Jay Leno grætur í kvöldfréttum RÚV

Í útvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var sagt frá því að ríkissaksóknari hefði lagt fyrir lögreglu að rannsaka lekamál innanríkisráðuneytisins, vegna kæru á hendur ráðherra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins.

Í fréttatímanum var viðtal við ráðherrann, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þar sem hún sagðist ekki myndu víkja meðan á lögreglurannsókn stæði, af því að kæran beindist ekki gegn henni persónulega, heldur gegn ráðuneytinu.  Það er reyndar rangt, því það voru starfsmenn ráðuneytisins sem voru kærðir, en ekki ráðuneytið, og ef kært verður í framhaldi af þessari rannsókn verða það persónur sem verða kærðar.  Hitt er ekki síður fáránlegt, að halda fram að ráðherra þurfi ekki að víkja þegar hann sætir rannsókn vegna gruns um alvarlegt lögbrot í starfi, af því að persóna ráðherrans hafi ekki verið kærð.  Afleiðing af þeirri röksemdafærslu er að ráðherra gæti framið hvers konar lögbrot í starfi, og þyrfti ekki að víkja af því að það væri ráðherrann sem hefði brotið af sér en ekki persónan í stólnum.
Það var líka haft eftir Hönnu Birnu í fréttum RÚV um málið að  „hér sé  aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdavalds“ og að „Almenningur getur treyst því að lögreglan muni rannsaka þetta faglega og með vönduðum hætti þrátt fyrir að það kunni með einhverjum hætti að snúast um ráðuneytið eða undirstofnanir þess.“  Hanna Birna var samt ekki spurð hvað þetta kæmi við aðskilnaði dóms- og framkvæmdavalds, þótt bæði ráðherrann og lögreglan sem á að rannsaka hann séu hluti af framkvæmdavaldinu.
Fréttafólk RÚV bað ekki um neinn rökstuðning við þessa botnlausu þvælu, né heldur velti það upp spurningunni, eða spurði lögfrótt fólk, um hugsanlegt vanhæfi ráðherrans, sem er jú æðsti yfirmaður þeirrar lögreglu sem á að rannsaka hann og nánustu samstarfsmenn.
Með þessu var þó ekki öll sagan sögð í fréttatíma RÚV.  Þar var í framhaldinu talað við Bjarna Benediktsson (án þess útskýrt væri af hverju skoðun fjármálaráðherra á málinu væri áhugaverðari en skoðun mannsins á götunni).  Bjarni taldi eðlilegt að Hanna Birna sæti áfram og sagði að „ef það færi svo að í hvert skipti sem ráðherra dómsmála þyrfti að víkja vegna kæru myndi það kalla á mikla upplausn yfir starfsemi ráðuneytisins.“  Hér er reyndar ekki um að ræða kæru einhvers kverúlants úti í bæ sem er ítrekað að gera sér leik að því að trufla störf ráðuneytisins.  Auk þess er hér ekki bara um kæru að ræða.  Það er nefnilega ríkissaksóknari sem hefur rannsakað málið í tvo mánuði, vegna kæru, og komist að þeirri niðurstöðu að tilefni sé til að láta fara fram lögreglurannsókn.
Ekki heldur bað fréttafólk RÚV um neinn rökstuðning Bjarna fyrir fullyrðingum hans, hvað þá að það hafi fett fingur út í þessa sérkennilegu staðhæfingu, né heldur leitaði það álits þeirra sem eitthvað kunna um þau lög sem þó eiga að gilda í landinu.
Í þessa frétt var ekki sóað nema rúmri mínútu af hálftíma kvöldfréttum.  Það var vel, því annars hefði ekki verið hægt að gera nægileg skil kjökri Jays Leno, sem mun hafa stýrt þættinum The Tonight Show í síðasta sinn í fyrradag, og er alþjóð mikil eftirsjá að honum.

Deildu færslunni