Að klæða virðingarleysi í kurteislegan búning

Í umræðunni um umræðuna ber á ásökunum um ómálefnalegan málflutning. Ábendingar um vondan málflutning eiga oft við en stundum sér maður líka ummæli stimpluð ómálefnaleg, af því að einhver sem hefur góð rök fyrir máli sínu er óþarflega hvassyrtur eða bregst ókvæða við útúrsnúningum og rangfærslum. Verra er þó þegar fólk álítur að til þess að vera málefnalegur sé nóg að sýna kurteisi.

Ef markmið samræðu er að komast að sameiginlegri niðurstöðu, víkka sjóndeildarhringinn eða bæta við upplýsingum og sjónarmiðum, þarf sú samræða bæði að vera  málefnaleg og einkennast af gagnkvæmri virðingu. En markmiðið með samræðu er ekki alltaf sameiginleg niðurstaða. Stundum eiga sér stað rökræður milli fólks sem hefur svo ólíka afstöðu að það væri harla tilgangslaust að hefja samræðu með því markmiði stilla saman strengi, hvað þá að sannfæra hinn aðilann. Slík rökræða fer iðulega út í kappræður. Hvor aðili um sig hefur það að markmiði að upplýsa áheyrendur um það hversvegna hann telji málflutning hins aðilans ótækan og leggur því meiri áherslu á að hrekja rök andmælandans en að skoða málin út frá hans sjónarmiði. Slík samræða á fullan rétt á sér. Hún getur orðið hvöss, jafnvel jaðrað við að vera dónaleg án þess að það merki endilega að hún sé ómálefnaleg.

Það er ómálefnalegt að ráðast að persónu, enda er sú kappræðutækni einmitt dæmi um rökvillu. Þó verður ekki fram hjá því litið að þegar fólk sem er að reyna að ræða málin út frá rökum og gögnum, fær engin svör sem nálgast það að vera marktæk, þá er varla við öðru að búast en það bregðist við með reiði. Það er oft óheppilegt því það býður upp á tilgangslausa þrætu og skítkast á báða bóga og stundum verður tilfinningahitinn í umræðunni svo áberandi að hann yfirskyggir efnislega umfjöllun. Það hefur lítið upp á sig að setja góða rökfærslu fram með fjandskap, því þegar áherslan er á tilfinningar, týnast rökin. Samt sem áður er hörkurifrildi ekki endilega ómálefnalegt.

Málefnaleg umræða hefur eitt og aðeins eitt einkenni sem greinir hana frá ómálefnalegri umræðu: Hún er laus við rökvillur.

Málefnaleg umræða getur verið, og er oft, kurteisleg en það er ekki kurteisin sem gerir hana málefnalega. Fólk getur komið afskaplega virðulega fyrir á meðan það lýgur. Það getur beitt útúrsnúningum af stakri kurteisi og afvegaleitt umræðuna án þess að hækka róminn. Það getur haldið ró sinni á meðan það  fer með ósannindi eins og þau séu staðreyndir sem andmælandinn hafi ekki haft upplýsingar um. Þótt sé kannski erfiðara að átta sig á slíkum rökvillum en persónuárásum og stóryrðum eru þær ekkert málefnalegri en öskur og yfirdrull.

Það er ekkert málefnalegt við ræðutækni sem felst í  því að klæða virðingarleysi sitt í kurteislegan búning. Ekki frekar en það eru vísindi að nota málskrúð til að gefa gervivísindum fræðilegt yfirbragð.

Einnig birt hér

 _________________________________________________________________

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.