Íslenskt mál

Fór Áslaug á berjamó eða í berjamó?

Fer maður á berjamó eða í berjamó?

Oft var þyrlan út á sjó
upp úr háska fólkið dró
en aftursætið er víst nóg
ef Áslaug vill á berjamó.

Þessa vísu sá ég á Facebook síðu Gísla Ásgeirssonar í dag og það rifjaði upp fyrir mér að þegar ég var barn kunni ég kvæði sem heitir „Gunna á berjamó“. Það er frekar vont kvæði en titillinn segir líklega eitthvað um notkun forsetninga.

Ég hef alltaf farið í berjamó og held að afi og amma hafi líka talað um að fara í berjamó. Ég spurði út í þetta á Facebook og allir sem hafa svarað segjast nota „í“. Ætli það að fara á berjamó sé kynslóðabundið, landshlutabundið eða bundið við skáldskap?

Ég hallast helst að því að það að fara á berjamó sé tengt því að afla nytja þótt þeir hinir sömu geti verið „algerlega úti í móa“ þegar ekki stendur til að tína ber. Menn fara á rjúpu þegar þeir fara á veiðar en bjóða í rjúpu þegar þeir ætla að elda hana. Flestir tala um að fara á veiðar og á vertíð, menn fóru t.d. á síld – í merkingunni síldarvertíð. Sömuleiðis förum við á sölvafjöru og áður fyrr gengu menn á reka og á hnotskóg.

Hættum við að fara á berjamó þegar það hætti að skipta máli upp á afkomu fólks og varð í staðinn afþreying? Eða hefur það alltaf verið minnihluti sem fór á berjamó?

Það er annars áhugavert að hægt er að róa á grásleppu eða steinbít en stangveiðmenn fara hinsvegar í silung eða í lax. Ætli hugsunin sé ekki sú að menn fari á sjó á báti en standi með stöngina í ánni?

Þessu tengt:

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Hvað gerðist á jóladag?

Helgisagan um fæðingu Jesú er á þessa leið: Ágústus keisari vill taka manntal og Jósef…

54 ár ago

Fréttir vikunnar – KSÍ skýrslan og ritstuldur Seðlabankastjóra

Ég var beðin um stutt fréttarant fyrir Lífið á Fréttablaðinu í dag. Þetta hef ég…

54 ár ago

Þegar málshættir afbakast

Gefum okkur að "rétt mál" sé það sem málsamfélagið kemur sér saman um. Látum andartak…

54 ár ago

Endurhæfing Skúla Gunnlaugssonar

Sumarið 2020 var þáverandi yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Skúli Tómas Gunnlaugsson, sviptur starfsleyfi vegna margháttaðra afglapa…

54 ár ago

Píkubollar

Margur karlinn er svo heillaður af dindlinum á sér að hann finnur sig knúinn til…

54 ár ago

Frændi minn Michael Hauksdóttir er látinn

Árið 2014 sendi lögmaðurinn Max Gracia Kanasa i Benín mér tölvupóst í gegnum Yahoo netfangið…

54 ár ago