Af merkingu orða

Skömmu eftir að ég flutti til Danmerkur, spurði ég vinnufélaga mína út í merkingu staðarnafna. Sérstaklega lék mér forvitni á merkingu endinganna t.d. -strup, -rup, -lev, -böl, o.fl. Svörin sem ég fékk voru öll á þá leið að þessir orðhlutar merktu ekkert, þetta væru bara nöfn. Og þetta átti ekki bara við um endingar. Mér finnst t.d. líklegt að Bojskov merki Beykiskógur. Þar er mikið af beyki og mér dettur í hug að boj- sé komið úr þýsku eða eldri dönsku en á tveimur árum hef ekki fengið staðfestingu á grun mínum um Beykiskóginn, né hefur neinn gefið mér aðra skýringu. Fólk segir bara að Boj- merki ekki neitt, það sé bara nafn.

Mér fannst sú hugmynd að orð væru bara nöfn stórfurðuleg og reyndar trúði ég því ekki. Því orð hafa merkingu, annars væru þau ekki orð. Jafnvel ‘merkingarleysur’ á borð við hæfaddirí, og lullulullubía fela í sér andblæ sem vissulega hefur merkingu. Allavega held ég að hæfaddirí færi illa sem viðlag við vöggukvæði. Á endanum fékk ég líka staðfestingu á því að endingar staðanafna hafa merkingu, auðvitað.

Síðan ég kom hingað hef ég oft hugsað um hvort Íslendingar muni kannski líka gleyma merkingu örnefna, bæjanafna og götuheita. Ég hef oft þurft að fletta upp í orðabók til að fá skýringu á örnefnum sjálf, ekki endingum reyndar en ætli sé nokkuð langt í það að fólk lendi í vafa um t.d. muninn á bóli og byggð? Vita börn hvað ‘gerði’ merkir? Stundum geyma staðarnöfn líka sögu sem vel getur fallið í gleymsku. Ég veit t.d. ekki hvaða stokkur það er sem Stokkseyri er kennd við. Akkerisstokkur kannski eða er saga á bak við örnefnið? Ég er nokkuð viss um að ef 12 ára börn væru beðin að útskýra merkingu heitanna Grindavík og Vopnafjörður, myndu mörg þeirra giska á hliðargrindur og óvenjumikla vopnaeign.

Ætli Íslendingar séu að gleyma merkingu og/eða sögu örnefna og bæjarheita? Eru t.d. bara fáir sem geta útskýrt eftirfarandi nöfn:

Bíldudalur
Bolungarvík
Fnjóskadalur
Heppa
Hjalteyri
Hnappadalur
Húnavellir
Keflavík
Kúskerpi
Kleppur
Kumbaravogur
Súðavík
Stokkseyri
Strjúgsstaðir
Svignaskarð (sennilega afbrigði af Sygnaskarð en Sygnir voru þeir sem komu frá Sogni)
Trékyllisvík
Tálknafjörður
Vaglaskógur
Þjórsá

Finnst fólki skipta máli að viðhalda skilningi á málinu eða er bara allt í lagi að eftir 80 ár muni fólk segja að Hveragerði og Kalkofnsvegur merki ekki neitt, þetta séu bara nöfn?

Share to Facebook