Ég verð stöðugt meira hissa á vinnubrögðum lögreglunnar. Þetta er auðvitað bara venjulegt fólk, sem getur gert mistök en lögreglan er ekki bara venjulegt fyrirtæki heldur opinber stofnun sem fer með viðkvæm mál og má ekki gera of mörg alvarleg mistök. Þessvegna hefði ég haldið að vinnureglur sem og siðareglur væru mjög skýrar og þeim vel fylgt eftir. Ég hélt líka að hjá stofnun eins og lögreglunni væri algerlega á hreinu hver á að gera hvað.
Svo virðist þó ekki vera. T.d. eru engar heimildir til um það á hvaða tíma var komið með fólkið á lögreglustöðina á Selfossi. Engin vistunarskýrsla finnst eða neitt sem varðar það fólk eftir að það var handtekið. Engin lögregluskýrsla var gerð um málið fyrr en daginn eftir. Skýringarnar sem þjónar laganna gefa á þessari handvömm eru allar á þann veg að sé ekki á þeirra ábyrgð eða að þeir héldu að einhver annar myndi gera það. Ég býst við að lögreglan í Árnesssýslu hafi almennt í nógu öðru að snúast en að sinna vinnunni.
Hjá lögreglunni í Reykjavík liggja vistunarskýrslur fyrir en það gleymdist alveg að gefa öðrum en mér sjálfri fyrirmæli um að víkja af vettvangi (þ.e.a.s. mér var sagt að færa bílinn og sagðíst ég myndu gera það um leið og fólkið væri farið undan honum). Einnig gleymdist að kynna okkur tilefni handtökunnar fyrr en við vorum komin til Reykjavíkur, 2 tímum eftir að ég var handtekin.
Engin skýring hefur heldur fengist á því, hvorki frá Reykjavík né Selfossi, hversvegna var talið nauðsynlegt að halda okkur í 5-9 klukkustundir, sem er langt umfram þann tíma sem venja er að halda fólki sem ekki er undir áhrifum vímuefna og/eða ástæða til að telja að sé hættulegt.
Það verður líka að teljast með ólíkindum að í öðru eins smámáli, þar sem er ekki einu sinni krafist fangelsisvistar heldur aðeins smávægilegra sekta, skuli óvenjulegar undantekningar hafa verið leyfðar. Ekki bara það að fresta máli eftir að aðalmeðferð hefst (sem gerist nánast aldrei) heldur gerðist það einnig hér að fulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur fékk að flytja málið að hluta. Orkuveitan er ekki aðili málsins og þar sem krafan frá henni lá fyrir skriflega var í raun engin ástæða til að leyfa þetta. Það er til í dæminu að tjónþoli og þó oftar réttargæslumaður mæti fyrir rétt og haldi uppi einkaréttarkröfum í opinberu máli en Ragnar kannast ekki við slíkt hvorki úr Hérðaðsdómi Reykjavíkur né Hæstarétti nema í kynferðisglæpamálum og öðrum mjög alvarlegum ofbeldismálum. Ekki svo að skilja að þetta skipti neinu máli. Orkuveitan hefur ekki getað fært nein rök fyrir því að hún hafi orðið fyrir tjóni svo kröfunni verður nánast örugglega vísað frá en það er samt nokkurrar athygli vert að við skulum fá svipaða meðferð í dómsferlinu og grunaðir kynferðibrotamenn.
Ég vildi að ég gæti birt málflutning Ragnars Aðalsteinssonar, ræðuna alla. Hann er frábær verjandi, hefur svo sannarlega unnið heimavinnuna sína og ég held að eftir öll þau dæmi sem hann hefur tínt til frá Hæstarétti, frá mannréttindadómstól Evrópu og frá ýmsum dómstólum víða í Evrópu, þar sem miklu stærri mál féllu mótmælendum í hag, þá finnst mér hreinlega ótrúlegt að þessu máli skuli ekki hafa verið vísað frá strax.
——————-
Það er eins og þú viljir fá einhver dóm á þig. Það var til nafnbót á Indlandi sem var JBTB (jailed by the british). Ert þú að stefna að einhverju sambærilegu ? Það er nefnilega þannig að dómari á að dæma eftir lögum og röksemdum sækjenda og verjenda. Þín skoðun á réttlæti hefur voða lítið með það að gera.
Posted by: Guðjón Viðar | 13.06.2008 | 15:06:01
——————-
Hvað finnst þér benda til þess að ég vilji fá dóm á mig?
Vitanlega á dómari að dæma eftir lögum og það vill svo skemmtilega til að bæði landslög og alþjóðleg lög, kveða á um rétt fólks til að vekja athygli á pólitískum skoðunum, einnig að allir skuli vera jafnir fyrir lögum.
Því miður hafa Íslendingar átt dálítið erfitt með að framfylgja mannréttindalögum, og kemur hellisbúaháttur þeirra bæði fram í vinnubrögðum lögreglu, sem og í dómskerfinu. Ég vona að það sé smámsaman að breytast.
Posted by: Eva | 13.06.2008 | 15:41:40
——————-
Já og varðandi JBTJ, Guðjón Viðar, þú þyrftir að leggjast í söguskoðun til að fá betri skilning á muninum á Indlandi Ghandis og Íslandi Evu. Laukstu virkilega ekki grunnskólaprófi?
Munurinn er sá að Indverjar bjuggu við þvílíka kúgun að það var engin leið að rísa gegn henni nema vegna þess að til var fólk sem var reiðubúið að undirgangast píslarvætti. Það að vera JBTB naut virðingar vegna þess að það var merki um mikið hugrekki og fórnarlund.
Sem betur fer er staðan ekki svo slæm hér að pólitískir andstæðingar ríkisstjórnarinnar og annarra valdhafa (les. stórfyrirtækja) þurfi að óttast um líf sitt eða limi og ég lofa þér því að það fær enginn stöðu píslarvottar þótt hann fái á sig 50 þúsund króna sekt.
Við þurfum hinsvegar að ögra þeirri allt of þröngu túlkun laganna sem hindrar alla mótspyrnu gegn því að risafyrirtæki fái vald sem ógnar, ekki bara náttúrunni, heldur einnig sjálfstæði okkar sem þjóðar og ég er alveg til í að taka þátt í því sem stuðlar að slíkum takkaýtingum, sérstaklega þegar tilgangurinn er sá að vekja almenning til vitundar um það hverskonar skítafyrirtæki eru að gleypa okkur.
Posted by: Eva | 13.06.2008 | 15:53:42
——————-
Lesturinn hér hefur verið gersamlega ótrúlegur. Vonandi hafa dómararnir vit í kollinum og lúffa ekki gagnvart stjórnvöldum/stórfyrirtækjunum (veit ekki alveg muninn)
Posted by: hildigunnur | 13.06.2008 | 21:55:25
——————-
Nei, Eva það sem ég á við er að þú ert að tjá þig um eigið mál á opinberum vettfangi meðan málið er í meðferð fyrir dómstólum. Ég mundi ætla að þinn ágæti lögmaður mundi ráðleggja þér að sleppa því ásamt lýsingum eins og „Þvagleggur sýslumaður“.
Posted by: Guðjón Viðar | 14.06.2008 | 15:57:59
——————-
Hvernig ætti það að skemma fyrir mér að skrifa um málið eftir að öll gögn eru komin fram? Dómhildur er með upptökur af framburði allra vitna svo það eru hverfandi líkur á því að mín endursögn hafi nokkur áhrif á hana, þó svo að hún læsi bloggið mitt.
Og heldur þú virkilega að nokkur dómari láti álit mitt á Þvaglegg sýslumanni hafa áhrif á niðurstöðu dómsins? Mér þætti þá fróðlegt að sjá rökstuðninginn fyrir slíkum vinnubrögðum. Eða er einhver önnur ástæða fyrir því að ég ætti að kalla hann eitthvað annað en því gælunafni sem hann (af skiljanlegum ástæðum) gengur undir meðal almennings dags daglega?
Posted by: Eva | 14.06.2008 | 17:00:25
——————-
Ég hélt að hann kallaðist Skeleggur Þvagleggur.
Posted by: Elías | 14.06.2008 | 21:31:00