Það sem ég skil ekki í málflutningi klámandstæðinga er að hlutgervingar- og fórnarlamsumræðan skuli:
a) bara snúast um konur en ekki karla
b) snúast um allar konur í þessum bransa, líka þær sem hafa lýst því yfir að þær hafi valið sér þennan starfsvettvang og óskað þess að vera látnar í friði
c) einkennast af þessum undarlega frasa „að selja líkama sinn“.

Ég hef ekki víðtæka þekkingu á klámi. Hef bara ekki nægan áhuga á þessari hallærislegu listgrein til að nenna að kynna mér hana að ráði. Það litla sem ég hef séð er afskaplega ótrúverðugt, en þó ekkert ótrúverðugra en rómantískar gamanmyndir eru almennt. Það klám sem ég hef séð dregur upp ósannfærandi og fremur ógeðfellda mynd af bæði körlum og konum sem óseðjandi kynlífsmaskínum sem hafa hvorki andlegar né líkamlegar hömlur. Ekki get ég séð að konur séu þar meiri leikföng eða þolendur en karlarnir. Ég sé heldur ekki að staðalmyndir séu þar meira áberandi en í tískubransanum eða Hollywoodmyndum. Silikongellan og gaurinn með millifótaljósastaur eru kannski algengustu typurnar en einnig er til feitabolluklám, ellismellaklám og myndir sem sýna konur í háum leðurstígvélum rassskella fullorðna karlmenn. Óskaplega hlýtur þessháttar klám að ýta undir hugmyndina um konur sem óvirk leikföng.

Ég efast ekki um að ýmisskonar misbeiting á sér stað í tengslum við klámiðnaðinn og ÞAÐ er vandamál sem þarf að uppræta. Allt almennilegt fólk getur verið sammála um að barnaþrælkun skuli uppræta. Fáir munu hinsvegar álíta að rétta leiðin til þess sé sú að banna kaup og sölu á gólfmottum. Klám- og kynlífsgeirinn er ekki smábissniss örfárra skúrka heldur umfangsmikill iðnaður sem þúsundir kvenna og karla (þeir eru reyndar í minnihluta) hafa lifibrauð sitt af. Sumir fara út í þennan iðnað vegna sárrar neyðar. Rétt eins og menn hafa unnið í kolanámum og við önnur hættuleg störf af því að ekkert skárra var í boði. Aðrir fara út í þetta af frjálsum vilja. Rétt eins og sumir velja sér ógeðsleg störf á borð við ristilskurðlækningar.

Ég skil ekki hvernig nokkur maður getur fengið sig til að vinna við að lóga kettlingum en það er staðreynd að sumir gera það án þess að nokkur nauðung komi til. Ég skil heldur ekki að nokkur skuli vilja hafa atvinnu af því að láta sódómast á sér fyrir framan myndavél en minn smekkur gerir þetta fólk hvorki að fórnarlömbum né skúrkum. Ég skil hinsvegar fólk sem er tilbúið til að vinna störf sem þykja ekki fín, fremur en að lifa við örbirgð.

Klámleikarar og vændiskonur selja ekki líkama sinn fremur en annað fólk. Það hefur líkamann ennþá, og gerir það sem því þóknast með honum eftir að myndatöku, strippsjóvi eða hópreið lýkur. Þetta fólk selur þjónustu sína, rétt eins og vegavinnumaðurinn, bankastjórinn og sviðsleikarinn. Sumir gera það vegna nánast meðfæddrar samfélagsstöðu, rétt eins og íslenska fiskverkakonan fyrir 30 árum, aðrir velja það. Sumir eru ekkert annað en þrælar aðrir hátekjufólk sem er fullkomlega sátt við stöðu sína.

Þrælahald á auðvitað aldrei að viðgangast en við upprætum það ekki með því að lýsa vanþóknun á tilteknum iðnaði. Ef flokkssystkini mín í VG eru í einlægni að hugsa um þrælahald, þá ættu þau að beina sínum uppsnúnu nefum að því þrælahaldi sem viðgengst daglega á Íslandi. Vinstri menn hafa mótmælt augljósum lögbrotum gegn erlendum verkamönnum en sjaldan af sömu geðshræringu og þeir mótmæla sýningum á brókarlausu kvenfólki. Þeir hafa þanið sig yfir meðferðinni á fátækum gamalmennum en aum reynist eftirfylgnin við þann lúðrablástur. Ef frjálslyndum vinstri mönnum á Íslandi væri í alvörunni umhugað um mannlega reisn, myndu þeir frekar skoða rannsóknir á því hvernig það fer með sjálfsvirðingu fólks að vinna fyrir launum sem ekki er hægt að framfleyta sér af, í samfélagi sem álítur virðulegra að fela fátækt sína með endalausum lántökum en að ganga í gömlum fötum og taka strætó í vinnuna. Það er frekar dapurlegt til þess að hugsa að fólk sem þykist vera umhugað um réttinn til sjálfsvirðingar skuli vera svo grunnhyggið að halda að sjálfsvirðing kvenna sé fyrst og fremst geymd í píkunni.

Og talandi um þræla …

… hér býr fjölmenn stétt þræla. Fjölmenn stétt fólks sem er fætt og uppalið til ævilangrar þrælkunar. Fáeinir hafa að vísu leiðst út í búskap á fullorðinsárum en langflestir bændur hafa aldrei átt neina valkosti.

Þetta fólk er í raun öreigar, því þótt það sé skráð fyrir eignum, eru það iðulega eignir sem engin leið er að losna við fyrir sannvirði. Sumarfrí er ekki inni í myndinni, ekki helgarfrí heldur. Þar sem þetta vesalings fólk er að nafninu til eigin herrar, kemur ekkert í veg fyrir að það vaki sólarhringum saman yfir sauðburði eða sé ósofið á vinnuvélum til að ná inn heyjum. Margir hafa enga menntun, eiga enga varasjóði og hafa enga þá reynslu sem gerir þeim auðvelt að koma sér burt úr eymdinni hjálparlaust.

Engin samtök styðja fátæka bændur sem vilja leggja niður búskap eða veita þeim áfallahjálp og ekki man ég til þess að hafa heyrt neinar tillögur um að reynt verði að ná til þeirra til að hjálpa þeim að brjótast úr úr þessari skaðlegu og sjálfsniðurlægjandi starfsgrein. En ef fréttist að ómenntaður útlendingur fái greitt fyrir að fara úr brókinni á sviði, þá stendur ekki á bjargvættunum.

Hneykslunin yfir klám- og kynlífsiðnaðinum snýst ekki um mannréttindi, kvenréttindi eða virðingu fyrir mannssálinni. Úlfaþyturinn stafar fyrst og fremst af lítilmótlegri hneigð mannsins til að telja sína eigin kynlifshegðun þá einu eðlilegu, siðlegu og réttu.