Miriam ólst upp í Bretlandi. Foreldrar hennar eru umhverfissinnar. Þau eru aktivistar en hafa þó ekki, svo Miriam viti til, tekið þátt í aðgerðum sem teljast ólöglegar. Þau stunduðu lífræna ræktun og ráku fair-trade verslun þegar hún var barn. Í dag býr faðir hennar í Póllandi þar sem hann hefur helgað sig baráttu smábænda gegn erfðabreyttum matvælum. Miriam er alin upp við meðvitund gagnvart náttúrunni og við þá trú að vel stæðu fólki beri heilög skylda til að hjálpa þeim sem minna mega sín.

Miriam lærði jarðfræði við háskólann í Sussex. Þar fékk hún sérstakan áhuga á Íslandi, lagðist í mikinn lestur og komst að þeirri niðurstöðu að líklega væri Ísland áhugaverðasta land veraldar fyrir jarðfræðinga og náttúruáhugafólk. Þegar hún frétti af því að til stæði að drekkja stórum hluta hálendisins, ákvað hún að fara til Íslands og sjá þessi örævi áður en þau færu undir vatn. Þegar hún kom til landsins kynntist hún nokkrum umhverfisaktivistum. Hún slóst í för með þeim og tók þátt í nokkrum aðgerðum, þar af einni þar sem beitt var því sem flokkast sem borgaraleg óhlýðni. Hún hafði aldrei tekið þátt í slíkum aðgerðum áður en hún þekkti fjölda aktivista frá sínu heimalandi sem ótal sinnum hafa hlekkjað sig við vinnuvélar og beitt álíka aðgerðum án þess að fá fyrir það fangelsisdóma. Það kom henni mjög á óvart hversu harða afstöðu Íslendingar hafa gegn mótmælum og hún er ekkert ein um þá undrun.

Í ferðinni kynntist Miriam ungum manni. Felldu þau hugi saman. Hún ákvað að setjast að á Íslandi, taka framhaldsnám í jarðfræði og fjölga mannkyninu í framhaldi af því. Fyrst vildi hún þó fara með vinkonu sinni til Indlands eins og þær höfðu löngu ákveðið.

Áður en Miriam kom til Indlands var hún fyrst og fremst umhverfissinni. Hún hafði megna óbeit á stóriðjustefnu Íslendinga en var þá fyrst og fremst með náttúruspjöll og mengun í huga. Á Indlandi kynntist hún annarri og ennþá ógeðfelldari hlið stóriðjunnar. Við Narmada sá hún þær þjáningar sem virkjanir í ánni hafa kostað. Í Orissa er ástandið svipað en þar hafa 50.000 manns, flestir adivasi (adivasi merkir bókstaflega frumbyggjar en orðið lýsir fremur stéttarstöðu en uppruna) hrakist frá heimilum sínum vegna báxítnáms og byggingar álvera. Alcan er þar stærsti skaðvaldurinn en um 100.000 manns til viðbótar munu hrekjast á vergang á næstu árum. Við skulum vona að Alcan sendi þeim Bjöggadiskinn í sárabætur.

Enda þótt Miriam hefði lesið heilmikið um ástandið í Indlandi, varð hún slegin. Þegar hún kom aftur til Íslands hafði gremja hennar í garð Alcan breyst í einlægt hatur. Hún tók þátt í aðgerð gegn Alcan, aðgerð sem hún vissi að gæti kostað hana fangelsisdóm. Hún meiddi engan, ógnaði engum, sagði ekki einu sinni ljótt þegar löggan kom að sækja hana. Hún klifraði upp í mastur, vel útbúin.

Miriam var handtekin og það var fyrst við þá handtöku sem henni var birtur dómur fyrir aðgerð frá sumrinu 2006. Hún sem hélt að hún hefði sloppið. Æ,æ, frekar fúlt. Hvað um það, hún tók því með stóiskri ró og sat af sér 8 daga dóm við aðstæður sem ekki eru taldar boðlegar, án þess að kvarta.

Miriam reiknaði alveg eins með því að fá á sig annan dóm fyrir aðgerðina gegn Alcan. Jafnvel harðari. Hún átti þó ekki von á því að vera vísað úr landi. Það virðist þó vera nokkuð sterkur möguleiki. Allavega hefur henni borist bréf frá Útlendingastofnun, þess efnis að hún megi eiga von á brottvísun, þar sem hún sé „ógn við grundvallargildi samfélagsins.“

Miriam Rose vissi það ekki fyrr en síðasta föstudag að réttur stórfyrirtækja til að eyðileggja náttúru landins og spúa tonnum af eiturgufum út í andrúmsloftið án truflunar frá þeim sem mótmæla umhverfisstefnu þeirra og hegðun þeirra gagnvart varnarlausum öreigum, teldist með grundvallargildum íslensks samfélags. Ég vissi það ekki heldur.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago