Frammistaða fréttastofu RÚV í lekamáli innanríkisráðuneytisins hefur vakið áleitnar spurningar um hvað fréttastjóranum, Óðni Jónssyni, gangi til. Í fréttum RÚV hefur verið talað við fjórar manneskjur vegna þessa máls, Hönnu Birnu sjálfa, Bjarna Ben, Sigurð Líndal og Stefaníu Óskarsdóttur.
Sigurður var kynntur sem lagaprófessor. Hann hélt því fram að „Ekki sé ástæða til að ráðherra víki úr embætti á meðan rannsók fer fram“ samkvæmt frásögn RÚV. Merkilegt nokk virðist hér bara vera um einkaskoðanir Sigurðar að ræða, eða kannski bara lauslegar hugleiðingar hans, sem ekki voru ætlaðar til birtingar, og vandséð að þessar skoðanir hans eigi eitthvert erindi við landsmenn fremur en skoðanir annarra óbreyttra borgara. Það kemur að minnsta kosti verulega á óvart að Sigurður nefndi engin lagaleg rök máli sínu til stuðnings. Og hann minntist ekki einu orði á þau vanhæfisákvæði stjórnsýslulaga sem maður skyldi ætla að lögfræðingur liti fyrst til þegar mál af þessu tagi ber á góma.
Stefanía lýsti lika þeirri skoðun sinni að Hanna Birna þurfi ekki að víkja á meðan lögreglurannsókn á kærunni gegn henni fer fram. Þessi afstaða byggir augljóslega á engu öðru en einkaáliti Stefaníu sjálfrar, enda dettur engri heilvita manneskju í hug að til sé einhvers konar stjórnamálafræði sem útskýri af hverju það sé í lagi að yfirmaður sitji sem fastast þegar undirmenn hans eiga að rannsaka mögulegt glæpsamlegt athæfi yfirmannsins.
Í viðbót við þessar skoðanir Stefaníu um mál (fyrrverandi?) flokkssystur sinnar hrutu af vörum hennar tvenn ódauðleg ummæli, sem vafalítið verða skráð á gullspjöld í sögu íslenskrar stjórnmálafræði. Annars vegar sagði Stefanía, samkvæmt frétt RÚV:
Á meðan rannsókn málsins stendur yfir sé spurningum ósvarað.
Þetta eru mikil tíðindi, því hingað til hefur flest hugsandi fólk gengið út frá því að rannsóknir væru bara gerðar í málum eftir að búið væri að svara öllum spurningum.
Auk þess sagðist Stefanía, samkvæmt fréttinni,
ekki sjá ástæðu til að ráðherra víki á meðan á rannsókninni stendur, ekki síst ef hún dregst á langinn.
Stefanía telur sem sagt að ef rannsóknin taki langan tíma þurfi ráðherra ekki að víkja, en svo virðist sem hún telji þá að ef rannsóknin gangi hratt fyrir sig væri eðlilegt að Hanna Birna viki á meðan. Hér er því um einhvers konar tímavél að ræða (og gott hefði verið að Stefanía útskýrði þessi djúpu stjórnmálafræði): Til að ákveða hvort ráðherra ætti að víkja núna þurfum við bara að vita hvort rannsóknin muni taka langan tíma.
Hitt er svo aftur áleitin spurning hvort Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, er að draga stuðningsmenn Hönnu Birnu (og hana sjálfa) sundur og saman í háði, með því að láta þetta fólk segja botnlausa þvælu í útvarpi og sjónvarpi, eða hvort hann fattar ekki djókinn og er að leggja sig allan fram um að vernda Hönnu Birnu með því að leiða fram hvern stuðningsmann hennar á fætur öðrum, en halda burtu öllum sem gætu hugsanlega haft einhver rök eða lögfræðilega þekkingu fram að færa.