Í athugun

Hæfileg refsing fyrir að neyðast til að framvísa fölsuðum skilríkjum, er að mati yfiirvaldsins  30 daga fangelsi, óskilorðsbundið. Að villa á sér heimildir í því skyni að forða sér frá pyntingum og jafnvel aftöku án undangenginna réttarhalda er þannig talinn sambærilegur glæpur við líkamsárás á sofandi mann.

Margir flóttamenn sem fá þennan dóm sitja þó aðeins helminginn af sér og það á við um Mouhamed. Eftir 15 daga refsivist var honum komið fyrir á Fit, flóttamannahælinu á Suðurnesjum og boðin aðstoð til að sækja um hæli.

Túlkurinn talaði frönsku. Það gerir Mouhamed hinsvegar ekki. Hrafl jú, kannski nóg til að spyrja til vegar að næstu lestarstöð en varla meira en það. Alls ekki nóg til að segja skilmerkilega frá aðstæðum sínum. Mér skilst að hann hafi játað þegar hann var spurður hvort hann væri tilbúinn til að tjá sig á frönsku. Hann man ekki til þess að sér hafi verið boðið upp á neitt annað en vera má að hann hafi hreinlega ekki skilið frönskuna nógu vel til að átta sig á því að hann gæti farið fram á að fá túlk sem talaði wolof. Auk þess var Mouhamed alinn upp sem þræll og ekkert vanur því að gera neinar kröfur. Hann sagði bara það sem til var ætlast. Ég hefði nú samt haldið að túlkurinn áttaði sig á því að frönskukunnátta Mouhameds var engan veginn nógu góð til að hægt væri að fá botn í söguna á 20 mínútum en þess má geta að þegar hann sagði mér sögu sína með góðri aðstoð túlks sem talar wolof, (vinir Mouhameds höfðu semsagt rænu á því að útvega alvörutúlk þótt það reyndist Útlendingastofnun ofviða) tók frásögnin rúma tvo klukkutíma.

Margskonar misskilningur kemur fram í hælisskýrslu Útlendingastofunar en sennilega liggur skýringin að hluta til í tungumálavandræðum, auk þess sem tíminn nægði enganveginn til að útskýra allt sem máli skiptir. T.d. kemur fram í skýrslunni að Mouhamed hafi búið við fátækt og stolið lömbum sér til matar. Hann bjó við fátækt, vissulega, örbirgð reyndar enda er Máritanía eitt af fátækustu ríkjum veraldar og hann tilheyrði allra lægstu stéttinni. Það er hinsvegar ekki rétt að hann hafi verið sauðaþjófur. Mouhamed segir að enginn þræll myndi þora að slátra lambi því það gæti kostað hann lífið. Hann tók aftur á móti úlfalda eiganda síns traustataki til þess að flýja (og það tiltæki gæti kostað hann lífið) og hugsanlega er það rót misskilningsins. Það er líka misskilningur að hann eigi á hættu að kynfærin verði skorin undan honum. Geldingin fer þannig fram að þrællinn er bundinn niður á bekk og kynfæri hans barin með priki. Hann var ekki fingurbrotinn en honum var hinsvegar hótað handarhöggi. Misskilningurinn gæti legið í því að einn fingur Mouhameds er lemstraður eftir sýkingu sem ekki var meðhöndluð og lítur út fyrir að hafa brotnað. Ekkert af þessu skiptir þó verulegu máli, því þrátt fyrir málleysið, komst til skila það sem Útlendingastofnun ætti að leggja til grundvallar við mat á því hvort taka beri hælisumsókn til greina, þ.e.a.s. að maðurinn var að flýja þrældóm og á yfir höfði sér vanvirðandi og þjáningarfulla meðferð, óafturkræft tjón á líkama og hugsanlega líflát.

Á meðan Mouhamed beið eftir úrskurði yfirvaldsins um það hvort hann teldist þess verðugur að fá að búa á Íslandi, dvaldi hann á Fit. Hann nýtti tímann þar á besta hugsanlega hátt, því þrátt fyrir að hafa aldrei notið skólagöngu eða neinna annarra tækifæra til að þroska hæfileika sína, býr Mouhamed yfir nákvæmlega því sem flóttamaður þarf til að lifa af; hann skilur nauðsyn þess að eignast vini og veit að besta leiðin til þess er að vera yndislegur. Með enskan orðaforða upp á aðeins 40-50 orð og einlægt traust á mannskepnunni, kom hann sér í kynni við Íslendinga. Hann eignaðist vini sem höfðu raunverulegar áhyggjur af örlögum hans og voru tilbúnir til að hjálpa honum að koma undir sig fótunum og aðlagast íslensku samfélagi. Hann fékk aðstoð við að sækja um vinnu og eftir hverja höfnunina á fætur annarri fékk hann að taka prufuvakt á veitingahúsi. Aldrei hafði Mouhamed unnið léttara starf. Hann gat að vísu ekki haldið uppi samræðum en hann fór með starfsfélögum sínum út í smók og leið eins og manneskju. Hann fór heim eftir vaktina alsæll, með vilyrði fyrir vinnu um leið og hann fengi atvinnuleyfi.

Ofbeldisstofnanir ríkisvaldsins koma sjaldan ánægjulega á óvart og stuttu síðar var hælisumsókn hans synjað. Hann kærði úrskurðinn en beiðni um frestun réttaráhrifa var hafnað. Og þegar tveir lögregluþjónar komu til hans og sögðu honum að hann yrði sendur nauðugur til Noregs (sem þegar hafði hafnað hælisumsókn hans) næsta dag, tók Mouhamed enn eina skynsamlega ákvörðun. Hann hafði samband við vini sína sem brugðust fljótt við og komu honum í öruggt skjól.

Mouhamed hefur nú verið í felum á Íslandi frá 8. júlí 2011. Hann er farinn að tala dálitla ensku (meiri ensku en frönsku en er þó enganveginn fær um að segja sögu sína án aðstoðar túlks.) Fjölskylda hans er látin, eini ættingi hans á lífi er systir hans í Senegal. Hún býr við frelsi en fátækt, vinnur hlutastarf í brauðgerð og kemst á netið af og til svo á meðan Mouhamed er á Vesturlöndum getur hann a.m.k. haldið stopulu internetsambandi við hana. Í Máritaníu býður hans ekkert nema hryllingur og hann þekkir engan í Noregi. Hann á aftur á móti vini á Íslandi, fólk sem hann lítur á sem fjölskyldu sína. Þar sem hann getur ekki látið sjá sig á almannafæri hefur hann þó takmarkað frelsi til að umgangast þá og drjúgan tíma dagsins situr hann og bíður þess að einhver hafi tíma til að heimsækja hann.

Mouhamed er heilbrigður, klár og duglegur. Hann er sannarlega búinn að sýna það og sanna að hann getur komist af án bóta frá hinu opinbera þannig að ef það er nískupúkinn sem yfirvaldið svíður svona mikið í, þá er óþarfi að hafa áhyggjur af því að hann verði samfélagsbaggi.  Það eina sem stendur í vegi fyrir því að hann geti lifað eðilegu lífi eru ofbeldisstofnanir ríkisvaldisins. Vinir hans munu hjálpa honum að koma sér upp heimili um leið og hann fær dvalarleyfi en á meðan hann er í felum er útilokað fyrir hann að taka húsnæði á leigu. Hann er búinn að fá annað atvinnutilboð og hann dauðlangar að vinna. Hann vantar auk þess peninga því hann þyrfti að komast til tannlæknis og eignast nauðsynlegan fatnað,  námsgögn og eitthvað sér til afþreyingar en hann má ekki vinna. Hann þyrstir í þekkingu en hann hefur aldrei lært neitt. Við höfum útvegað honum nokkrar bækur en fyrir mann sem skilur ekki tugakerfið og kann engin málfræðihugtök er bóknám án leiðsagnar flókið og seinlegt. Hann kann enga námstækni og hefur engan aðgang að námsefni á tungumáli sem hann ræður almennilega við. Þar sem það gæti orðið honum lífshættulegt að sjást á opinberum vettvangi, kemst hann ekki í skóla og verður að láta sér nægja tilsögn þeirra vina sem heimsækja hann en fáir þeirra eru færir um að annast skipulega kennslu fyrir utan það að hafa ýmsum skyldum að sinna. Honum líður mun betur í felum á Íslandi en sem þræll í Máritaníu en óvissan fer illa með hann, hann er mjög kvíðinn, sefur illa og fær oft verki sem líklega stafa af streitu.

Fyrir liggur kæra á úrskurði Útlendingastofnunar. Innanríkisráðherra hefur verið gerð grein fyrir aðstæðum mannsins og margir hafa skorað á hann að beita sér í málinu. Ég ræddi mál Mouhameds við Ögmund um miðjan nóvember. Hann var mjög skilningsríkur og sagðist hafa áhyggjur af Mouhamed. Ég benti honum á að takmarkað gagn væri af áhyggjum sem ekki leiddu til aðgerða og að það að Innanríkisráðherra Íslands hefði samúð með honum, yrði Mouhamed lítil huggun, svona rétt á meðan verið væri að berja undan honum eistun. Honum fannst ég dómhörð.

Ögmundur hefur lýst því yfir að hann taki afstöðu með þeim sem minna mega sín en hann hefur líka áhyggjur af því að mannúðleg meðferð á flóttamönnum kalli yfir okkur mikinn straum af glæpamönnum. Ég get svosem skilið þær áhyggjur en mikið óskapklega þykir mér það sorglegt stefna, sem í reynd er við lýði á Íslandi, að krefjast öfugrar sönnunarbyrði í málefnum flóttamanna. Ég vona sannarlega að Ögmundur breyti því. Að hann láti ekki glæponafóbíuna stjórna svo miklu að menn þurfi að koma með vottorð upp á þrældóm, pyntingar eða pólitískar ofsóknir til að vera ekki sjálfkrafa álitnir morðingjar eða hryðjuverkamenn. Auðvitað veit Ögmundur að flestir þeirra sem flýja heimalönd sína hafa ærnar ástæður til þess og þótt hann virðist líta á Dyflinnarákvæðið sem einhverskonar helgidóm, sagðist hann vera tilbúinn til að skoða málið. Ég er búin að skrifa honum oft síðan og spyrja um gang málsins en hann hefur ekki svarað þeim erindum. Þann 28. desember barst mér þó loksins svar. Það eina sem hann hefur um málið að segja er að það sé „í athugun“.

Í athugun já. Í sex mánuði. Hversu lengi ætli mál Henrys Turay sem fór í felur, að mig minnir í desember 2009, hafi verið í athugun?   Er það mál kannski ennþá í athugun?  Hvar er Henry í dag? Á Íslandi? Farinn til útlanda? Dauður og dysjaður í nágrenni Rauðhóla? Löggan veit það ekki. Ögmundur veit það ekki, Útlendingastofnun veit það ekki. Og ekki hafa þau spurt.

Íslendingar sem annars eiga heimsmet í nánast öllu, eiga mér vitanlega enga raðmorðingja. Ekki síðan þeir hálshjuggu Axlar Björn. En hér er góð hugmynd fyrir fólk með raðmorðingjaóra. Flóttamenn auðvitað. Enginn spyr hvað verður um þá þegar þeir hverfa.

 

Share to Facebook

One thought on “Í athugun

  1. Sæl og takk fyrir að fræða mig um þetta mál. Ég er allveg gjörsamlega orðlaus yfir meðferðina sem þessi drengur hefur fengið og hann á alla mína samúð. Að hugsa sér að jafnaldri minn hafi þurft að lifa svona lífi, við sem fæðumst hérna meginn á hnettinum eigum kannski erfitt að ímynda okkur eymdina sem þrífst.

    Ég hef mikinn áhuga á að hjálpa þessum strák, hvernig sem ég get svo endilega láttu mig vita ef það er eitthvað sem ég get gert. Þú getur náð í mig á netfangið sem ég skráði fyrir ofan með upplýsingum um það hvort og hvernig ég get hjálpað.

Lokað er á athugasemdir.