Að gera flóttamenn að aumingjum

Eftir meira en 13 mánuði í felum hefur flóttamaðurinn Mouhamed Lo loksins fengið því framgengt að mál hans verði tekið fyrir á Íslandi. (Ástæðan fyrir því að hann fór í felur er útskýrð hér.)

Það er mikill léttir fyrir Mouhamed að komast út úr húsi án þess að þurfa að óttast um öryggi sitt og að eygja loksins möguleikann á því að verða sjálfstæður. En vandamálin eru nú samt ekki úr sögunni. Þótt hann geti gengið um götur nýtur hann engra annarra réttinda og við vitum enn ekkert hvort hann fær hæli. (Hér er farið yfir möguleikana á því hvernig farið verður með hælisumsókn hans.)

Ingólfur Júlíusson tók myndina

Einn stærsti kosturinn við að vera ekki lengur ólögleg manneskja er að Mouhamed á núna rétt á því að framfleyta sér sjálfur í stað þess að vera upp á aðra kominn fjárhagslega. Það er ekkert einfalt mál fyrir flóttamann með stöðu hælisleitanda að fá vinnu en Mouhamed hefur sótt um á mörgum stöðum og margir hafa verið svo elskulegir að láta stuðningsmenn hans vita af atvinnurekendum sem vantar fólk og hann er semsagt kominn með vilyrði fyrir vinnu. Húrra, björninn unninn, eða það hélt ég. En nei,ónei. Þegar Mouhamed fór til að sækja um atvinnuleyfi fékk hann það svar að hann yrði að borga 30.000 kr fyrir það. Þegar lögfræðingurinn hans hafði samband við félagsþjónustu Reykjanessbæjar, (sem samkvæmt þjónustusamningi annast framfærslu og aðbúnað flóttamanna) og spurði hvort hægt væri að fá opinbera aðstoð til að fjármagna það, var svarið nei. Hann má hinsvegar flytja á Fit og fá ókeypis húsnæði og uppihald. Það er ekki hægt að hjálpa honum um 30.000 til sjálfshjálpar en það er hinsvegar hægt að halda honum uppi á stað þar sem hann á enga möguleika á vinnu.

Við látum auðvitað ekki stöðva Mouhamed í því að fá vinnu og skapa sér nýtt líf. Því miður búa þó fæstir flóttamenn við þann lúxus að eiga stórt stuðningsnet og 30.000 kr geta auðveldlega orðið hindrun fyrir mann sem á enga að. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvaða hugsun sé á bak við það að neita manni um 30.000 kall en bjóða honum þess í stað að leggjast á spena. Hvernig í ósköpunum er þetta hugsað? Sér kerfið sér hag í því að gera flóttamenn að aumingjum?

Þetta lítur satt að segja út eins og kerfisbundnar aðgerðir til að koma í veg fyrir að flóttamenn komist í vinnu á Íslandi enda er það nokkuð örugg leið til að mynda tengsl og auka þar með líkur sínar á því að fá hæli. Svo gæti líka verið að það sé hreinlega fjárhagslega hagstætt fyrir Reykjanessbæ að hafa sem flesta flóttamenn þar, ég bara þekki ekki þjónustusamninginn en það læðist að manni grunur um að þetta snúist um hagsmuni Reykjanessbæjar en ekki heildarinnar og allra síst flóttamannsins sjálfs.

Það ríður á að Mouhamed fái atvinnuleyfi á meðan honum stendur starfið til boða, hann er búinn að fá alveg nóg af því að þurfa alltaf að vera að byrja upp á nýtt og hann hefur engan áhuga á að vera á framfæri Reykjanessbæjar. Þeir sem vilja hjálpa til geta lagt inn á reikning 101-26-020810.  kt. 560712-0810.  Öll framlög skipta máli, sama hversu lítil þau eru.

5 thoughts on “Að gera flóttamenn að aumingjum

  1. Er einhver leið að koma framlögum á framfæri erlendis frá? PayPal reikningur eða eitthvað slíkt?
    Bestu kveðjur
    KA

  2. Það er náttúrulega hægt að senda í gegnum Western Union. Ef þú vilt gera það geturðu komið úttektarnúmerinu til hans annaðhvort í gegnum mig eða No Borders.

  3. Ég hef bara ekkert náð í gjaldkerann til að ganga úr skugga um það. Mér finnst það samt líklegt því viðbrögðin hafa verið góð og margir sagt mér að þeir hafi lagt inn.

Lokað er á athugasemdir.