Pabbi er áttræður

Hann pabbi minn er orðinn áttræður. Hann man eftir sér í torfbæ en þó mun betur í Steinholti þar sem hann ólst upp frá 5 ára aldri. Þar var hvorki þvottavél né klósett en tímarnir hafa nú heldur betur breyst – um helgina fór hann í þyrluferð á gosstöðvarnar í tilefni afmælisins. Á jólunum fékk hann hangikjöt og saltkjöt soðið í sama pottinum, í gær bauð hann allri fjölskyldunni í þríréttaða máltíð á veitingahúsi. Ég þarf aldrei að borða framar.

Auk þess að vera orðinn alveg eldgamall en þó mörgum unglingnum sprækari er faðir minn, Haukur Geirsson alveg einstakur pabbi. Hann leyfði okkur að vera með í öllu. Hann tók okkur með í innkaup og útréttingar, við vorum með honum þegar hann þreif bílinn, þegar hann gerði við reiðhjól og þegar hann málaði stofuna. Eflaust höfum við einhverntíma verið fyrir honum en hann lét okkur ekki finna það.

Ég hef líklega verið orðin 9 ára þegar mér varð það ljóst hversu sérstakt það þótti að heimilisfaðirinn gengi í öll húsverk og sæi alltaf um matinn og uppþvottinn þegar hann var ekki á kvöldvakt. Hann pressaði vinnugallana sína. Amma Sigga sagði mér síðar að hann hefði hjálpað henni við heimilisverkin sem í þá daga voru mikil erfiðisvinna, ekki síst þar sem 7 börn og tveir fullorðnir höfðust við í húsnæði sem í dag myndi kallast stúdeóíbúð. „Ég átti ekki hrærivél en ég hafði hann Hauk minn til að hræra, hnoða og fletja út“ sagði amma. Mörgum árum síðar hrærði hann soppu í tólgarlummur handa okkur systrum í drekkutímanum, stundum vöfflur eða pönnukökur. Aðrir eins drekkutímar þekktust ekki á mestu menningarheimilum og það var alltaf auðsótt mál að fá að bjóða vinkonum að drekka með okkur.

Eftir að við urðum fullorðnar og stofnuðum sjálfar heimili var alltaf hægt að leita til pabba um hverskonar viðvik sem hann á annað borð réði við, og þannig er það enn. Hann er alltaf til í að sækja og skutla og hann er enn að aðstoða við flísalagnir og annað viðhald húsnæðis.

Ég er á sextugsaldri og á engar vondar minningar um pabba. Það eru áreiðanlega ekki margir áttræðir í þeim sporum.

Til hamingju pabbi. Í dag og alla daga.

Deila

Share to Facebook