Trix

Samkvæmt Mogganum biðst Hillary Clinton afsökunar á því að annað fólk hafi kosið að snúa út úr orðum hennar og leggja í þau fremur fjarstæðukennda merkingu. Mér finnst það afspyrnu hallærislegt þegar fólk getur ekki viðurkennt mistök sín og beðist afsökunar á þeim. En mér finnst það ekkert síður hallærislegt að biðjast afsökunar á hysteríu (eða jafnvel viljandi mistúlkun) annarra. Enda er það nú svosem ekkert á hreinu að hún hafi beðist afsökunar þótt fyrirsögnin gefi það til kynna. Samkvæmt fréttinni sagði hún aðeins að sér þætti leitt að fólk hefði lagt rangan skilning í orð hennar því hún hefði ekki ætlað sér að móðga neinn. Fólk virðist ekkert vera á einu máli um það hvaða merkingu eig að leggja í það að biðjast afsökunar. Sjálf get ég ómögulega litið á það sem afsökunarbeiðni þótt einhver leiðrétti misskilning. Til þess að biðjast afsökunar þarf maður fyrst að sjá hjá sér sök og langa til að bera hana af sér.

Í mínum huga jafngildir afsökunarbeiðni því að segja; ég gerði mistök og ég vil forðast að gera sambærileg mistök aftur en þessi mistök eiga sér skýringu sem ég vona að þú takir til greina. Ég lít svo aftur á fyrirgefningarbeiðni sem annað og meira. Sá sem biðst fyrirgefningar tekur ekki aðeins fulla ábyrgð á gjörðum sínum heldur viðurkennir hann einnig að mistök hans eigi sér enga réttlætingu. Hann biður um að sér verði gefnar upp sakir af miskunnsemi en ekki að skýringar hans verði teknar gildar. Þessvegna er fyrirgefning í mínum huga stórmál og ekki eitthvað sem maður fer frjálslega með.

Svo er auðvitað til í dæminu að fólk þoli ekki tilhugsunina um að hafa rangt fyrir sér og gagnvart slíku fólki getur verið sniðugt pólitískt trix að biðjast afsökunar eða jafnvel fyrirgefningar að ástæðulausu. Rétt eins og veitingastaður getur gripið til þess ráðst að gefa óþolandi kúnna afslátt sem hann á engan rétt á, bara til að losna við hann sem fyrst því það borgar sig ekki að sóa tímanum í þras eða ergja sig á smámálum. En það er engin einlægni í afsökunarbeiðni af því tagi.

Og það er sjálfsagt allt í lagi. Pólitík og einlægni eru ekki hjón.

 

 

Share to Facebook