Það er eftir öðru hjá þessu blessaða fólki sem þykist vera að stjórna landinu að líta á það sem lausn að eyða upp lífeyrissparnaðinum.
Af hverju var aftur verið að hvetja okkur til viðbótarsparnaðar? Hvernig hljómuðu auglýsingarnar?
Nei, það er ekki lausn að eyða lífeyrisparnaðinum í að greiða fyrir sukk og svínarí nokkurra gróðapunga. Tökum þennan sparnað endilega út, því miðað við framlag stjórnvalda til kreppunnar getum við alveg eins reiknað með að þessir sjóðir verði gerðir upptækir og þeir koma okkur þá ekki að neinu gagni í ellinni. Tökum peningana út, en látum okkur ekki detta í hug að verja þeim til að greiða skuldir við ríki og banka. Notum þá frekar til að kaupa góða frystikistu og fylla hana af mat; helst mat sem er keyptur beint af bóndanum og bakaranum. Eða gefum þá fólki sem á ekki fyrir nauðþurftum.
Notum þessa peninga bara alls ekki til að greiða skuldir og skatta. Þvert á móti skulum við hætta að borga, jafnvel þótt við getum það. Allsherjar greiðsluverkfall mun lama samfélagið á örfáum vikum (skatturinn af lífeyrissparnaðinum kemur aðeins einu sinni inn) og þegar svo er komið á ríkisstjórnin ekki annarra kosta völ en að ganga að þeim kröfum sem almenn samstaða næst um, hvort sem það eru afsagnir embættismanna og ráðherra, afnám verðtryggingar á lán eða eitthvað annað.
Það er ekki áhugaverð leið að eyða lífeyrissparnaðinum sínum í að greiða okurvexti. Það er hinsvegar áhugaverð leið að nýta sér skuldsetningu sína til að kúga þessa drulluhala til sanngirni.
Skattur af sparnaði strax í vasa ríkisins | |