Hvatvísur

Þú kalla mátt það hvatvísi að hafa
kjark til þess að standa eða falla
en heigulshátt ég helberan það kalla
að hjakka í gömlu fari af tómum vafa.

Það hefur enginn á þig ljótu logið
og líf þitt hefur flotið hjá í draumi
en ég hef alltaf staðið móti straumi,
stokkið fram af brún og oftast flogið.

Þótt kunni ég ekki forráð mínum fæti
og fyrirhyggju mest í hófi brúki,
og þótt úr einu verki í annað rjúki
með árangri ég fyrir ganið bæti.

Það verður sjaldan varanlegur skaði
þótt vanhugsaða ákvörðun ég taki.
Og brenni ég mér allar brýr að baki
ég byggi aðrar traustari með hraði.

Share to Facebook