Viltu verða ríkur?

Má bjóða þér skrilljón trilljónir?

Ég þekki engan sem myndi afþakka. Jafnvel þeir sem hafa megnan ímugust á efnishyggju, myndu þiggja skrilljónirnar til að nýta þær í baráttunni gegn græðgi. Flestir viðurkenna fúslega að þá langi í frelsið sem mikil fjárráð veita og meiri veraldleg gæði og ef marka má sölu á bókum sem heita Viltu verða ríkur, strax í dag?eða Hvernig ég varð skrilljóner með því að vinna hálftíma á viku þá mætti ætla að fólk hugsaði ekki um neitt annað en peninga. Markaðurinn er yfirfullur af töfralausum á ýmsu formi fyrir fólk sem vill verða ríkt og ekkert lát virðist á sölunni. Samt sem áður virðist hlutfall ofurríkra ekkert hækka. Sem segir manni að þetta virkar ekki -eða hvað?

Nei, reyndar er það ekki skýringin. Sannleikurinn er nefnilega sá að trixið verkar alveg EF maður fer eftir uppskriftinni. En nánast allar þessar bækur spyrja fljótlega, til hvers ætlarðu að nota skrilljón trilljónir? og stuttu síðar hvað ertu tilbúinn til að leggja á þig til að eignast skrilljón trilljónir? Og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Hugmyndin um að síkrita skrilljónir hljómar svosem vel en þótt flestir viti alveg hvað þeir myndu gera við 20 milljónir eða jafnvel 100, þá er hugmyndin um auðæfi auðæfanna vegna, of bjánaleg til að flest fólk verði raunverulega upptekið af einhverju sem virðist hvorki raunhæft né gagnlegt. Ég hef oft heyrt svarið ég vil bara verða subbulega ríkur en sá sem skilur háar upphæðir er sennilega þegar subbulega ríkur. Það er allavega eitthvað sóðalegt við það hversu miklum verðmætum er hent daglega og sú staðreynd að á flestum heimilum ganga rafmagnstæki að óþörfu allan sólarhringinn, ætti að sannfæra okkur um að flestum okkar er lítil vorkunn.

Í öðru lagi þá eru flestir alveg tilbúnir til að leggja rosalega mikinn helling á sig til að verða ríkir. Sennilega værirðu tilbúinn til að vinna hvíldarlaust tólf tíma á dag í marga mánuði og verja svo fjórum timum í viðbót til að læra kínversku ef þú sæir fram á að þéna skrilljónir á því. En bókin segir þér að þú þurfir ekki að strita. Það eina sem þú þurfir raunverulega að leggja á þig sé;
a) að koma þér upp persónutöfrum Satans, (sem merkir í raun að hegða þér ALLTAF eins og þú sért í broskeppni, líka daginn sem barnið þitt greinist með krabbamein og húsið brennur ofan af þér) og
b) að læra sölumennsku.
Og þá fara að renna á þig tvær grímur. Þú ert eiginlega til í hvað sem er, annað en að verða sækópati.

Þegar upp er staðið skipta efnisleg gæði þig nefnilega voðalega litlu máli og þegar þau skipta máli þá er það vegna heilsu og öryggis þín og þinna nánustu. Annað er hjóm og þú veist það vegna þess að þegar gjaldið sem þú þarft að greiða er ‘bara’ það að sannfæra sjálfan þig um að þú sért að gera heiminum stórkostlegan greiða með því að telja öllum sem þú hittir trú um að þeir verði hamingjusamir ef þeir kaupi spliff, donk og gengju og ennþá hamingjusamari ef þeir kaupi fimmtu kynslóð af spliffi, donki og gengju, þá hugsarðu sem svo að kannski dugi nú bara 3ja prósenta launahækkun. Jafnvel þeir sem kaupa hugmyndina og leggja sölumennsku fyrir sig, verða sjaldan betri sölumenn en svo að þeir eiga erfitt með að bjóða sínum nánustu spliffið, bjóða donkið ekki fyrr en þeir eru búnir að reyna allt annað og gefa afslátt af gengjunni. Sumir þeirra klifra nokkur þrep upp þennan stairway to heaven en til að komast í hóp hinna 10% sem eru ríkastir í heiminum, þarf viðkomadi að trúa því í einlægni að hann sé að þjóna tilgangi lífs síns með því að græða.

Sannleikurinn er sá að flest okkar langar ekki rassgat að verða rík. Við viljum meiri tíma til að sinna fjölskyldu, vinum og ástríðum okkar og teljum ranglega að það megi ekki kosta það að við drögum úr neyslunni. En við byggjum þessa hugmynd ekki á reynslu. Við höldum að meiri neysla auk meiri frítíma myndi færa okkur hamingju, bara vegna þess að þeir sem eru ríkir virðast vera hamingjusamir. En þeir eru það ekki. Það hentar þeim bara ágætlega að telja okkur trú um að eymd öreigans standi í beinu sambandi við fjárhagsstöðu hans, þegar sannleikurinn er sá að óhamingja fátæklingins stafar að mestu leyti af einhverju allt öðru og er sennilega ekkert alvarlegri en óhamingja ríka mannsins.

Ef auðæfi skiptu okkur verulegu máli myndum við yrkja um þau. Við myndum skrifa bækur um það hvað sé dásamlegt að vera ríkur og myndlistamenn myndu enduskapa einkaþotur og olíuborpalla, ekki til að sýna okkur firringu heldur fegurð. En við yrkjum ekki um peninga. Við yrkjum um ástina. Fagnaðarsöngvar snúast um kærleikann, friðinn og fegurð náttúrunnar, þeir eru lofgjörð til guðdómsins í víðu samhengi og þeir sem yrkja um náttúruna og mála landslagsmyndir eru ekkert endilega þeir sem hafa fjárfest í fullkomnum ferðabúnaði. Sorgarsöngvar snúast um missi, stríð og óréttlæti, sjaldan um blankheit, það er til en ekki mjög algengt. Þeir fáu sem á annað borð yrkja um fjármál, yrkja um óréttlætið sem felst í örbirgð og arðráni og draum fátæka mannsins um að verða ríkur. Áherslan er EKKI á það hvað sé mikil hamingja fólgin í því að vera ríkur heldur á skortinn. Jafnvel afþreyingarefni þar sem aðalpersónurnar eru forríkt fólk, beinir sjónum okkar meira að mannlegum samskiptum og ekki síst átökum en hamingjunni sem peningar eiga að veita. Ríkidæmið er bara umgjörð.

Hamingjurannsóknir sýna sáralitla eða enga fylgni á milli auðs og hamingju. Örbirgð er annað mál, það er varla við því að búast að fólk sé hamingjusamt ef það er hungrað, heimilislaust og með tannpínu en svo fremi sem fólk býr ekki við neyð, skiptir efnahagur mjög litlu máli fyrir hamingju okkar. Neyð getur leitt til óhamingju en auðæfi virðast samt ekki leiða til hamingju.

Og hversvegna er heimurinn þá svona ofboðslega upptekinn af því að eignast skrilljón trilljónir? Af hverju verða allar ‘ríkur án fyrirhafnar’ bækur metsölurit og af hverju kaupum við endalaust meira drasl enda þótt við séum nógu meðvituð um gagnsleysi þess til að geta varla hugsað okkur að troða því upp á aðra?

Ég held að það sé ekki tilviljun. Ég held að það sé algerlega meðvituð stefna þeirra 2ja prósenta mannkynsins sem stjórna heiminum, að halda hinum 98 prósentunum uppteknum við að reyna að komast ‘ofar’. Meðan við búum við það efnahagskerfi og þær hugmyndir um manngildi sem nú er við lýði mun hlutfall forríkra ekki breytast mikið og þeir vita það alveg, þeim stafar engin ógn af því þótt fleiri verði ríkir því þeir verða sjálfir ennþá ríkari við það. Ef framboð af gæðum dregst saman eru það einhverjir vesalingar sem tapa, ekki þeir ríkustu.

Jónína í Kóngabakkanum býr við betri kjör en aðalsfólk fyrir 100 árum en henni finnst hún ekki vera rík, vegna þess að hún ber sig saman við þá sem hafa meira. Það gerir hún jafnvel þótt tónlistin sem hún hlustar á sé oftast með textum sem snúast um ástina, þótt fb síðan hennar sé full af fjölskyldumyndum. þótt hennar leið til að ná hugarró sé sú að sitja á steini útí móa og hlusta á fuglana. Í hvert sinn sem henni líður illa, heldur hún að það lagist þegar hún er búin að borga upp skuldirnar eða þegar hún getur keypt nýtt sófasett. Svo fer hún og hittir vinkonu sína eða sefur hjá manninum sínum og líður miklu betur en fattar samt ekki tengslin.

Ranghugmynd Jónínu hentar þessum 2-10 prósentum mannkynsins sem byggja hamingju sína á völdum alveg ágætlega. Jónína mun halda áfram að strita, til að geta keypt allt draslið sem snatar þeirra strita við að selja henni til að geta fleiri drösl. Sjálfir vita þeir að það eru sjaldan auðæfin sem slík sem skipta mestu máli, heldur eru þau fyrst og fremst leið til að halda völdum. Ef maður er á annað borð ríkur þá er bara bónus að geta leyft sér allskonar lúxus og þetta tvennt fer saman en þeir myndu samt drekka staðinn Braga úr fjörutíu bolla hitakönnu fyrir meiri völd. Með því að halda stærstum hluta jarðarbúa uppteknum við að afla fjár viðhalda þeir völdum sínum. Á þeim grunni er efnahagskerfi alheimsins byggt og flest okkar eru því svo samdauna að við hugsum ekki einu sinni um það.

Finnst ykkur það í lagi?

Share to Facebook