Stefán Eiríksson rannsakar yfirmann sinn

Nýlega fékk lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Stefán Eiríksson, til rannsóknar frá ríkissaksóknara lekamál innanríkisráðuneytisins.  Í því máli hafa starfsmenn ráðuneytisins, þ.á.m. ráðherra, verið kærðir vegna gruns um hegningarlagabrot.

Ég spurði Stefán í tölvupósti hvort rannsókn málsins væri hafin, og hvort hann teldi sig ekki vanhæfan til að rannsaka málið.  Stefán neitar að svara þessu og segir að embættið muni ekki tjá sig um málið, þótt spurningarnar hafi alls ekki snúist um málið sjálft.
Stefán er lögfræðimenntaður, og hlýtur auðvitað að gera sér grein fyrir því hversu vafasamt það er að hann sé hæfur til að rannsaka málið, samkvæmt 3. grein stjórnsýslulaga, en þar stendur meðal annars:
Starfsmaður … er vanhæfur til meðferðar máls … ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta …  Sama á við ef næstu yfirmenn hans hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi eiga sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. … ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
 Af þessum ákvæðum að dæma er þetta reyndar varla neitt vafamál.  Embætti Stefáns heyrir nefnilega undir innanríkisráðherra, sem hefur gríðarleg áhrif á fjárveitingar til embættisins og störf þess að öðru leyti, og sama gildir um næsta yfirmann Stefáns, ríkislögreglustjóra, sem heyrir beint undir ráðherra.
Það sem verra er, það er innanríkisráðherra sem skipar í embætti Stefáns, og getur því rekið þann sem situr í því.  Þar að auki vill svo til að skipunartími Stefáns rennur út um mitt ár 2016, á þessu kjörtímabili.  Það þýðir að ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem nú sætir lögreglurannsókn sem Stefán ber ábyrgð á, situr áfram í embætti, þá á Stefán áframhaldandi skipun sína undir Hönnu Birnu sjálfri.
Lögreglustjórinn sem á að rannsaka kærur á hendur ráðherra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins á sem sagt framtíð sína og starfsskilyrði undir sama ráðherra.
Það er til nafn yfir ríki þar sem svona aðfarir eru taldar eðlilegar.  Þau eru kölluð bananalýðveldi.  En vonandi gengur Stefán ekki niður í það víðfeðma fúafen sem spillingin í íslenskri stjórnsýslu er …

Deildu færslunni