Ef þjóðtrúin segir okkur eitthvað um samfélagið sem hún er sprottin úr þá segja breytingarnar á henni væntanlega eitthvað líka. Það er ekki lengur viðurkennd uppeldisaðferð að hræða börn til hlýðni með því að siga á þau óvættum og með breyttum viðhorfum breyttust jólaskrímslin. Það er áhugavert að skoða ímyndir óvætta eins og Grýlu og jólasveinanna fyrr og nú.

Grýla fyrri alda var sólgin í smábörn en lagðist aðallega á búpening og vinnumenn, sem oft voru unglingar eða jafnvel á barnsaldri. Á 17. öld lýsir Stefán í Vallanesi henni sem marghöfða skrímsli í  Grýlukvæði sínu. Lýsingin á Grýlu er óhugnanleg.

Í kvæði Stefáns í Vallanesi er einnig talað um Grýlu sem móður jólasveinanna og konu Leppalúða en Þrjú á palli flytja aðeins hluta þulunnar. Í kvæði Jóhannesar úr Kötlum er Grýla tröllkerling í mannsmynd. Hún er sögð hafa étið börn en Jóhannes tekur af allan vafa um að hún sé dauð. Allt kvæðið er í þátíð en í lokin ábending um að hjúin gætu hugsanlega lifnað við en það sé undir börnunum komið. Í grýlukvæði Ómars Ragnarssonar er Grýla svo orðin kómísk. Hún er ófrýnilegt kerlingarhró sem hrærir skyr í steypuhrærivél en lyst hennar á óþægum börnum er ekki einu sinni nefnd.

Jólasveinarnir voru áðurfyrr þrjótar sem rændu matnum og léku sér að því að hrella saklaust fólk. Þeir voru sveinar, ekki karlar heldur ungmenni, en unglingsstrákar hafa jafnan þótt öðru fólki líklegri til margvíslegra óknytta. Jólameyjar þekkjast ekki og þótt fáeinar tröllatelpur séu nefndar í kvæðinu Grýla kallar á börnin sín, er ekkert meira um þær vitað en örfá nöfn.  Í dag eru jólasveinar undir sterkum áhrifum hins ameríska jólakarls, þeir gefa í stað þess að stela og skrípalátum þeirra er ætlað að skemmta börnum en ekki hræða þau. Eitt hefur þó ekki breyst þótt þeir séu nú ekki lengur unglingar heldur karlar á óræðum aldri og það er samband þeirra við móður sína. Hún hýðir þá ennþá og skammar og algengt er að jólasveinar sem mæta á jólaskemmtanir barna segi frá því hvað hún sé ströng og þeir sjálfir lafhræddir við hana þótt hún sé reyndar löngu hætt að éta börn.

Og Leppalúði, hann var frekar viðhengi við Grýlu en sjálfstætt tröll. Ljótur karl og ógnvekjandi en fyrst og fremst óttalegur leppalúði. Hann át vissulega börn í gamla daga en Grýla virðist hafa verið fyrirvinnan á þeirra heimili. Í Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum veslast Leppalúði upp þegar Grýla deyr, ekki er að sjá að hann hafi gert minnstu tilraun til að bjarga sér. Í dag er hann bara vesalingur. Í Leppalúðasöng Brunaliðsins frá 1978 er Grýla dauð og Leppalúði gjörsamlega ósjálfbjarga. Baggalútur dregur jafnvel upp ennþá aumingjalegri mynd af honum í þeim jólalega söng: Veslings litli Leppalúði. Þegar Grýla er á förum skammar hún hann og niðurlægir. Karlgreyið dúsir svo einn í hellinum á jólanótt, þjáður af aðskilnaðarkvíða og hræddur við jólaköttinn.

Hvað segja þessar þjóðsagnapersónur um menningu okkar og hugarheim? Skiptir það máli að hræðilegasta barnafæla allra tíma var kvengerð og henni ætlað  móðurvald yfir öðrum óvættum? Skiptir það máli að virkustu ófétin voru ungir, einhleypir karlar og að engum sögum fer af systrum þeirra? Skiptir það máli að Leppalúði var aukapersóna og er jafnvel ennþá vesælli í samanburði við konu sína nú en áður fyrr? Og hvar eru hin karllægu yfirráð og hin undirskipaða, hlutgerða kona í þessari fjölskyldu? Hvar er feðraveldið? Ég bara spyr?