Ég var að lesa S.C.U.M., fyrst nú, hef aldrei lesið ávarpið í heild áður. Þetta umtalaða verk kom út í íslenskri þýðingu nú í sumar undir titlinum SORI.

Íslenskir rýnendur verksins hafa lýst ávarpinu sem hressu og kjaftforugóðu mótvægi við hlutgervingu og klámiðnað. Valerie Solanas er sögð ofurtöffari og þeir sem á annað borð sjá eitthvað athugavert við skrif hennar, réttlæta þau með þeim rökum að manneskja sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi hljóti að hata karla. Róttæklingar leggja áherslu á að áróðurinn beinist gegn feðraveldinu sjálfu og það sé bara gott á auðvaldið, hernaðarhyggjuna, klámvæðinguna og önnur kúgunaröfl að fá almennilega flengingu.

Semsagt, ef klámvæðingin hlutgerir konur þá er rökrétt að svara því með því að niðurlægja karla. Nauðsyn þess að brjóta niður öll kúgandi kerfi, kallar á útrýmingu þessa líffræðilega og andlega afskræmis sem kallast karlmaður, eða það er allavega svakalega hresst að segja það.

Ég sé nú reyndar ekki að konur séu alsaklausar af hernaði, framgangi kapítalisma o.s.frv. eða að þær sem komist hafa til valda hafi gert neitt róttækara til að vinna gegn slíkri pólitík en hver annar félagshyggjukarl. En gott og vel, við búum við málfrelsi og í krafti þess má gagnrýna kapítalismann með þeim rökum að það sé tilfiningaleg vanhæfni karlmanna sem geri konur að neytendum og að ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að vinna á öllum sjúkdómum og gera mannskepnuna ódauðlega sé sú að karlmaðurinn fái kynferðislegt kikk út úr dauðanum þar sem hann sé hvort sem er sálarlega dauður.

Mér finnst óþolandi þegar karlmenn tala niður til mín. Það kemur mjög sjaldan fyrir að ég verði fyrir beinum dónaskap af hálfu karlmanna (þeir sem á annað borð gera aumkunarverðar tilraunir til að ausa mig skít eru í yfirgnæfandi meirihluta tilvika með píku) en hún er lúmsk, helvítis karlremban og menn sem af fullkomlega góðum huga hafa gefið mér óumbeðnar ráðleggingar um það hvernig ég geti bætt ímynd mína (án þess að spyrja hvort ég sé yfirhöfuð í einhverri ímyndarkeppni) eða hvernig ég geti „náð langt“ (enginn þessarra manna hefur náð lengra en svo að hann ráði við að klóra sér í rassinum hjálparlaust) gerðu sér líklega enga grein fyrir því hve djúprætt hún er, sú hugmynd að konur þurfi karlmenn til að hafa vit fyrir sér. Þeir átta sig heldur ekki á þeim viðhorfum sem búa að baki þegar talað er um konur sem prinsessur eða þegar umræðan um það sem við segjum fer að snúast um það hvernig við lítum út. Vinur minn skildi t.d. ekki hvers vegna ég reif hár mitt og skegg hans (ég hef ekkert sjálf) þegar ég kom fram í sjónvarpi til að ræða mál sem brann á mér og hans fyrstu viðbrögð voru „þú varst fokking falleg“. Nokkrum dögum fyrr hafði ég gengist upp í skjalli og hver fjandinn var eiginlega í gangi?

Og þetta er nóg. Þessi undirliggjandi, hálfmeðvitaða eða jafnvel ómeðvitaða hugmynd um að kynferði skilgreini vægi þess sem við höfum að segja, er nógu mikið vandamál til þess að við köllum það karlrembu og reynum að uppræta það. En hvað ætlum við þá að gera við hreinræktað og fullkomlega meðvitað karlhatur? Samþykkja það? Hampa því? Biðja föður minn, syni mína og bræður, vinsamlegast að skilja að þar sem þeir beri ábyrgð á auðhyggju og ofbeldi, verði þeir bara vessgú að sætta sig við að vera líkt við hálfapa, enda sé það svo gífurlega hress og kjaftfor líking?

Ég get svosem tekið undir það að afdráttarlaus eyðilegging allra kúgunarkerfa sé frekar hress hugmynd en öll viðleitni til að horfa fram hjá karlhatrinu sem gagnrýni Solanas á feðraveldið grundvallast á, er í skársta falli sjálfsblekking. SCUM er ekki uppbyggilegt innlegg í pólitíska umræðu. Það er ekki fyndið verk og það er ekki stuðandi í þeirri merkingu að það ögri viðhorfum okkar eða í neinni annarri jákvæðri merkingu þess orðs. Eina stuðið í því er viðbjóðurinn sem grímulaus hatursáróður vekur öllu hugsandi fólki. Það sori, bókmenntaverk af sama tagi og ofbeldisklám, Nornahamarinn og Biblía hvíta mannsins. Það að hatrið beinist gegn þeim helmingi mannkynsins sem hefur meiri völd og fjárráð breytir engu þar um, flestir karlmenn hafa heldur andskotans engin völd og margir þeirra ekki einu sinni yfir sjálfum sér.

Boðskapur Valerie Solanas er sá að rót allrar illsku sé karlmaðurinn sjálfur, ekki menningarleg viðhorf sem hægt sé að leiðrétta, heldur sjálft kynferði hans. Mér finnst dapurlegt að anarkistar, femínistar og aðrir sem segjast berjast gegn kúgunaröflum samfélagsins skuli mæla þessu bót og áhugavert væri að sjá viðbrögðin við jafn einhliða einræðu um ógeðslegt eðli og innræti kvenna. Ég efast um að sömu aðilar myndu hampa slíku listaverki.