Devram Nashupatinath er bóndi. Hann býr við ána Narmada á Norður Indlandi. Hann á 7 börn. Devram tilheyrir Adivasi fólkinu. Hann ólst upp á sama landi og langalangafi hans og þar bjó hann þar til í fyrra. Ekki af því að landið væri svo frábær bújörð heldur af því að hann átti ekki um neitt annað að velja. Devram er ólæs og tilheyrir einni af lægstu stéttum samfélagsins.

Einn daginn þegar Devram kom út til að sinna störfum sínum tók hann eftir svona skiltum á lóðinni hjá sér. Þetta er reyndar ekki mynd af börnum Devrams, heldur núverandi nágranna hans, en nokkurnveginn svona var þetta. Þótt Devram sé ólæs vissi hann hvað þetta þýddi. Búið var að taka ákvörðun um að reisa stóra stíflu í ánni og sökkva landinu hans. Merkin sýna hvað fer undir vatn. Meðal þess sem átti að fara undir vatn í nágrenni Devrams var húsið hans og beitiland búpeningsins.

Þetta fannst Devram alveg grautfúlt. Ekki bara vegna þess að hann langaði ekkert að flytja á ennþá verra land, heldur líka af því að honum fannst hann eiga landið og að ríkið hefði ekki neinn rétt til að taka það af honum. Það var reyndar rangt hjá Devram. Tilfinningarök. Rök sem segja bara „mér finnst“. Devram á nefnilega ekki landið sitt. Jafnvel þótt pabbi hans hafi búið þar og afi hans o.s.frv. Þegar Devram sagði manninum í fína einkennisbúningnum sem kom nokkru áður og sagði að hann yrði að flytja, að hann vildi það ekki, komst hann að því að fyrst hann hefði ekkert bréf til að sanna að hann ætti landið, yrði því drekkt, hvað sem hans tilfinningarökum liði.

Stíflan var reist og áin óx. Devram flúði með fjölskyldu sína. Honum datt í hug að flytja ekki rassgat, heldur sitja sem fastast og hóta að drukkna með jörðinni sinni. Hann gerði það samt ekki. Það hefur verið reynt og þá bara kemur löggan með bambusprik og lemur fólkið út. Devram sá ekkert vit í að láta lemja sig rétt áður en hann héldi upp í langferð með börn sín og búpening, svo hann bara fór. Hann átti auðvitað engan rétt á bótum eða aðstoð af því að hann átti ekki neitt bréf til að sanna mál sitt. Fjölskyldan tók sitt hafurtask og flutti það sem mögulegt var af búpeningnum á öruggan stað neðar við ána.

Í mars sl. kom ung, bresk kona til Narmada ásamt vinkonu sinni og túlki og heimsótti Devram.

Konan heitir Miriam Margaret Rose. Miriam er jarðfræðingur, náttúruverndarsinni og mannréttindasinni. Áður hafði hún hitt fólkið sem er að skoða merkingarnar á landinu sínu á myndinni hér að ofan, Hún hafði einnig heimsótt fjölskyldu sem hafði búið nokkru ofar við ána en var nú að flýja af sömu ástæðu og Devram nokkrum mánuðum fyrr.

Þessa mynd tók Miriam af flóttafjölskyldunni

Adivasi fólkið við Narmada býr við sára fátækt og flestir eru mjög örvæntingarfullir. Devram er með þeim þrjóskari. Þegar hann áttaði sig á því að aftur hafði lækkað í ánni, vildi hann endilega fara heim og athuga hvort eitthvað væri eftir nýtilegt af fyrrum heimili hans. Hann vissi að það væri ólíklegt en hann fór samt. Það sem beið hans voru rústir einar. Núna er sjálfsagt flætt yfir þær aftur.

Devram Nashupatinath er þreyttur. Hann er reiður, sár og umfram allt úrræðalaus. Hann veit að eftir nokkra mánuði koma aftur menn í fínum fötum og skipa honum að flytja og hann á auðvitað engan pappír um að hann eigi það land sem hann býr á núna. Það verður samt auðveldara að flytja næst. Flestar kýrnar hans eru nefnilega dauðar.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago