Föstudagskvöldið þegar Ingó fór í fýlu

Það er þannig með sumt fólk að það er einfaldlega fyndið. Millý var þannig. Allt sem hún sagði varð einhvernveginn fyndið og ekki nóg með það heldur fannst henni líka allt sem við hin sögðum vera fyndið. Hún hló mikið. Og svo var hún sæt líka. Allt sem hún gerði var annað hvort fyndið, sexý eða sætt. Ef eitthvert okkar hinna hefði sett rör í bjórinn sinn til að gera “blubblur” hefði það verið álitið merki um barnaskap en þegar Millý gerði það var það fyndið. Reyndar var það ekkert oft sem við drukkum bjór á þessum tíma og ég held ég svona eftir á að hyggja að það hafi verið Millý sem stjórnaði því eins og öllu öðru. Hún var lítið fyrir áfengi sjálf og við höfðum tilhneigingu til að gera það sem hún stakk upp á. Okkur leið vel nálægt henni. Öfunduðum Ingó. Ég og Haffi allavega.

Föstudagskvöldið þegar Ingó fór í fýlu líður mér seint úr minni. Ekki svo að skilja að neitt merkilegt hafi gerst. Það var bara þetta kvöld sem breytti samskiptum okkar við Millý varanlega. Það hlaut auðvitað að koma að því en það var samt svolítið sárt.

Klukkan var að ganga 9. Við Ingó sátum við borðstofuborðið og pældum í gegnum stærðfræði 212, (best að ljúka þeim fjandans hryllingi af fyrir helgi) Haffi var rétt að koma inn og Millý sat í sófanum inni í stofu, horfði á fréttirnar og reykti. Þegar stærðfræðin var frá var helgin byrjuð og ég var óendanlega glaður. Við áttum eftir verkefni í öðrum fögum en þau myndum við hrista þau fram úr erminni. Það var bara stærðfræðin sem alltaf lá á okkur eins og mara. Kannski var það þessvegna sem mér fannst Ingó ekki hafa neina afsökun til að vera ekki fullkomlega hamingjusamur þegar við loksins vorum búnir. En það var stutt í fýluna í honum. Þegar við komum inn í stofu var Haffi að nudda tærnar á Millý og það fór greinilega í taugarnar á Ingó. Hann sagði að vísu ekkert en ég sá þyngja yfir honum.

Fréttatímanum var að ljúka með frétt af nýju bóluefni við sjaldgæfum sjúkdómi í fílum. Efnið hafði verið reynt í dýragarði á Spáni.
“Hey! Ingó. Þetta er dýragarðurinn sem við skoðuðum í sumar.” sagði Millý. “Sjáðu. Þetta er sami fíllinn, er það ekki.”
“Jú, svei mér þá” sagði Ingó og brosti.
“Djöfull var gaman!” sagði Millý og Ingó kinkaði kolli til samþykkis. “Já, eiginlega,” sagði hann sposkur og við Haffi öfunduðum hann af öllu hjarta af því að hafa verið einn með Millý á fjarlægri strönd. Höfðum margheyrt sögurnar úr ferðinni. Söguna af því þegar þau lögðu bílnum í vegkanti og álpuðust fótgangandi inn í lítið fjallaþorp um miðja nótt. Villtust og þurftu að vekja þorpsbúa, sem töluðu ekki eitt orð í ensku, til að fá hjálp við að finna bílinn. Söguna af því þegar mótorhjólagengi elti Ingó bæjarenda á milli vegna einhvers misskilings. Ingó gerði að vísu lítið úr ógurleika þessara spænsku töffara en frásögn Millýar var sveipuð mun ævintýralegri blæ.

“Hver ætlar að panta pizzu?” sagði Millý og Ingó rauk í símann. Pizza var orðinn fastur liður á föstudagskvöldum og óþarfi að spyrja hvaða álegg við vildum. Við veltum fyrir okkur hvernig við ættum að verja kvöldinu. Leigja vídeóspólu? Eða spila Risk?
“Er ekki orðið langt síðan við höfum farið í bæinn á föstudagskvöldi? Hvernig væri að skreppa aðeins á rúntinn?” sagði Millý. Hún stóð upp úr sófanum og teygði sig svo rauð peysan lyftist upp fyrir naflann og stinnir magavöðvar blöstu við.
“Millý, þú ert viðbjóðslega sexý í þessari peysu” sagði Haffi og augnaráð hans smaug undir beltið og ofan í gallabuxurnar hennar. Hún hló og fleygði fallega dökkbrúna hárinu sínu aftur fyrir axlir með þokkafullri sveiflu.
“Geturðu ekki hugsað með öðru en tittlingnum?” sagði Ingó eiturfúll.
“Slappaðu af maður!” sagði Haffi. “Jú, ég væri alveg til í að fara á rúntinn.” bætti hann við og mændi á Millý.
“Til hvers?” sagði Ingó
“Kíkja á flott brjóst” sagði Millý glettnislega.
“Vúúú! Hefurðu gaman af brjóstum?” sagði ég
“Bara að horfa á þau sagði Millý. Mér sýnist nú á öllu að Ingó gæti haft gaman af að sjá brjóst.”
“Ég hefði gaman af að sjá ákveðin brjóst” sagði Haffi og horfði greddulega á Millý.
“Jú visshh!” sagði Millý.
“Djös perri geturðu verið!” sagði Ingó og brúnin á honum léttist ekki hið minnsta þegar Haffi spurði hvað væri eiginlega langt síðan hann hefði fengið að ríða.
“Ég ætla ekki að ræða mínar ríðingar fyrir framan hana. Með fullri virðingu!” sagði hann snúðugt. Millý greip fyrir eyrun.
“Ég skal ekki hlusta” sagði hún og veltist um af hlátri þegar Ingó kastaði í hana púða.
Dyrabjallan hringdi og Ingó fór fram að sækja pizzuna.

“Haffi. Ég held að þú ættir að láta það vera að djóka svona við mig fyrir framan Ingó. Hann tekur þetta greinilega nærri sér,” sagði Millý á meðan Ingó var frammi.
“Blessuð góða, þetta er bara í nösunum á honum” sagði Haffi.
“Nei, það held ég ekki” sagði Millý “Í alvöru Haffi, ég þekki Ingó betur en nokkur annar og þetta kemur eitthvað illa við hann. Það er óþarfi að ergja hann.” Ingó kom inn með pizzuna og Haffi sat á sér. Millý tætti af sér brandara yfir pizzunni og Ingó hló ekki minna en við Haffi. Augnablik var eins og ætlaði að rætast úr kvöldinu.

“Eigum við þá að fara í bæinn?” sagði Haffi þegar Pizzan var uppétin.
“Farið þið. Ég nenni ekki með” sagði Ingó og fór fram í eldhús. Það var eitthvað í svip hans og málrómi sem gerði okkur ljóst að það var eitthvað mikið að hjá honum. Millý ætlaði að fara fram á eftir honum en ég stoppaði hana.
“Nei. Láttu mig fara,” sagði ég, “ég held að það sé betra.”

Ingó sat inni í eldhúsi og reiðin sauð í honum.
“Hvað er að?” sagði ég
“Ekkert!” sagði Ingó með samanklemmdar varir.
“Ingó láttu ekki svona, ég veit að það er eitthvað að.”
“Það er ekkert að. Það fer bara í taugarnar á mér að hún skuli alltaf vera með. Stundum finnst mér ég ekki geta andað. Og svo hvernig Haffi lætur utan í henni.”
Það var alveg satt. Það var óþarfi af Haffa að láta hann sjá það. Ég get svosem vel skilið Haffa. Auðvitað langaði hann að sofa hjá Millý. Mig langaði það reyndar líka. En Ingó var nú einu sinni vinur okkar.

“Það er ekkert á milli hennar og Haffa. Hann lætur bara svona” sagði ég
“Þetta snýst ekkert bara um það. Mér finnst bara þrúgandi að hafa hana alltaf í eftirdragi. Ég kann t.d. ekki við að reyna við stelpur fyrir framan hana og svo finnst mér þetta bara óþægilegt. Af hverju getur hún ekki bara verið með vinkonum sínum um helgar?”
“Ingó. Við verðum öll svekkt ef þú kemur ekki með.”
“Veistu það, mér er bara fokkings sama. Ég nenni þessu ekki.” Það var greinilegt að Ingó var alvara.
“Ingó. Komdu með núna. Gerðu það. Bara til að skemma ekki kvöldið. Svo annað kvöld skulum við detta í það og þá tökum við hana ekki með. Ég lofa því.” Það varð úr að hann kom með.

“Förum á mínum bíl, hann er skárri en druslan hans Kidda” sagði Millý á leiðinni út.
“Ég skal keyra” sagði Haffi.
“Er ekki best að Millý keyri? Þetta er hennar bíll” sagði ég.
“Ég kem EKKI með ef hún verður við stýrið” sagði Ingó.
“Hvað er aððér mar?”
“Hún er stórhættuleg!”
“Er ekki allt í lagi með þig Ingó minn? Það er nú ekki eins og þú sért neitt óvanur því að sitja í bíl hjá mér.” Sagði Millý og hló
“Kiddi getur ekið” sagði Ingó og fýlan lak af honum.
“Kommon Ingó vert´ ekki svona grömpý. Það er ekki hægt að tsjilla með þér þegar þú lætur svona” sagði Millý
“Hvað er að þér manneskja! Geturðu ekki talað íslensku!?!” hreytti Ingó út úr sér.
Millý hló. “Mæl manna heilastur Ingólfr landnámsmaðr. Vér munum mæla á gullaldartungu í ökuferð þessari.” Haffi tók hana á orðinu og þau töluðu á fornmáli það sem eftir var kvöldins. Það var reyndar mjög fyndið og ég reyndi að taka þátt en fann að Ingó leið illa og naut þess ekki sem skildi. Hann pillaði stöðugt á Millý og þótt hún virtist ekki taka eftir því fékk það dálítið á okkur Haffa. Við fórum óvenju snemma heim.

“Djöfull er Ingó tæpur maður” sagði Haffi þegar ég skutlaði honum heim upp úr miðnætti.“Ég meina, hvernig hann lét við Millý í kvöld. Hann á við eitthvert alvarlegt vandamál að stríða drengurinn.”
“Ég er ekki viss um að það sé hann. Ég held að vandamálið sé hjá henni” sagði ég.
“Nú?!”

“Já. Þetta er skrýtið með hana Millý. Hún er náttúrulega frábær. Ýkt skemmtileg og gaman að hafa hana með og allt það. En í alvöru, það er eins og hún vilji alls ekki sleppa hendinni af Ingó. Kannski er hún bara hrædd við að vera ein eða svona hrædd um að hann komi sér í einhver vandræði.“

Haffi virtist aldrei hafa hugsað út í þann möguleika svo ég hélt áfram:
„Ég held að það sé þessvegna sem hún hegðar sér eins og unglingur og er alltaf með okkur. Til að geta haft stöðugt eftirlit með honum. Ég skil Ingó alveg. Held allavega að ég brygðist alveg eins við ef hún væri mamma mín.”

Share to Facebook