Sagan af prinsessunni sem lét neglur sínar vaxa

Einu sinni var prinsessa sem bjó í glæsilegum kastala uppi á háu fjalli. Þetta var ákaflega kvenleg og vel upp alin prinsessa sem talaði ekki nema til þess væri ætlast sérstaklega heldur sat í hásæti sínu, stillt, prúð og undirleit og brosti kurteislega í allar áttir. Á daginn sat hún við gluggann í efsta turninum, horfði yfir ríki sitt og saumaði blómamynstur í silkidúk. Að vísu leiddist henni það óskaplega og stundum stakk hún sig á nálinni en hún bölvaði ekki eins og togarajaxl, heldur hélt áfram að brosa. Á kvöldin lék hún á píanó í veislum sem faðir hennar, konungurinn hélt tignarfólki til heiðurs og þótt henni leiddust píanóæfingarnar, kvartaði hún ekki heldur hélt áfram að æfa sig, alveg þar til gestirnir tóku meira eftir tónlistinni en brjóstmáli hennar og geri aðrar betur!

En dag nokkurn fékk prinsessan nóg af því lífi sem hún lifði. Hún fann enga sanna gleði í útsaum og píanóleik og fann að aðrar heimsins prinsessur stóðu henni hreint ekkert að baki í þeim efnum. Hana langaði að tigna fegurð sköpunarverksins á sínum eigin forsendum, gera eitthvað nýtt og spennandi, eitthvað frumlegt sem vekti eftirtekt. Og prinsessan fann ráð sem dugði, hún hætti ekki að brosa en hún hætti að klippa á sér neglurnar.

Neglurnar uxu mjög hratt. Brátt gat hún ekki lengur spilað á pínóið og þar kom að að hún gat heldur ekki saumað. En þetta gerði reyndar ekki svo mikið til þar sem tilgangur prinsessunnar í lífinu er sá að fylla heiminn fegurð og langar neglur eru jú afskaplega fallegar, ekki síður en píanóleikur eða útsaumur. Sjálf var hún ánægð, því nú hafði hún fundið tilgang í lífinu.

Neglur prinsessunnar uxu og uxu og konungurinn varð að ráða aukafólk að hirðinni, til þess að sverfa og lakka neglur prinsessunnar, því ekki máttu þær nú brotna. Brátt urðu neglurnar svo langar að hún gat alls ekki klætt sig sjálf eða baðað sig en það gerði ekkert til, konungurinn réði bara aukaþernur henni til aðstoðar. Brátt fóru ferðamenn að streyma til hallarinnar, sérstaklega til þess að horfa á neglur prinsessunnar sem uxu nú í fallegum hlykkjum fram af svölunum og hringuðust niður kastalaveggina líkast klifurplöntum. Hagvöxturinn óx og konungurinn var hamingjusamur. Sjálf var prinsessan hæstánægð. Nú gat hún setið brosandi allan daginn og baðað sig í athygli og aðdáun, án þess að þurfa að æfa sig á píanóið eða stinga sig á saumnál. Ferðamenn stóðu á öndinni af hrifningu og þegnar konungs voru þakklátir fyrir þá atvinnu sem skapaðist í kringum neglur prinsessunnar. Allir voru glaðir.

Einn var þó fylgikvilli þessarar botnlausu hamingju sem aldrei var nefndur innan konungsfjölskyldunnar en hirðfólkið pískraði þeim mun meira um sín á milli. Prinsessan gat vitanlega ekki skeint sig hjálparlaust með þessar löngu neglur og enda þótt hirðfólkið væri svosem allt saman ágætismanneskjur, var enginn í þess hópi verðugur þess heiðurs að fá að þurrka kúkinn af hinum konunglega botni. Og því er það svo enn í dag að þrátt fyrir geislandi bros og sérdeilis frumlega túlkun á fegurð sköpunarverksins er hálfgerð skítalykt af þessari fögru prinsessu.