Myndin af Jóni barnakennara

Dyrabjallan! Ég rýk undan sturtunni og hendist til dyra sveipuð stóru baðhandklæði. Það er amma. “Ég kom nú bara til að óska þér til hamingju elskan” segir hún, kyssir mig á kinnina og réttir lítinn kassa í gjafabréfi. Ég fylgi henni inn í stofu, ennþá með handklæðið vafið utan um mig og vatn lekandi úr hárinu.


“Hvað er að sjá brjóstið á þér krakki?” segir hún og einblínir á hvíta blettinni á bringunni á mér.
“Nistið” útskýri ég og handleik nisti sem liggur á borðinu. “Ég var með það úti í sólinni.”
“Tekurðu það aldrei af þér? Ég hef ekki séð þig með annað men í mörg ár.”
“Jú, ég tek það af mér þegar ég fer í bað, eða sund. Vil ekki að myndin skemmist” svara ég.

Ég klæði mig og sæki kaffi. Þegar ég kem aftur inn í stofu situr amma með nistið mitt opið og horfir á myndina.
“Kærasti?” spyr hún
“Neeei, ekki lengur” segi ég “ég er bara vön því að hafa hann þarna. Skiptir mig engu máli.”

Ég sest niður, set nistið aftur um háls mér svo það hylur hvíta blettinn og tek bréfið utan af kassanum. Lúinn skartgripakassi og í honum nisti sem ég hef séð áður. Fallegt sporöskulagað silfurnisti með rósaflúri og svörtum steini.
“Mamma átti það” segir amma “og nú vil ég að þú fáir það. Það er náttúrulega miklu fallegra en þitt og þú getur bara skipt um myndir.” Ég handleik nistið. Það er stærra og þyngra en mitt og silfurhúðin máð af bakhliðinni, sennilega af áralangri legu við brjóst langömmu minnar. Ég opna nisti langömmu. Tvær myndir. Aðra þekki ég, hún er af langafa Jóni, hina myndina hef ég ekki séð.
“Er þetta Guðmundur, bróðir hennar?” spyr ég.
“Neeei” svarar amma dræmlega. “Þetta er nú hann Jón barnakennari.”
“Ættingi?”
“Nei.” Löng þögn. “Rósa mín. Hefurðu aldrei heyrt söguna af honum Jóni barnakennara?”
“Nei. Hver var það?” Amma kveikir sér í sígarettu, sogar reykinn fast að sér, a.m.k. fimm sog áður en hún hefur frásögn sína.

“Mamma var ákaflega falleg ung stúlka. Óvenjufalleg verð ég að segja. Hún gat valið úr piltum, ekki vantaði það. En af einhverjum ástæðum sá hún engan nema Jón barnakennara. Enginn skyldi almennilega hvað hún sá við hann. Hann var lítið fyrir mann að sjá, horaður ræfill, skáldmæltur að vísu og þótti gamansamur en fyrst og fremst eignalaus vesalingur, enganveginn samboðinn mömmu. En það var víst eitthvað dulítið á milli þeirra skilst manni. Svo sveik hann hana og hún tók því illa, er mér sagt.”
“Sveik hana? Voru þau trúlofuð?”
“Nei, það voru þau nú ekki en í þá daga var það kallað að svíkja. En hann hefur sjálfsagt verið búinn að draga hana á tálar.”
“Ó, svo hún var tæld, stelpugreyið. Sennilega verið of heimsk til að átta sig á því hvert stefndi.”
“Það er óþarfi að vera með kaldhæðni Rósa, þetta hét það í þá daga.”
“Ókei, og hvað svo?”
“Ja, það er nú kannski ekki mikið meira um það að segja. Hún varð auðvitað að giftast einhverjum og þegar henni bauðst útgerðarmaður, á hennar mælikvarða vellauðugur, nú þá auðvitað tók hún honum. Annað hefði verið beinlínis heimskulegt.

En mamma var svosem engin venjuleg stúlka, bæði falleg og ástríðufull og pabbi talsvert eldri en hún. Hún gerði honum það ljóst strax að hún bæri hug til annars manns og hann skyldi ekki búast við að breyting yrði á þeim tilfinningum í bráðina.”
“Og hvað sagði afi þá?”
“Hann sagði nú sjaldan mikið hann pabbi. Í þá daga gerðu menn sér ekki mikla rellu út af ástinni, nema þá helst drykkjumenn og skáld. Hann hefur sjálfsagt vænst þess að þessi della ryki úr henni á nokkrum vikum. En því var nú aldeilis ekki að heilsa. Ég held að það hafi bara verið fjárans þrákelknin í henni mömmu sem varð þess valdandi að hún hélt slíku dauðahaldi í þessa æskuást. Þetta var náttúrulega ekkert normalt hvernig hún lét.”
“Hvernig þá? Talaði hún mikið um hann?”
“Nei, biddu fyrir þér barn. Hann Jón barnakennari var aldrei nokkurntíma nefndur á nafn á okkar heimili, fjarri því. En hún hengdi hins vegar upp mynd af honum í stofunni og þetta nisti bar hún ævinlega við brjóstið.”
“Og hvað sagði afi? Varla hefur hann verið sáttur við að hafa mynd af gömlum elskhuga hennar uppi á vegg í sinni eigin stofu?”
“Nei, hann var náttúrulega ekki sáttur. En hann sagði svosem ekki neitt.”

“Var myndin þar lengi?”
“Já Rósa. Mjög lengi. Svo langt sem ég man aftur og öll mín uppvaxtarár, hékk myndin af honum Jóni barnakennara, fyrir ofan píanóið í stofunni í Ásgarði. Hún hékk þar daginn sem ég byrjaði í skólanum og hún hékk þar daginn sem Jón barnakennari sjálfur tók í höndina á mér og útskrifaði mig formlega úr skóla.”
“Kenndi hann þér líka? Þessi sami maður?”
“Vitanlega, og okkur öllum krökkunum. Það var enginn annar barnakennari í þorpinu.

Ég man að stelpa í skólanum spurði mig einu sinni að því (ég hef sennilega verið 9 eða 10 ára) hvers vegna við hefðum mynd af honum Jóni í stofunni. Í þá daga fengu börn ekki að leika sér inni og hún hafði aldrei séð þessa mynd en auðvitað hefur fólk talað um þetta í eldhúsum. Ég man að spurningin kom mér á óvart. Myndin var svo eðlilegur hlutur í stofunni heima að ég hafði aldrei velt þessu fyrir mér. Ég spurði pabba. Ég man að hann fékk sér vel í nefið og snýtti sér lengi áður en hann svaraði. Svo sagði hann loksins: „Ja það er nú þannig Lilla mín, að sumt fólk vill hafa mynd af forsetanum eða Jesús í stofunni en hún mamma þín, hún vill hafa Jón barnakennara.”

“En einhverntíma hlýtur myndin að hafa verið tekin niður?”
“Já. Það kom að því, mikil ósköp. Þegar mamma dó var pabbi orðinn hrumur. Hann var aldrei neinn sérstakur harðjaxl og dauði hennar fékk svo mikið á hann að hann lagðist í rúmið. Hann bað okkur að leggja hana til með mynd af fjölskyldunni og sálmabók á brjóstinu. Dóra systir tók nistið af henni, nistið sem hún hafði borið við brjóst sér öll þessi ár. Hún ætlaði að henda því en ég kom því undan.

Mamma var jarðsungin og erfi hennar drukkið í stofunni í Ásgarði og enn hékk myndin af Jóni barnakennara uppi á vegg. Pabbi var sárlasinn allan jarðarfarardaginn og skreið inn í rúm um leið og gestirnir voru farnir. Við vorum að ganga frá eftir veisluna þegar hann kallaði á Dóru og bað hana að finna sig. Dóra fór inn til hans, og hvað heldurðu að gamli maðurinn hafi sagt: ”Æ, Dóra mín. Farðu nú inn í stofu fyrir mig og taktu niður myndina af honum Jóni barnakennara.“

Dóra gerði sem hann bað. Myndin fór niður og beina leið í ruslið. En fimmtíuog þrjú hjúskaparár höfðu sett mark á húsið sem við ólumst upp í. Veggfóðrið hafði gulnað, af tóbaksreyk, kertasóti og elli og fyrir ofan píanóið blasti nú við hvítur blettur, nákvæmlega jafnstór myndinni af Jóni barnakennara.”
“Var ekki hægt að mála?”
“Jú, jú, sjálfsagt hefði það verið hægt. En hann pabbi gamli var nú ekki vanur að eyða peningum í hégóma og þegar hann dó rúmum tveimur árum síðar var bletturinn ennþá á veggnum.”

“Þetta hlýtur stundum að hafa verið vandræðalegt” segi ég og legg nisti langömmu í flauelsfóðrað skartgripaskrínið mitt.
“Já, svona undir fermingu, þegar maður var loksins búinn að púsla saman sögubrotum héðan og þaðan og átta sig á því hvernig á þessu öllu stóð. Og það var auðvitað heldur ekkert skemmtilegt hvernig mamma strunsaði þóttafull fram hjá honum Jóni þegar hún mætti honum á götu, eða sat við hliðina á honum á kirkjubekknum án þess að virða hann viðlits. Pabbi sýndi þó alltaf þá kurteisi að heilsa.”

Hún þegir litla stund. Horfir á nistið liggjandi á rauðu flauelsklæði.
“Fimmtíu og þrjú ár. Það er langur tími til að syrgja einn mann” segir hún svo.
“Já, alltof langur” samsinni ég og tek af mér nistið með myndinni af Þresti og legg við hliðina á nisti langömmu.
“Hún hefði átt að láta 13 ár nægja” segi ég og loka skríninu.