Björn Ingi að ritskoða Eyjuna?

Í gærkvöldi lenti ég í athyglisverðu atviki í athugasemdakerfinu við þennan pistil Egils Helgasonar á Eyjunni.  Það byrjaði með því að ég skrifaði ummæli þar sem ég talaði um heimsku og hroka sem þætti í persónuleika Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis.  Skömmu síðar gerði Facebook-notandi sem kallar sig „Eyjan“ eftirfarandi athugasemd við það sem ég hafði sagt (hér er skjáskot af þræðinum):

„Athugasemdum þar sem nafngreindir aðilar eru sagðir heimskir verður eytt út og ef viðkomandi aðilar gerast ítrekað sekir um slíkan munnsöfnuð verða þeir útilokaður úr athugasemdakerfinu.“
Ég skrifaði strax til ritstjórnar Eyjunnar (ritstjorn@eyjan.is) og fékk svar um hæl, frá Birni Inga Hrafnssyni, en hann er einn helsti eigandi Eyjunnar, Pressunnar og fleiri vefmiðla, og titlar sig „útgefanda“ þeirra.  Hann vildi ekki svara því hvaða manneskja það væri sem talaði hér í nafni Eyjunnar, né heldur spurningum mínum um það sem ég segi frá síðar í þessum pistli.
Öfugt við „Eyjuna“/Björn Inga tel ég að það sé í lagi að tala í miklu hvassara orðalagi um framgöngu fólks í opinberum valdastöðum en um „óbreytta“.  Það sem mér finnst þó verst við þessa afstöðu Björns Inga er að ég tel mjög varasamt að ætla að ritskoða umræðu um framkomu valdafólks með þeim hætti sem hér var hótað.  Það er allt of auðvelt fyrir þá sem ráða fjölmiðlum að stunda ritskoðun til að bægja burt skoðunum sem viðkomandi er ósáttur við, undir því yfirvarpi að verið sé að halda uppi kurteisi í umræðunni.  Það er enda mikill munur á raunverulegu persónulegu skítkasti annars vegar og hins vegar því að tala um heimsku í fólki í valdastöðum vegna þess sem það segir og gerir í krafti þess valds.  Alveg sérstaklega er það vont þegar eigendur fjölmiðla, sem hafa mikilla viðskiptahagsmuna að gæta, eru sjálfir með fingurna beinlínis í ritskoðun þegar rætt er um pólitískt valdafólk.
Ef ofangreind athugasemd „Eyjunnar“ hefði verið það eina sem gerðist í umræðum við þennan pistil hefði ég kannski ekki elt ólar við það hér.  En, með þessu er sagan ekki öll sögð.  Örskömmu síðar gerði „Eyjan“ eftirfarandi athugasemd við ummæli mín á öðrum þræði við sama pistil:
„Einar Steingrimsson. Þetta er önnur viðvörun í kvöld. Þeir sem uppnefna aðra druslur geta átt á hættu að vera útilokaðir frá athugasemdakerfinu.“
Þessari athugasemd og hótun „Eyjunnar“ var eytt skömmu eftir að ég spurði hvort hér væri alvara á ferð.  Eins og sjá má á þessu skjáskoti er þetta afar sérkennileg athugasemd, og ég fór þegar hér var komið sögu (áður en ég skrifaði ritstjórninni) að velta fyrir mér hvort „Eyjan“ væri bara nettröll sem væri að skemmta sér, eða hreinlega ein af þessum manneskjum sem ráða illa við að tjá sig sómasamlega á netinu seint á laugardagskvöldum.  Hér er það nefnilega fréttamaðurinn Heimir Már Pétursson sem byrjar þráðinn og segir meðal annars:
„Hins vegar finnst mér að kröfurnar í þessum efnum séu mun strangari á karlpeninginn en konurnar, sem verður að segjast eins og er, að margar hverjar hafa klætt sig eins og druslur á Alþingi í gegnum tíðina.“
Mér finnst þetta sannarlega ekkert til að gera veður út af, enda er engin þingkona nefnd hér.  Mín athugasemd, sem var bara spurning um það hvort druslur mættu ekki vera á Alþingi eins og aðrir, er augljóslega ekki ummæli um nokkra manneskju.  „Eyjunni“ fannst sem sagt engin ástæða til að atyrða Heimi Má fyrir að segja að margar þingkonur hefðu klætt sig eins og druslur, en hins vegar ástæða til að skamma mig fyrir að spyrja hvort druslur mættu ekki sitja á þingi eins og aðrir.
Ég bað „Eyjuna“/Björn Inga, bæði á öðrum þessara þráða, og í þeim póstskiptum sem ég átti við hann, að svara nokkrum spurningum, m.a. hvaða reglur giltu um þessi mál á Eyjunni, og eins spurði ég hann út í þessa sérkennilegu athugasemd hans um druslurnar.  Hann vildi ekki svara þeim spurningum.
Það læðist að mér sá grunur að það hafi verið annað en umhyggjusemi um kurteisi á Eyjunni sem dreif „Eyjuna“/Björn Inga áfram í þessari „kurteisiherferð“.  Nefnilega að hann sé, sem eigandi miðilsins, að reyna að hafa óeðlileg áhrif á umræðuna, með því að ógna þeim sem eru honum ekki þóknanlegir.

Deildu færslunni