Valgarður Guðjónsson hefur nú svarað pistlum mínum sem spruttu af umræðu um tjáningarfrelsi í tengslum við mál Snorra í Betel.


Takk fyrir svarið Valgarður. Mér þykir fengur að því að einhver skuli hafa fyrir því að svara spurningum mínum en flestir sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hingað til hafa skotið sér undan því.

Við erum sammála um að hatursáróður er ekkert skárri þótt hann styðjist við trúarrit. Hinsvegar vill svo til að trúarrit, sem innihalda heilmikinn hatursáróður, eru lögleg. Á meðan sú er raunin er vafasamt uppátæki að banna hatursáróður. Mér þætti áhugavert að heyra skoðun þína á því hvort ætti að banna einhverja hluta Biblíunnar og annarra

En snúum okkur að svörum þínum við því hvað skuli teljast hatursáróður og hvað ekki. Mér sýnist augljóst að þegar þú svarar „já“ eigir þú við „já þetta er umræða sem við eigum að umbera“. Yrði farsælt að nota þín svör sem vegvísi um það hvar mörkin skuli liggja?

1  
Þú segist ekki geta tekið afstöðu til spurningarinnar um það hvort stuðningur við þá stefnu að leyfa fóstureyðingar, ef fóstrið er fatlað, teljist hatursáróður gegn fötluðum, vegna þess að dæmið sé ekki nógu gott. Þetta er reyndar alveg ágætt dæmi, Valgarður. Við þurfum ekki að leita langt til þess að fá það staðfest að sú afstaða að fóstureyðingalöggjöfin eigi að vera rýmri þegar líkur eru á að barnið verði fatlað eða veikt er særandi fyrir fatlaða. 

Hér er dæmi þar sem fötluð kona tjáir sig um fósturskimum; orðrétt er haft eftir henni:

 Það væri mjög skrýtið ef mér fyndist þetta í lagi því þá væri ég að segja að það væri í lagi að eyða fólki eins og mér.

Það er skiljanlegt að fatlaðir túlki þá skoðun að fólk eigi að hafa meiri rétt til að eyða fötluðum fóstrum en heilbrigðum á þann veg að líf þeirra séu álitin minna virði en líf annarra. Má kennari halda á lofti þeirri skoðun að fatlaðir eigi síður rétt á því að fæðast en önnur börn? Heldur þú að það sé eitthvað til í því hjá mér að ástæðan fyrir því að okkur finnst erfitt að svara því sé sú að það ríkir ekki víðtæk sátt um pólitískan rétttrúnað í þessum efnum?

2  
Ég orðaði þennan lið ekki nógu vel. Það sem ég átti við er hvort það geti skilist sem hvatning til ofsókna gegn ungum mæðrum (ég hefði frekar átt að tala um óléttar konur sem eru ósáttar við að vera óléttar) að tala um það sem óábyrga hegðun að geta óvelkomin börn, og að reka áróður gegn fóstureyðingum á félagslegum forsendum.  Hafi ég skilið þig rétt er það ekki þín skoðun. Það gleður mig en ég er ekki einu sinni viss um að ég og þú tilheyrum meirihlutanum.  Það viðhorf að slíkt sé hatursáróður hefur til dæmis margsinnis heyrst í tengslum við áróður repúblikana í Bandaríkjunum gegn fóstureyðingum. Hér er heil vefsíða helguð þeirri hugmynd. Hvorn kennarann ætti frekar að reka, þann sem vill frjálsar fóstureyðingar eða þann sem vill banna þær?

3
Það hefur varla farið fram hjá þér að múslimir í Frakklandi líta á slæðubannið sem kúgunartæki og merki um múslimahatur. Ég er þér sammála um að það álit þeirra ætti ekki að skerða tjáningarfrelsi kennara sem telur Frakka í fullum rétti með að banna búrkuna. En ef málflutningur, og jafnvel lög, sem múslimir túlka sem hatursáróður í sinn garð á rétt á sér, af hverju er þá í lagi að skerða tjáningarfrelsi kennara sem heldur því fram (og vitnar í fullkomlega lögleg trúarrit því til staðfestingar) að samkynhneigðir fari á mis við eilíft líf?

4
Ég hef líklega ekki orðað fjórða dæmið nógu skýrt en ég á við þá skoðun að það sé í sjálfu sér hvatning til kúgunar að styðja slæðunotkun. Ég hef séð nokkra Íslendinga halda því fram og það er einmitt á þeirri forsendu sem búrkubannið í Frakklandi er réttlætt.

5-6
Þeir sem halda fram rétti Ísraelsmanna til þess að reisa múrinn, nota yfirleitt þau rök að Ísraelar hafi rétt til að verja sig, en setja þá skoðun sjaldan fram sem hatursáróður. Ég er sammála þér um að það er andúð á trú eða kynþætti sem býr að baki aðskilnaðarstefnu. Og hér erum við komin að áhugaverðum fleti á þessari umræðu; á frekar að umbera fólk með vondar skoðanir (eins og þá að aðskilnaðarstefna sé réttlætanleg) ef það rekur áróður sinn með þeim rökum að gerandinn sé sjálfur að verjast ofsóknum og hatri en ef áróðurinn felst í augljósu skítkasti? Ef svarið er já, þá býður það heim hættunni á því að tjáningarfrelsi verði einkaréttur þeirra sem eru nógu mælskir til þess að sveipa fordóma sína í silkiumbúðir. Ef svarið er nei; það á ekki umbera kennara sem segir að aðskilnaðarstefna eigi rétt á sér, þá erum við komin í veruleg vandræði. Má þá ekki líka banna kennara að tjá þá skoðun að landnámsbyggðirnar eigi rétt á sér? Eða að Ísraelsríki eigi rétt á sér?

Að sjálfsögðu metum við hvert tilvik fyrir sig en þótt ekki sé hægt að setja fram algildar reglur um það hvar mörkin skuli liggja er vel hægt að ræða mörk tjáningarfrelsisins svona almennt og það er ekki „slippery slope“ rökvilla að benda á að ekki sé hægt að skerða tjáningarfrelsi þeirra sem hafa vondar skoðanir og tryggja um leið tjáningarfrelsi þeirra sem hafa góðar skoðanir. Það væri dæmi um slippery slope ef ég hefði haldið því fram að brottrekstur Snorra myndi beinlínis leiða til víðtækrar skoðanakúgunar en ég á ekki við það. (Svo er það  reyndar ponkulítið rennibrautarlegt hjá þér að halda því fram að kjaftæði eins og það sem Snorri í Betel heldur fram leiði beinlínis til ofbeldis.)

Fyrir mér snýst þessi umræða ekki um beina afleiðingu af því ömurlega uppátæki skóla- og bæjaryfirvalda á Akureyri að kúga einn kennara heldur um það hvort tjáningarfrelsi og pólitískur rétttúnaður eigi samleið. Það er auðvelt að taka afstöðu til mála sem flestir eru sammála um en þeir sem álíta þetta tvennt samræmanlegt lenda strax í vandræðum þegar þeir standa frammi fyrir spurningum sem ekki ríkir víðtæk sátt um.