Ásýnd fegurðar minnar

Það er hið mesta krapp að morgunljótuna megi lækna með vantsþambi. Undanfarnar vikur hef ég reynt þá aðferð enda hefur fegurð minni verið stórlega ábótavant. Þar hefur þó orðið á nokkur bragarbót og skal ég nú upplýsa áhugasama um galdurinn.

1) Teiknaðu galdrastafinn Þekk á skinnpjötlu og dreypu á hana slatta af tíðablóði þínu (já það er rétt, þetta virkar ekki fyrir karla og gamlar konur).

2) Taktu öll krem í baðskápnum sem á annað borð eru til þess ætluð að bæta útlit þitt, (ef þú átt ekkert nema útrunnið klofsveppakrem eða eitthvað álíka, hentu því þá, taktu svo helling af peningum og steðjaðu rakleitt í næstu snyrtivörubúð) og smyrðu þeim í ótæpilegu magni yfir skrokk þinn og andlit.

3) Ef þetta dugar ekki til þess að gjöra þig fagra, berðu þá skinnpjötluna með galdrastafnum innan klæða í þrjá daga. Taktu svo helling af peningum og fórnaðu Iðunni þeim á næstu húðfríðkunarstöð.

4) Taktu annan helling af peningum og fórnaðu Afródítu þeim á næstu hárfríðkunarstöð. Þú getur einnig heitið á Jesús í þessu tilviki enda ku hann hafa verið hárprúður allt til enda. Væri þá viðeigandi að yfirgefa hárfríðkuna með orðunum „það er fullkomnað.“

5) Líttu í spegil og spurðu hann hvernig þú lítir út. Ef hann svarar „fríðleik þínum fagna ber“ skaltu segja öllum vinkonum þínum frá töframætti Þekks. Ef ekki, teiknaðu þá Þekk á dömubindi og notaðu það næst þegar þú ert á túr, (það hlýtur fjandinn hafi það að vera nógu blóðugt fyrir hann) reddaðu svo meiri pening og skilaðu fórninni af þér hjá góðum lýtalækni.

 

Í augnabliknu ber að fagna fríðleik mínum og mun ég taka við skjalli aðdáenda í Nornabúðinni á afgreiðslutíma, allavega fram á miðvikudag. Hugsanlega lengur ef galdurinn hefur heppnast nógu vel til að ég nenni að tæta burt augnbrúnahár (sem einatt vaxa einhverstaðar langt fyrir utan æskilega línu) jafnóðum og þau vaxa. Af biturri reynslu veit ég þó að áhrif Þekks vara sjaldan lengi og því greip ég með mér bækling þegar ég heimsótti húðfríðkuna. Nú hef ég lokið lestrinum en það tók nokkurn tíma þar sem bæklingurinn inniheldur einhverja torræðustu galdraþulu sem ég nokkurntíma hef séð.

Árið 1994 lærði ég gotnesku. Ég hef að mestu glutrað henni niður, enda eru Gotar ekki áberandi í okkar fjölmenningarsamfélagi og lítið úrval af gotneskum raunveruleikaþáttum í sjónvarpinu en sennilega gengi mér þó betur skilja bæklinginn ef hann væri skrifaður á gotnesku en á þessu dulmáli.

Ég er kona þrautseig og eftir þriðja lestur tók ég að grilla í ljósið handan hinna myrku ganga í völundarhúsi óvirks orðaforða. Komst þá að raun um að galdurinn felst í notkun fjölsykrusýru sem er:

niðurbrjótanleg, en þó stöðug og er framleidd undir ströngum gæðastöðlum einkaleyfis okkar. Niðurstaðan er þrír valmöguleikar gels…

Það gleður mig ósegjanlega að vita að ég hafi þrjá valmöguleika gels. Hingað til hef ég ekki haft neinn valmöguleika gels og það gat allt eins verið að ég dytti niður á fjölsykrusýru sem hefði bara tvo valmöguleika gels. Ég hefði jafnvel getað hitt á fyrirtæki sem vinnur bara eftir ströngum gæðastöðlum en ekki eftir ströngum gæðastöðlum einkaleyfis. Mér finnst einnig gott að vita að:

sambærilegar vörur hafa samkvæmt samanburði enst skemur.

Manni getur nú varla staðið á sama um svona mörg söm. Ég er orðin nokkuð vel að mér um töfra fjölsykrusýrunnar en ein málsgrein vefst þó verulega fyrir mér:

Ásýnd fegurðar breytist með tímanum, eins og andlit okkar þegar við eldumst.

Ég verð að játa að þrátt fyrir mikil heilabrot hefur mér ekki tekist að ráða þessa dulgátu og hef ég þó leitað vísbendinga í sunnudagskrossgátu Moggans mánuði aftur í tímann.

Það kemur kannski ekki að sök þótt ég skilji ekki nokkrar setningar. Af samhengi bæklingsins má ráða að heildstæð útlitsúrræði séu besta niðurstaðan til að lágmarka skaða af völdum toxískra fegurðarlausna með virkum hætti og í raun nægja þær upplýsingar. Þrír valmöguleikar gels eru hreinlega málið. Allavega þegar ásýnd fegurðar er annars vegar.

One thought on “Ásýnd fegurðar minnar

  1. Tjásur:

    hahahahahaha…

    Mikið skil ég þig vel, þessi „fegurðarheimur“ er torskilinn og áttu þakkir mínar fyrir að hafa sagt frá þessum valmöguleikum gelsins góða.

    Posted by: Jóda | 14.04.2007 | 13:41:52

    ————————————————–

    nú var mér rækilega dillað, snyrtistofur eru gósenland fyrir málfarslöggur í vígahug:)

    Posted by: baun | 14.04.2007 | 14:19:14

    ————————————————–

    Ég grét af hlátri við lesturinn! Algjör snilld 🙂 Fyrr í dag voru Anna.is og baunin búin að skemmta mér helling líka. Mér finnst ég svo heppin að hafa fundið almennileg blogg til að lesa 🙂

    Posted by: Sigga | 14.04.2007 | 17:21:42

    ————————————————–

    Schnilld!

    Posted by: Jón Kjartan. | 14.04.2007 | 19:40:22

Lokað er á athugasemdir.