandi meint ofbeldi, hvað þá óréttlætið í því að aðeins hluti þeirra sem tóku þátt í aðgerðinni séu dregnir fyrir dóm. http://dagskra.ruv.is/ras1/4517512/2010/05/26/

  Umfjöllun síðast í þessum þætti http://dagskra.ruv.is/ras2/4520875/2010/05/26/ ber þó allavega vott um heilbrigða réttsýni en ekki er þar minnst á fáránleik þess að ásaka þau um líkamlegt ofbeldi. Þess væri því óskandi að fleiri úr hópi þeirra sem misbýður þessi þöggun væru haldnir nógu mikilli ‘athyglissýki’ til að neita að sætta sig við það.

  Posted by: Eva | 26.05.2010 | 19:41:32

  —————————————————————————

  Það er góðra gjalda vert að benda á augljósa þöggun fjölmila um uppljóstranir Kastljóss en svar þitt hvað varðar mína færslu er vandræðalegur útúrsnúníngur í besta lagi.

  Ég sagði ekki að aktífismi þinn eða annara einkenndist af athyglisýki. Þú sjálf ert greinilega athyglisjúk per se. Og það í svo miklu mæli að þú skeytir engu um heill þessa fólks um leið og þú tranar þér fram í þetta mál.

  Segðu mér eitt Norn, hafðir þú samráð við sjálfa sakborningana áður en þú ákvaðst að senda opinberum aðilum eins nákvæma greinagerð um aðdraganda þessara mótmæla?

  Leitaðir þú álits einhvers af lögfræðingum nímenningana á undan þessu frumhlaupi þínu?

  Posted by: Jón | 26.05.2010 | 20:59:59

  —————————————————————————

  Það væri nú viðeigandi að þú rökstyddir það sem þú segir því hér hefur ekki verið snúið út úr neinu og þessu með vandræðaganginn vísa ég til föðurhúsa.

  Athyglissýkisrökvillan er að verða dálítið þreytt. Athyglissýki er vissulega til sem persónuleikaröskun, t.d. þegar fólk gerir sér upp hræðilega sjúkdóma eða veitir sjálfu sér áverka og kærir svo líkamsárás. Oftar er þetta hugtak þó notað í því skyni að þagga niður í fólki sem þykir hafa óþægilegar skoðanir eða gera lítið úr listamönnum og öðrum sem skera sig úr fjöldanum. Það er fremur lítilmannlegt að ætla fólki sem er tilbúið til að leggja sjálft sig í hættu vegna réttlætismála að gera slíkt af einhverjum annarlegum hvötum.

  Nei ég hafði ekki samband við sakborninga áður en ég sendi yfirlýsinguna frá mér. Ég hefði átt að gera það, það var tillitslaust af mér að gera þeim ekki viðvart áður og mér þykir leitt að hafa hlaupið á mig að því leyti. Hinsvegar hefði verið beinlínis ljótt að gefa þeim einhvern atkvæðisrétt um það hvort ég gerði þetta eða ekki. Sennilega er stærsta ástæðan fyrir því að fleiri hafa ekki lýst sig ábyrga, sú hugmynd að það sé óþarfi að fleiri verði fyrir óþægindum en nauðsynlegt er. Ég er því ósammála. Það eru miklu meiri líkur á að málum sé vísað frá ef stórir hópar fólks lýsa yfir aðild.

  Já ég hafði samband við lögmann sakborninga í þessu máli strax við fyrstu þingsetningu og taldi upp þau atriði sem ég hefði hug á að lýsa ábyrgð á en ég birti ekki svar hans án leyfis.

  Sú hugmynd að það sé eitthvað í þessari greinargerð sem er öðrum til óheilla er alveg út úr kortinu. Það hefur margoft komið fram í máli ákærðu að fólk sem sumt hafði aldrei sést áður kom saman eftir orðróm um að einhverskonar mótmæli væru í uppsiglingu án þess að nokkur herforingi gæfi fyrirmæli. Það hefur komið fram að þau töldu og (telja enn) aðgerðina löglega og einnig að tilgangurinn var sá að lesa upp áskorun til þingmanna um að segja af sér. Það eina sem er nýtt í þessu bréfi mínu er lýsingin á því hvað ég sjálf gerði. Það ógnar ekki heill nokkurs manns nema hugsanlega sjálfrar mín.

  Annars var tilgangur minn með þessari yfirlýsingu ekki sá að vekja umræður um meinta athyglissýki mína, heldur vonaði ég og vona enn að umræða um málið lognist ekki út af, að fleiri rísi upp og segi
  ’ég reyndi að komast á þingpallana þennan dag, kærið mig fyrir það’, að einhver segi
  ’ég barði pott fyrir utan Alþingishúsið 21. janúar, með þeim ásetningi að trufla störf þingsins.’ ’Ég bar vörubretti að bálkesti við Þjóðleikhúsið’,
  ’Ég barði á rúður Stjórnarráðshússins’ o.s.frv.
  Ef þú Jón vilt frekar sýna ákærðu í þessu máli samstöðu þína með því að hneykslast á fólki sem lýsir ábyrgð sinni (og beina þar með athyglinni að þeim sem þú ert búinn að sjúkdómsgreina) þá er þér velkomið að halda þessu áfram. Sjálf hef ég meiri áhuga á umræðu um það hvað þurfi að gera til að stöðva þessa tilraun yfirvalda til að bæla niður kjark fólks til að nýta sér tjáningarfrelsi sitt.

  Posted by: Eva | 27.05.2010 | 0:38:43

  —————————————————————————

  Vertu ekkert að gera fórnarlamb úr sjálfri þér, Eva. Þú lætur eins og ég fari með mál afturhalds og kúgunar þegar ég hef aðeins leyft mér að setja spurningarmerki við þá leið sem þú velur til þess að styðja nímenningana og þín mótíf þar að baki.

  Hvað varðar „athyglissýkina“ sem virðist koma mikið við kauninn á þér þá vil æég nú bara nú bara benda á að af öllum þeim færslum sem er að finna á þessari blogsíðu þá er ekki ein einasta um mál nímenningana, og það þó þetta mál sé búið að malla eins lengi og það hefur gert. Af því mætti draga þá ályktun að þú sérð þig fyrst knúna til að taka upp hanskann fyrir sakborningum þegar þú eygir loks leið til að tengja sjálfa þig við málið. Það er kannski ekki sjúkleg athyglisþörf þar að baki en umtalsverð virðist þó þörfin vera.

  Ég held ekki að þú sért svo vitlaus eða fákunnug um aðferðir lögreglu og saksóknara í málum sem þessu að vita það vel að minnstu upplýsingar geta nýst þeim sem vopn til rangtúlkana sem geta ráðið úrslitum um spurningu um sekt eða ósekju eða leitt til þyngri dóma.

  Ég ætla ekki að segja meir um það hér. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð segir málshátturinn.

  Ábyrgðarleysi þitt og dómgreindarleysi í þessu máli finnst mér slíkt að þú hlítur sjá þörf á að draga vissan lærdóm með sjálfri þér af þessu.

  Að þú skulir ekki hafa borið þetta undir neina sakborningana er auðvitað vítavert. Mér finnst ótrúlegt að lögfræðingur hafi samþykkt aðkomu þína að málinu með þessum hætti. Ef ég væri skjólstæðingur hans myndi ég losa mig við hann hið snarasta.

  Ég hef ekki meir að segja um þetta.

  Posted by: Jón | 27.05.2010 | 11:15:27

  —————————————————————————

  Jón, ef þú hefðir nú sýnt Evu þessa athygli sem hún er alltaf að kalla á þá vissir þú að bara lítið brot af því sem hún skrifar ratar inn á þessa bloggsíðu. Ef þú skrunar í gegnum facebook síðuna hennar þá sérðu að hún vísar hvað eftir annað í umfjöllun um þetta mál, fyrir utan það að skrifa um það sjálf. T.d. hérna:

  http://www.facebook.com/profile.php?id=603012962&v=app_2347471856#!/note.php?note_id=343715383659

  Fyrir utan flottamannamálin, Nató og þúsund fleiri baráttumál. Að saka þessa konu um að hafa ekki áhuga á málinu nema til að trana sér fram er sjálfum þér til skammar.

  Posted by: Jón | 27.05.2010 | 18:21:02

  —————————————————————————

  Þegar ég eygi loksins leið til að tengja mig við málið?

  Hverskonar eiginlega rugl er þetta maður? Ég hef verið tengd þessu máli frá fyrsta degi og hefði lýst yfir aðild minni strax ef ég hefði búist við þessari framgöngu gegn sakborningum.

  Posted by: Eva | 27.05.2010 | 18:54:16

  —————————————————————————

  Ég fyrir mitt leiti mun kjósa að vinna ekki í framtíðinni með þér. Þér er greinilega ekki treystandi og þú hefur vægast sagt furðulegar hugmyndir um trúnað.

  Posted by: nafn | 28.05.2010 | 15:33:39

  —————————————————————————

  Þú hefur auðvitað fullan rétt til að vantreysta mér og ég skil þínar ástæður.

  Mér þykir fyrir því að hafa brugðist og vildi að ég gæti spólað til baka en maður breytir víst ekki því sem þegar er orðið.

  Ef þér dettur eitthvað í hug sem ég get gert til að þér líði betur, láttu mig þá vita.

  Posted by: Eva | 29.05.2010 | 16:25:44

  —————————————————————————

  Ég hef sjálfur tekið þátt í ýmsum aðgerðum og sé ekki hvernig Eva er að brjóta trúnað með því að viðurkenna aðild sína að þessum atburðum, sæji ekkert gegn því að vinna með henni ef þess gæfist einhvern tímann kostur. Ég sé heldur ekki hvað er að því að láta verkin tala, eins og hún hefur iðulega gert, og það vel!

  Posted by: Elfar | 1.06.2010 | 4:06:33

  —————————————————————————

  Ég hef sjálfur tekið þátt í ýmsum aðgerðum og sé ekki hvernig Eva er að brjóta trúnað með því að viðurkenna aðild sína að þessum atburðum, sæji ekkert gegn því að vinna með henni ef þess gæfist einhvern tímann kostur. Ég sé heldur ekki hvað er að því að láta verkin tala, eins og hún hefur iðulega gert, og það vel!

  Posted by: Elfar | 1.06.2010 | 4:07:53

  —————————————————————————

  Þetta er komment á eldri færslu sem ég vísa í að neðan.

  Hvernig er þetta eiginlega, telur þú þig gegna því hlutverki að vera einskonar tilkynningaskylda um hryðjuverkaógn sem steðjar að íslenska ríkinu!?

  Man ekki betur en að þú hafir áður komið fram með svona yfirlýsingar við hið opinbera, í viðtali við umhverfisráðherra fyrir nokkrum árum.

  Hvað ætli löggan hafi fengið margar hlerunarheimildir í gegn í krafti þessara yfirlýsinga þinna?

  Það er tími til kominnn að þú, Eva norn, farir að passa svolítið betur þennan stóra yfirlýsingaglaða kjaft.

  http://www.norn.is/sapuopera/2010/01/a_ala_upp_hryjuverkamenn.html

  Posted by: Garðar | 4.06.2010 | 13:33:51

  ——————————–
  Það er nú ekki oft sem ég segi LOL en þegar menn reyna að búa til drama úr skrifum af þessu tagi þá er það ekki paranoja heldur fremur hlægileg gremja.

  Það er fráleitt að hlerunarheimildir fáist út á það þótt einhver bendi á það hvernig passiv mótmæli þróast út í óeirðir þar sem valdi er misbeitt. Hitt er svo annað mál að hlerunarheimildir skipta engu máli, hlerunum er beitt án heimilda og það er ekkert nýtt.

  Posted by: Eva | 4.06.2010 | 20:53:53

  Vissulega stundar liðið hleranir án heimilda. En samt sem áður eru þeir sólgnir í heimildir til þessa. Svo til einhvers er að vinna fyrir þá.

  Hvers vegna heldur þú að þeir hafi leyft ástandinu að fara eins mikið úr böndunum og þeir létu það gera fyrir utan Hverfisgötustöðina þegar þið voruð að reyna að fá strákinn þinn lausan úr haldi?

  Eins og þeim hefði ekki verið í lófa lagið að tjónka við ykkur, annað hvort með hörðu eða miðlungshörðu áður en það gekk svo langt að fólki fannst það geta sprengt upp hurðina á aðallögreglustöð landsins!

  Nei, það er altalað í lögfræðistéttinni hér að þetta umrædda kvöld voru þeir vísvitandi að safna heimildum í sarpinn sinn.

  Og þú, Eva, ættir að fara að hugsa þinn gang.

  Þær yfirlýsingar sem þú hefur verið með geta vel talist, útfrá sjónarhóli yfirvaldsins, sem hótanir. Það nýta þeir sér.

  Þegar þú blandar þér í alvarleg sakamál með bakgrunnsupplýsingum sem ef til vill hafa ekki komið upp á yfirborðið áður kann yfirvaldið mörg ráð til þess notfæra sér það.

  Ég ber fulla virðingu fyrir þinni baráttu og vona að þú látir af þessari sjálfskipuðu útlegð þinni og komir aftur til landsins og takir upp baráttuþráðinn þar sem frá var horfið. Ekki veitir af á þessum doðatímum.

  En reyndu að vera ögn minna bláeyg og hjálpaðu ekki þrælunum óviljandi með því að gefa þeim t.d. óþarflega færi á öðrum sem eru með þér í þessari baráttu.

  Posted by: Garðar | 5.06.2010 | 2:23:13

  Garðar, ef þú telur virkilega að ég hafi gefið einhverjum færi á öðrum en sjálfri mér, ættir þú að útskýra hverjum ég hef gefið færi á hverjum og með hvaða orðum.

  Greinin sem þú vísar í snýst um það hvernig yfirvöld ýta undir líkurnar á óeirðum með því að brjóta á mótmælendum. Ég hef áður skrifað greinar um þetta efni og á sennilega eftir að skrifa ennþá fleiri. Hugsanlega má líta á þessa grein sem ‘sönnunargögn’ um að til sé fólk sem hefur næga söguþekkingu til að vita hvernig óeirðir þróast. Söguþekking er ekki ólögleg. Skoðanir sem yfirvöldum hugnast ekki eru það ekki heldur svo hvað í ósköpunum er það við þessa grein sem þú álítur svona hættulegt?

  Ef allir hugsuðu eins og þú virðist gera, myndi enginn halda uppi andófi. Enginn hefði þorað að gefa út bækur á borð við ‘Beinar aðgerðir’ þar sem hvatt er til aðgerða sem yfirvaldssinnar myndu skilgreina sem hryðjuverk. Pólitísk skáld eins og Guðmundur Böðvarsson hefðu aldrei þorað að skrifa undir nafni. Aftökupennar hefðu aldrei birt sín nafnlausu skrif heldur skriðið undir rúm af ótta við að Interpol yrði sigað á þá. Katrín Oddsdóttir hefði aldrei hótað stjórnvöldum og embættismönnum útburði. Enginn hefði þorað að kalla fulltrúa Nató morðingja. Fólkið sem safnaðist saman við lögreglustöðina hefði drifið sig heim þegar enginn opnaði við fyrsta bank af ótta við að einhver lögginn bæri kennsl á það. Enginn hefði opinberlega hvatt til uppreisnar og það væri búið að dæma Hörð Torfason í lífstíðarfangelsi fyrir að leiða byltingu af því að hann þorði að hvetja fólk til að trufla störf Alþingis. Sem betur fer búum við við ívið meira frelsi en Kínverjar og það frelsi eigum við að nýta okkur.

  Maður berst ekki gegn pólitískum ofsóknum með því að þegja, heldur með því að segja sannleikann. Sannleikurinn er sá að andófi er yfirleitt mætt með valdníðslu og íslensk stjórnvöld eru með málatilbúnaði sínum gegn fólkinu sem ætlaði á þingpallana að stíga stórt skref í átt að pólitískum ofsóknum. Annar sannleikur er sá að á Íslandi hafa mótmæli aldrei farið úr böndunum, fyrr en lögreglan hefur gripið til ofbeldis.

  Það er ekki ólöglegt að álíta stjórnsýslustofnanir vanhæfar og skora á fólk að segja af sér. Það er ekki ólöglegt að boða til eða mæta á fundi, það er ekki ólöglegt að mæta á þingpalla og það er ekki ólöglegt að segja skoðanir sínar. Öll eftirgjöf við þessi sjálfsögðu mannréttindi er moldarreka á gröf lýðræðisins og ég hefði haldið að það væri nóg fyrir þá sem berjast gegn valdníðslu að þurfa að kljást við þöggun stjórnvalda þótt samherjar þeirra þegi ekki líka þunnu hljóði eðs reyni jafnvel að þagga niður í þeim.

  Þegar bændur í Mývatnssveit sprengdu stífluna í ósum Mývatns árið 1970, játuðu þeir verknaðinn á sig allir sem einn, og það var þó sannarlega ólögleg aðgerð. Ef þeir hefðu látið aðeins þriðjung hópsins um ábyrgðina hefðu sennilega einhverjir refsidómar fallið. Það var með samábyrgð og sannsögli sem bændurnir sneru á yfirvöld. Í dag er samstaðan með 9 hræðum sem eiga að blæða fyrir andóf mörg þúsund manns hinsvegar svo léleg að mörgum dögum eftir að myndbandið úr Alþingishúsinu var sýnt í Kastljósinu höfðu innan við 700 undirskriftir safnast við þessa almennu yfirlýsingu um aðkomu að mótmælunum í kjölfar efnahagshrunsins. Vinir ákæruvaldsins eru ekki þeir sem segja hlutina hreint út, heldur hinir sem læðast með veggjum og nær væri þér að hamast á þeim en reyna af óþarfa paranoju að lesa eitthvað inn í mín skrif sem ekki er þar að finna.

  Posted by: Eva | 5.06.2010 | 7:59:24

  Það er margt rétt í því sem þú segir og sumt stórgott.

  En hvað varðar tenginguna við það sem ég var að segja er það bara útúrsnúningur kokkaður upp sjálfri þér til hagsbóta þegar þú átt ekki önnur rök.

  Það getur vel verið að það sem ég sagði líti út eins og paranoja frá bæjardyrum þess sem lifir í þeirri blekkingu að lögin séu til þess að vernda hann og vini hans og skoðanirnar ykkar.

  ÉG leyfði mér að tala um hvernig kaupin gerast raunverulega á eyrinni.

  Vandinn er enn sá sami: Þú ert lausmálg og kjaftar af þér, mögulega á kostnað annara.

  Þú átt ekki að vera með dylgjur og hótanir fyrir hönd annara en sjálfrar þín. Hvað þá að þú eigir að blanda þér í sakamál annara með upplýsingar um bakgrunn málsins sem hafa ekki komið áður fram. Slíkt er heimskulegt.

  Posted by: Garðar | 5.06.2010 | 11:17:49

  Æ Garðar ertu ekki til í að rökstyðja það sem þú segir.

  Hvaða útúrsnúning ertu að tala um? Hverju er ég að snúa út úr og í hverju felst útúrsnúningur minn?

  Hvaða dylgjur og hótanir hef ég verið með fyrir annarra hönd? Áttu við að það séu ‘hótun’ að tala um það hvernig friðsamleg mótmæli þróast í óeirðir? Ef svo er fyrir hvers hönd er þá sú hótun?

  Hvaða upplýsingar ertu að tala um sem ekki hafa komið fram áður?

  Posted by: Eva | 5.06.2010 | 12:26:10

  Þetta svar þitt er útúrsnúningur í sjálfu sér.

  Að þykjast ekki sjá samhengið og virða að vettugi rök sem ég hef fært fram og dæmi sem ég vísa í er óheiðarlegt.

  Ég er ekki einn um að hafa gagnrýnt þetta heimskulega fljótræði þitt.

  Reyndu að læra þína lexíu.

  Ellegar getur fólk eins og þú reynst öðrum aðgerðasinnum hættulegt.

  Posted by: Garðar | 6.06.2010 | 12:57:46

  Nei Garðar, þetta er ekki útúrsnúningur heldur einföld tilmæli um að þú færir rök fyrir máli þínu.

  Þér gremst að ég skuli segja eitthvað opinberlega sem þú myndir ekki segja sjálfur. Ég gerði mistök með því að tala ekki við sakborninga í Alþingishússmálinu áður en ég sendi yfirlýsinguna út. Það er eðlilegt að bregðast við uppákomum sem enginn átti von á og þér og öðrum er vitanlega velkomið að hafa skoðanir á mínum vinnubrögðum í þessu máli sem öðrum. Hinsvegar tjáir þú óánægju þína með fullyrðingum um að ég hafi sett fram hótanir fyrir annarra hönd og stofnað fólki í voða með því að gefa nýjar og áður óþekktar upplýsingar. Þetta eru innistæðulausar ásakanir.

  Posted by: Eva | 7.06.2010 | 8:35:00

  Eva, farðu í rass og rófu.

  Ég hef svo sannarlega komið með nóg af rökum og nenni ekki þessum þrætum við manneskju sem er búin að gera í sig á annara kostnað en neitar að viðurkenna mistök sín nema í smáskömmtum.

  Grundavallar atriðin eru í fyrsta lagi, að vera ekki með yfirlýsingar við yfirvöld um hvað sé meint að gerjast í einhverjum hópum fólks sem þú berð EKKERT umboð frá.

  Í öðru lagi: Í flestum hópum aðgerðasinna, bæði hér og erlendis, eru það óskrifuð lög að ef til handtöku og yfirheyrslu komi muni ALLIR neita að svara spurningum yfirheyrsluaðila.

  Þetta er gert til þess að ákæruvaldið hafi úr sem minnstu að moða. Þetta á auðvitað líka við um opinberar yfirlýsingar eftir á um aðdraganda og skipulag aðgerða.

  Ef einhver sættir sig ekki við það að neita að svara spurningum lögreglu gerist það í flestum tilfella að sá aðili er beðinn að taka ekki þátt í aðgerðinni. Ellegar dragi aðrir sig út úr henni, því þeim finnst réttaröryggi sínu ógnað af þessum eina.

  Að koma með yfirlýsingu um aðdraganda og skipulag svona aðgerða er algert brot á prinsippum borgaralegrar óhlýðni, svo maður tali ekki um brot á trúnaði þeirra sem þátt tóku.

  Að þú skulir vera svo óskammfeilin að hvetja mig til þess að fara hér opinberlega í saumana á því hvaða upplýsingar í því sem þú tjáðir þig opinberlega um mál nímenninganna geti skaðað þau sýnir svart á hvítu algert ábyrgðarleysi þitt og dómgreyndarleysi.

  Ég ætla ekki að fara að vinna heimavinnuna fyrir saksóknara eða lögregluna, þrátt fyrir eggjanir þína Eva!

  Ég segi þessum samræðum slitið hér með en að endingu vil ég benda öllum aðgerðasinnum á að varast það að taka þátt í aðgerðum í framtíðinni með Evu þessari, án þess að hún gefi algjört loforð um að halda aftur af sér í yfirheyrslum og láta af þessari heimskulegu yfirlýsingagleði sinni.

  Posted by: Garðar | 8.06.2010 | 11:40:02

   

Lokað er á athugasemdir.