Sovésk lög um jafnlaunavottun

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra lagði nýlega fram frumvarp til laga sem myndi skylda öll fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri til að undirgangast jafnlaunavottun á þriggja ára fresti, en hún á að tryggja að starfsmenn fái sömu laun fyrir sambærileg störf. Frumvarpið gerir þá kröfu til fyrirtækja að þau fái slíka vottun, sem samkvæmt frumvarpinu grundvallast á staðlinum ÍST 85:2012, sem Staðlaráð Íslands gefur út, en Staðlaráðið er „samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlum“ og „setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir“.

En þótt Staðlaráðið starfi samkvæmt lögum, og reglum sem ráðherra setur, þá eru staðlarnir sem það býr til ekki aðgengilegir almenningi, nema gegn greiðslu. Til dæmis kostar það 10.730 krónur að fá að sjá staðalinn ÍST 85:2012, sem umrætt frumvarp byggir á.

Af því að lög eru fyrir almenning (og fyrirtæki) til að fara eftir er almennt talið að þau verði að vera skiljanleg þeim sem eiga að hlýða. Þess vegna gerði ég ráð fyrir að umræddur staðall myndi fylgja frumvarpinu, svo ljóst væri hvað væri verið að leiða í lög. Þar sem ég fann þó ekki staðalinn á vef Alþingis í tengslum við þetta frumvarp skrifaði ég ráðherranum, og velferðarráðuneytinu, og spurði hvort til stæði að birta staðalinn. Ég ítrekaði svo fyrirspurnina nokkrum sinnum (hafandi þá reynslu af íslenskum ráðuneytum að þau svari ekki fyrirspurnum nema eftir því sé gengið ítrekað), og fékk á endanum þetta svar (viku eftir fyrirspurnina):

„Staðlaráð Íslands gaf út staðallinn Jafnlaunakerfi ÍST 85:2012. og áskilur ráðið sér öll réttindi varðandi hann. Í staðlinum er tekið fram eftirfarandi: ,, Án skriflegs leyfis útgefanda má ekki endurprenta eða afrita þennan staðal með neinum hætti, vélrænum eða rafrænum, svo sem ljósritun, hljóðritun eða annarri aðferð sem nú er þekkt eða verður síðar fundin upp, né miðla staðlinum í rafrænu gagnasafni“. Því getur ráðuneytið ekki birt staðalinn en tekið skal fram að hægt er að kaupa hann hjá Staðlaráði Íslands.“

Félagsmálaráðherra vill sem sagt setja lög sem byggja á reglum sem ekki verða gerðar opinberar almenningi (nema þeim sem eru tilbúin að borga slatta af þúsundköllum fyrir).

Leynileg lög eru ekki íslensk uppfinning; þau voru mikið notuð í Sovétríkjunum sálugu. Engum dylst að Sjálfstæðisflokkurinn er sigursælasti sovétflokkur Vesturlanda (og í heiminum, eftir fall Sovétríkjanna), með sinn þrautskipulagða ríkisverndaða kapítalisma, sem grunur leikur á að rússneskir ólígarkar hafi lært trix sín af eftir hrun sovétsins þar eystra.

En að Viðreisn, með Þorstein í fararbroddi, ætli sér að keppa við Sjálfstæðisflokkinn einmitt í sovétmennskunni hlýtur að koma einhverjum á óvart.

Einnig birt hér