Hverjir eru þessir venjulegu menn?
Við gætum líka búið til mun stærra vandamál og normaliserað ofbeldi með því að neita að gera greinarmun á venjulegum karli og nauðgara.
Vill einhver skilgreina fyrir mig hvað felst í því að vera „venjulegur“ karlmaður. Var það venjulegur karlmaður sem réðist inn til konu í Vesturbænum að næturþeli, ógnaði henni með hníf og nauðgaði henni? Var það venjulegur karlmaður sem tók hrottalegt kynferðisofbeldi gagnvart kærustunni sinni upp á myndband og drap svo vinkonu hennar sem studdi hana í því að kæra hann? Eru það venjulegir menn sem sitja í fangelsi dæmdir fyrir barnanauðganir?
Eða er orðið „kynferðisofbeldi“ orðið gersamlega merkingarlaust, farið að ná yfir ágengni sem fólk með snefil af virðingu fyrir raunverulegum fórnarlömbum flokkar fremur sem dónaskap og uppáþrengjandi framkomu?
Það er vissulega rétt að þú sérð það ekki á manni hvort hann er líklegur til ofbeldisverka fjarri augum umheimsins. Þar fyrir er stórhættulegur leikur að tala eins og hvaða karlmaður sem er sé líklegur til þess að nauðga og lemja. Í Bandaríkjunum er þessi paranoja svo langt gengin að grunnskólabörn eru leidd fyrir dómara í fangagalla og járnum, ákærð og dæmd fyrir kynferðisofbeldi.
Það fletur út merkingu orðanna og gerir lítið úr ofbeldisverki þegar öll ósæmileg framkoma er sett undir sama hatt.
- Að kalla ósanngjarna (eða jafnvel réttmæta) gagnrýni eða tilviljanakenndan hrekk einelti, gerir lítið úr einelti.
- Að tala um rifrildi þar sem aðilar eru jafnvígir sem andlegt ofbeldi, gerir lítið úr andlegu ofbeldi.
- Að tala um uppáþrengjandi framkomu og káf sem einfalt mál er að verjast sem kynferðisofbeldi, gerir lítið úr þeim hryllilegu málum þar sem um er að ræða raunverulegt fórnarlamb sem á engar undankomu auðið. Og það er því miður gert, með tilheyrandi upphrópunum um óbætanlega skaða og jafnvel sálarmorð.
Ef við stöldrum ekki við og hugsum út í afleiðingarnar af því að tala eins og það sé samasemmerki milli karlmanns og nauðgara þá endar það með því að kynferðisleg samskipti verð körlum ennþá hættulegri en þau eru konum í dag og að eðileg forvitni barna verður til þess að litlir drengir verða gerðir að kynferðisglæpamönnum. Við leiðréttum ekki óréttlæti gagnvart konum með því að glæpvæða karlkynið. Við gætum hinsvegar búið til mörg illleysanleg vandamál með því.
Í pistlinum sem ég tengdi á hér að ofan segir Halla: „Þetta eru ekki örfáir sjúkir einstaklingar sem nauðga, þetta er fjöldi „venjulegra“ karla…“ Og hún er ekkert ein um að setja alla karla undir sama hatt, það muna allir eftir Askasleiki. Í Svíþjóð er þetta ógeðsviðhorf svo langt gengið að fyrir nokkrum árum vildu feministar láta sétja sérstakan ofbeldisskatt á alla karla. Það er hinsvegar ekkert sem bendir til þess að fjöldi venjulegra manna nauðgi konum og lemji þær. Þvert á móti virðast sömu mennirnir skilja eftir sig langa lest þolenda.
Það er flókið að verjast káfi ef káfandinn er ofbeldismaður en flestir káfendur eru bara klaufar sem kunna ekki að lesa líkamstungumál en skilja hinsvegar mæta vel hvað kona á við þegar hún segir honum að það myndi gleðja sig meira ef hann gerði mannkyninu þann greiða að ganga fyrir björg. Ég er innan við 150 á hæð. Ég hef krafta á við 9 ára barn, ég hef verið á lausu í samtals 18 ár síðustu 23 árin og ég get talið á fingrum annarrar handar hversu oft ég hef þurft meira en fremur freðýsulega framkomu til að losa mig við uppáþrengjandi karlmann. Það er að sjálfsögðu hægt að koma sér þægilega fyrir í hlutverki hins eilífa fórnarlambs með því að ganga út frá því að karlinn muni ganga í skrokk á manni ef maður hafnar honum eða skaða mann í krafti valds síns. Með sama þankagangi myndi maður heldur ekki standa á rétti sínum ef vinnuveitandi bryti á manni, af því að hann gæti orðið fúll, fundið upp á því að láta mann vinna óvinsæl verkefni eða jafnvel sagt manni upp. Maður lætur ekki bara vaða yfir sig af því að það er hugsanlegt að það kæmi manni í verri stöðu.
Það er ömurlegt gagnvart þolendum grófs ofbeldis að setja alla áreitni og misnotkun undir sama hatt og stórfelldar líkamsárásir. Þeir sem endilega vilja gera allar konur að passívum fórnarlömbum, kjósa þó vitanlega að túlka það viðhorf að konur beri einhverja ábyrgð á sínum eigin viðbrögðum þannig að þar með sé maður að leggja blessun sína yfir kynferðislega áreitni.