Litla, gráa kisa

Ég hef haldið því fram að þótt vinstri græn hafi brugðist á mörgum sviðum hafi þau þó amk staðið sig í umhverfismálum. Ég verð víst að éta það ofan í mig.

Ég hef enga reynslu af fjallaferðum og veit ekki hvort slæm umgengni ferðamanna um landið er svo stórt vandamál að réttlætanlegt sé að setja því miklar hömlur hvar og hvernig fólk ferðast um landið en mig grunar að þetta lagafrumvarp sé fyrst og fremst lýðskrum. Það kostar flokkinn ósköp lítið að hafa nokkra vélsleðamenn og jeppakalla óánægða, en fyrir okkur sem höfum áhyggjur af náttúruspjöllum en lítinn áhuga á jeppaferðum og vélsleðum, virðist frumvarpið róttækt.


Hvað með sjónarmið ferðafólks
?

Mér finnst betra að ganga of langt en of skammt í verndun náttúrunnar en í lýðræðisríki er nú samt sjálfsagt og eðlilegt að sjónarmið ferðafólks séu rædd. Það kemur mér því á óvart að ferðafélögum sé gefinn naumur tími til að skila inn umsögnum. Það sem stingur mig þó mest í ábendingum Ferðafrelsis er þetta:

Vissir þú að áheyrnarfulltrúi útivistarfólks í Vatnajökulsþjóðgarði er bundinn þagnareiði af því sem fram fer á fundum þjóðgarðsins? Eru þetta eðlilegar og venjulegar siðareglur? Gegnsæ stjórnsýsla?
Ekki get ég ímyndað mér hverskonar hernaðarleyndarmál fara fram á þessum fundum svo hversvegna er áheyrnarfulltrúi bundinn þagnareiði? Er þessi leyndarhyggja ekki bara gamall kækur klíkusamfélagsins og væri þá ekki best að aflétta þessu leynimakki? Hvernig á ferðafólk að koma sjónarmiðum sínum á framfæri ef það fær engar upplýsingar um það hvað er í deiglunni? Finnst ykkur þetta í lagi?

 

Undarlegar áherslur umhverfisflokks

Ef náttúru Íslands stendur raunveruleg ógn af ferðafólki þá er auðvitað hið besta mál að takmarka ferðir vélknúinna farartækja um hálendið. Það er þó frekar ótrúverðug róttækni að leggja fram náttúruverndarfrumvarp sem að sumir telja að muni skerða óhóflega frelsi fólks til að ferðast um landið  þegar sami flokkur greiðir svo fyrir stóriðju.
Frá Þeistareykjum

 

Það hefði verið róttækt af hálfu vinstri grænna að leggja fram frumvarp um bann við frekari stóriðju. En líklega telja forsvarsmenn flokksins að eftir fleiri atkvæðum sé að slægjast hjá stóriðjusinnum en þeim sem aðhyllast náttúruvernd svo það er þá allt í lagi að sýna umhverfissinnum fingurinn. Eflaust hefur náttúruverndarfrumvarpið orðið einhverjum umhverfissinnum hvatning til þess að gefa flokknum atkvæði sitt. En það fólk veit auðvitað að álver á Bakka er margfalt stærra umhverfisslys en allar hálendisferðir samanlagt svo líklega er Steingrímur búinn að koma flestum þeirra sem ætluðu að kjósa vinstri græn út á umhverfisstefnuna í skilning um að VG er hvorki sérlega vinstri sinnaður flokkur né sérlega grænn. Í skársta falli grár og vesældarlegur miðjuflokkur sem lítur umhverfisstefnuna sömu augum og kötturinn heitan graut. Tiplar í kringum málaflokkinn, rekur í hann trýnið en hrökklast svo undan.

Þá er nú árennilegra fyrir gráan kött að snúa sér að einhverju sem hann ræður við. Ferðir jeppakalla um hálendið eru bara hlandvolgur grautur sem auðvelt er að kyngja en fyrir litlu, gráu kisu er stóriðjan alltof heit.

Ekki ætla ég að fullyrða að ferðafólk gangi vel um landið
en að banna þetta á sama tíma og menn greiða fyrir stóriðju – síríusslí?
Share to Facebook