Myndin er samsett af Kvennablaðinu
Nýlega undirritaði Dagur borgarstjóri samning um byggingu 332 íbúða á Gelgjutanga í Reykjavík. Markmiðið er væntanlega að létta svolítið þann gríðarlega þrýsting sem er á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Það er góðra gjalda vert, og kannski algert aukaatriði þótt það sé kaldhæðnislegt, að eigandi fyrirtækisins sem samið var við, og sem væntanlega mun græða þokkalega á þessu, er Ólafur Ólafsson. Hann er einn af þeim sem ábyrgð bera á hruninu, sem er ein af orsökum hins hryllilega ástands í húsnæðismálunum.
En það er samt dapurlegt að sjá borgarstjóra svokallaðra félagshyggjuflokka semja við dæmdan stórkapítalista um að byggja örfáar af þeim þúsundum íbúða sem þarf til að koma þessum málum í skikkanlegt horf, í stað þess að vinna að því að leysa vandann í eitt skipti fyrir öll.
Húsnæðisvandinn á Íslandi er margs konar. Að kaupa er brjálæðislega dýrt vegna þeirra okurvaxta sem fólk þarf að borga; þeir hafa lengi verið þrefaldir til fimmfaldir á við það sem gerist í nágrannalöndum. Hin hliðin á vandanum er að það er enginn áreiðanlegur leigumarkaður á Íslandi, öfugt við það sem gildir í flestum löndum sem við þekkjum.
Vaxtaokrið verður erfitt að losna við, geri ég ráð fyrir, meðan við höldum í örmyntina ISK. En það er einfalt mál að búa til skikkanlegan leigumarkað. Það er hægt að gera svona:
Hið opinbera (ríkið, hugsanlega fyrir sveitarfélögin) tekur erlend lán til langs tíma (t.d. 50 ára) til að byggja svo sem tíuþúsund leiguíbúðir á næstu 10 árum (og svo fleiri eftir það). Slík lán ætti að vera hægt að fá með 1% vöxtum (sjá t.d. þetta).
Með því að byggja mikinn fjölda íbúða í einu, með skipulegum hætti, má ná byggingarkostnaðinum talsvert niður. Með 1% raunvexti á lánunum gæti leigan orðið miklu lægri en gerist á höfuðborgarsvæðinu í dag, og alveg sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum, enda græða jafnvel einkaaðilar þar á því að leigja út húsnæði á hóflegu verði. Hið opinbera þyrfti ekki einu sinni að niðurgreiða vextina, þótt það væri ekki endilega frágangssök, enda fullt af slíkum niðurgreiðslum í gangi til ýmissa aðila (t.d. fá bílaleigur milljarða í afslátt af tollum á bíla sem þær kaupa).
Einkaaðilar munu aldrei sjá sér hag í að leigja út íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði meðan raunvextir eru eins háir og raun ber vitni á Íslandi, auk þess sem þeir ætla sér jafnan talsverðan hagnað. Hið opinbera getur hins vegar auðveldlega komið á fót slíkum leigumarkaði, þar sem verðið væri viðunandi, og leigjendur gætu búið eins lengi og þeim sýndist í íbúðum sínum, í stað þess að vera allt í einu hent út af því að dóttir eigendanna var að koma heim úr námi.
Hvernig í ósköpunum stendur á því að hinir svokölluðu félagshyggjuflokkar á Íslandi hafa ekki hunskast til að beita sér fyrir þessu, og það fyrir löngu? Af hverju eru þeir að tala um að byggja nokkur hundruð íbúðir eins og það sé stórmál, og berja sér á brjóst fyrir það, í stað þess að vinna að því af alefli að ríki og sveitarfélög byggi þá tugi þúsunda leiguíbúða sem þarf til að húsnæðismálin komist í þokkalegt og varanlegt horf?