Orðasvipan afneitun

Ég hef dálítið velt því fyrir mér undanfarið hvernig við notum orð sem svipur á hvert annað þegar skynsamleg rök þrýtur. Sum orð virðast áhrifameiri en önnur og til þess fallin að þagga niður í viðmælandanum. Ég ætla að skrifa nokkrar færslur um þau orð sem hafa verið notuð sem svipur á mig (virkar að vísu ekki, mér finnst gott að láta lemja mig) og sem ég hef staðið sjálfa mig að að nota á aðra.

Afneitun er alveg rosalega vinsæl orðasvipa. Fyrir nokkrum árum heyrði ég þetta orð aðallega notað um alkóhólista sem vildu ekki horfast í augu við vandann og afturbataalkar notuðu þetta einnig um fólk sem þá langaði til að væru í sömu þörf fyrir meðferð og þeir sjálfir.

Ég veit ekki hvort notkun orðsins hefur aukist en síðustu árin hefur það gerst oftar og oftar að þetta orð, afneitun, hefur verið notað í þeim tilgangi að reyna að stinga upp í mig eða gera lítið úr mér og ég hef séð þetta notað þannig gegn öðru fólki líka. Nokkur dæmi:

Þegar ég segist ekki trúa á guði eða yfirnáttúru af neinu tagi, svara trúmenn því gjarnan til að víst trúi ég á eitthvað manninum æðra, ég sé bara í afneitun. Málið dautt! Svör af þessu tagi eru t.d. einkennandi fyrir þá guðfræðinga sem halda uppi og taka þátt í umræðum um trúmál á síðunum annall.is og vantru.net.

Þegar ég er spurð hvers vegna ég sæki ekki um framhaldsskólakennslu (af einhverjum afar dularfullum ástæðum virðist ótrúlega mörgum finnast það vandamál að ég sé ekki framhaldsskólakennari) og ég svara því að ég hafi engan áhuga á því er svarið jafnan „hvaða vitleysa, ég er viss um að „innst inni“ langar þig í kennslu.“ Innst inni er reyndar eitthvað sem ég hef aldrei skilið almennilega. Ef mig langar eitthvað þá langar mig það bara úti um allt, ekki bara „innst inni“.

Þegar vinkona mín er spurð hvort hún hafi ekki „kynnst einhverjum“ og hún svarar því að hún sé búin að fá nóg af karlmönnum og hafi engan áhuga á því að standa í ástarsambandi, fær hún óðar framan í sig frasa á borð við „þú ert nú bara í afneitun af því að þú ert svo brennd. Á ég að kynna þig fyrir félaga mínum?“

Önnur vinkona mín hefur engan áhuga á ungbörnum og er ekki að stefna að því að verða ólétt. Fólk er stöðugt að spyrja hana hvort hún ætli ekki að fara að koma með „eitt lítið“, rétt eins og það sé lögmál að allar konur eigi þá ósk heitasta. Ef hún segir fólki að hún hafi ekki áhuga á því kemur afneitunarkenningin nánast alltaf. Stundum fylgja spurningar um heilsufar þeirra hjóna og hvort sé eitthvað að í sambandinu.

Þannig mætti lengi telja.

Það viðhorf að allir sem upplifa hlutina á annan hátt en maður sjálfur hljóti að „afneita“ tilfinningum sínum eða skoðunum ber nú ekki vott um mikið innsæi. Það er náttúrulega ekkert hægt að svara svona rökleysu með rökum svo annaðhvort lokar maður umræðunni með því að neita að taka þátt í henni eða segja eitthvað sem slær viðmælandann svo út af laginu að hann þagnar. Sem dæmi má nefna að eina svarið sem mér hefur dottið í hug sem slekkur algerlega umræðuna um það hvað ég yrði yfirgengilega hamingjusöm ef ég kenndi við framhaldsskóla er: „Veistu það að ég er bara svo rosalega veik fyrir ungum strákum að það myndi örugglega enda með því að ég svæfi hjá nemanda. Maður á ekki að ögra svona pervasjónum með því að koma sér í aðstæður sem bjóða upp á freistingar.

Ef maður lokar ekki umræðunni er hinn kosturinn sá að leggja í endalausar hártoganir sem snúast fljótt upp í persónulegar deilur. Það finnst mér frekar hallærislegt.

Ég er ekkert að leggja til að við hættum að nota orðið afneitun. Það á vissulega við aðstæður þegar fólk neitar að horfast í augu við raunveruleikann. Það væri t.d. ekkert annað en afneitun ef ég hefði valdið fjölda umferðarslysa en segðist samt vera góður bílstjóri. Það er dæmi um afneitun þegar grindhoruð stúlka segir að sér finnist hún feit. Stundum er afneitun dulin og full ástæða til að vera meðvitaður um þennan varnarhátt. En oftast hefur nú fólk sjálft best við á sínum eigin tilfinningum og skoðunum og það er ódýrt trix að afgreiða þær með einu orði afneitun.

Share to Facebook