Hamingjan er ekkert ókeypis

Nægjusemi er dygð. Við erum gjörsamlega heilaþvegin af því viðhorfi en um leið erum við heilaþvegin af markaðssamfélaginu sem stöðugt reynir að telja okkur trú um að hamingjan sé fólgin í því að fá meira. Meira af öllu og einkum því efnislega. Það er kannski ekkert skrýtið þótt margir séu í stöðugri hamingjukrýsu (jú það má alveg skrifa krýsa með ý).

Hamingjan er bara það að vera sáttur við sitt. Hversu oft hef ég heyrt þetta viðhorf frá fólki sem er langt frá því að vera sátt við sitt hlutskipti en samt ekki að gera neitt til þess að breyta því? Þessi klisja gefur í skyn að nægjusemi sé það eina sem fólk þarf til að vera ánægt. Hún lítur fram hjá því að margt fólk lifir heila mannsævi án þess að raunverulegum, djúpstæðum þörfum þess sé fullnægt. Það er þægilegt að vera nægjusamur og það er heilmikill sannleikur í þeirri klisju að efnislegir hlutir geti ekki keypt hamingju, að ástin vinni ekki á þeirri óhamingju sem maður hefur búið sjálfum sér o.s.frv. en oft er hamingjan hreint ekkert ókeypis.

Efnislegir hlutir geta veitt manni ánægju. Ef þeir eru nauðsynlegir til að maður geti sinnt því sem skiptir mann miklu máli, geta þeir líka stuðlað að hamingju manns, jafnvel upprætt óhamingju. Ef maður hefur eldlegan áhuga á tónlist gæti hljóðfæri verið lykill að hamingju hans. Hann hefði aðeins stundaránægju af flottari bíl en aðgangur að píanói er honum nauðsyn. Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að fólk sé ánægt ef það þjáist af sjúkdómi og hefur ekki efni á meðferðinni eða líður skort.

Ég held að hamingjan sé að verulegu leyti fólgin í því að kunna að meta það sem maður hefur, án þess að afneita þörf sinni fyrir meira, hvort sem þetta meira er fólgið í efnislegum hlutum, tilfinningatenslum eða starfi sem maður hefur ánægju af. Að vita að allt er hægt og vinna að því að fá það sem manni finnst virkilega skipta máli.

Það er hinsvegar pottþétt leið til óhamingju að tileinka sér viðhorfið meira er aldrei nóg.

Share to Facebook