Sæll Guðni
Það voru mikil vonbrigði að sjá rökstuðning þinn fyrir ákvörðuninni um að staðfesta skipun dómaranna í Landsrétt. Ég átti alveg eins von á að einhverjir lögspekingar hefðu bent þér á leið til að réttlæta þetta sem öðrum hefði yfirsést. En það sem þú segir í yfirlýsingu þinni er furðuleg samsuða sem engan veginn tekur á því sem ágreiningurinn snýst um, og það er þér ekki til sóma.
Rökstuðningurinn í yfirlýsingu þinni snýst aðallega um tvennt: Að afgreiðsla málsins hafi verið í samræmi við þingvenjur, sem styðjist við þingsköp, og að skrifstofa Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að afgreiðslan hafi verið lögmæt.
Hvort tveggja er út í hött að leggja til grundvallar:
Ef afgreiðslan fór í bága við dómstólalögin, þá geta þingvenjur ekki gert hana lögmæta. Og almenn ákvæði í þingskapalögum geta aldrei trompað ákvæði í sérlögum, sem dómstólalögin eru.
Að spyrja skrifstofu Alþingis hvort hún telji að staðið hafi verið að afgreiðslunni með lögmætum hætti er álíka skynsamlegt og að spyrja fólkið á skrifstofu Ólafs Ólafssonar hvort hann hafi nokkuð brotið af sér í Al-Thani-málinu. Það er sjokkerandi að sjá þig leggja slíkt til grundvallar, sérstaklega í ljósi þess að þú segir ekki frá neinum viðræðum þínum við lögfræðinga sem eru á öndverðum meiði, hvað þá röksemdafærslum þeirra.
Ágreiningurinn snýst um túlkun þessa bráðabirgðaákvæðis í dómstólalögum:
„Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar.“
Vegna þess að sérstaklega er talað um „hverja skipun“ og „tiltekna skipun“ liggur beinast við að túlka þetta ákvæði svo að samþykkja þurfi hverja skipun fyrir sig, en ekki allar í einu búnti, enda er vandséð hver tilgangurinn hefði annars verið með þessu orðalagi, og sá er skilningur eins þeirra lögfræðinga sem tóku þátt í að semja umrætt ákvæði.
Vegna þessarar óvissu, og þess að það eru sterk rök fyrir því að þingið hafi ekki farið að lögum, er ljóst að þessi afgreiðsla mun alltaf sæta mikilli gagnrýni, og setja ljótan blett á starf Landsréttar sem er skipaður með þessum vafasama hætti.
Þess vegna hefðirðu átt að synja því að staðfesta þessar skipanir. Afleiðingin af því hefði trúlegast einfaldlega orðið sú að þingið hefði fjallað aftur um málið og staðfest hverja skipun fyrir sig. Þar með hefði sá blettur verið þveginn af réttinum.
Það er hægt að hafa þá afstöðu að forseti eigi bara að vera stimpilpúði fyrir framkvæmda- og löggjafarvaldið. En þar sem þú hefur tekið afstöðu til málsins verður að krefjast þess að þú vinnir þá vinnu af heilindum og á málefnalegan hátt. Það hefur þú ekki gert hér; þetta er hvítþvottur, sem augljóslega þjónar þeim valdhöfum sem telja sig hafna yfir lög og reglur, en ekki þeim hagsmunum almennings sem þú ættir að vinna fyrir.
Það voru mikil vonbrigði.
Kveðjur,
Einar