Stjörnurnar hennar Rebekku

Nú hylja skýin himins stjörnur sýnum
og helgrá fjöllin sveipa þokuslæður.
Á þorpið herjar hríðarbylur skæður
og hrekur lítinn fugl úr garði þínum.

Í mannsins heimi finnst þó fegurð síður,
þar fyrir völd og gróða berjast bræður
og fjandinn sjálfur flestum ríkjum ræður
er fátækt, stríð og spilling húsum ríður.

Þó áttu sjálfa veröldina að vini
því verðugt er að líta jörðu nær
þá fegurð sem við fætur þína grær,
í garðinum, frá götuljóssins skini
glitra allt um kring og undir skónum
þúsund stjörnur, þér til gleði, í snjónum.

Gímaldin gerði lag við þetta kvæði og gaf út 2012.

Share to Facebook