Fyrir tæpum tveim mánuðum skrifaði ég innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og ráðuneytisstjóranum Ragnhildi Hjaltadóttur, og spurði um tilurð og dreifingu minnisblaðs sem fjallað var um í þessum pistli og sem mikið hefur verið í fréttum undanfarna mánuði. Ég fékk „svar“ daginn eftir frá Ragnhildi, en það var bara útúrsnúningar og engu svarað af því sem ég spurði um. Þrátt fyrir nokkrar ítrekanir, þar sem ég benti á að ég hefði spurt um allt annað en það sem „svarað“ var, hef ég ekkert heyrt frekar frá þeim stöllum.
Ég skrifaði svo öðrum aðstoðarmanna Hönnu Birnu, Þóreyju Vilhjálmsdóttur rétt fyrir jól og spurði hvort hún hefði haft þetta minnisblað undir höndum eða afhent það aðilum utan ráðuneytisins. Hún svarað því neitandi tveim vikum síðar, þann 7. janúar, eftir að ég hafði ítrekað spurninguna nokkrum dögum áður. Sama dag skrifaði ég hinum aðstoðarmanninum, Gísla Frey Valdórssyni, með sömu fyrirspurn. Hann hefur enn ekki svarað, þrátt fyrir ítrekun fyrir tæpri viku. Því skrifaði ég honum aftur í gær, bréfið sem hér fylgir á eftir.
Eins og rakið er í því bréfi berast böndin í þessu máli ekki síst að Gísla. Hitt er annað mál að ótrúlegt virðist að Gísli (eða Þórey) hefði komið þessu minnisblaði út úr ráðuneytinu án vitneskju ráðherra. Að minnsta kosti virðist trúlegast að í því tilfelli hefði Hanna Birna umsvifalaust rekið hann þegar hún áttaði sig á alvarleika málsins. En, hafi hún vitað um þetta sjálf hefði það auðvitað verið áhættusamt.
Það er sláandi að í frétt Morgunblaðsins frá 22. nóvember er haft eftir ráðuneytinu að embættismenn þess virðist ekki hafa afhent þetta minnisblað aðilum utan ráðuneytisins. En ráðherra og aðstoðarmenn eru einmitt ekki embættismenn, samkvæmt 22. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Morgunblaðið hefur heldur ekki lýst yfir að það hafi farið rangt með þegar það sagðist hafa þetta óformlega minnisblað undir höndum. Því liggur beinast við að álykta að ráðherra eða aðstoðarmenn hennar hafi sett saman þetta blað og lekið því í fjölmiðla. Enda virðist það ótrúlegt að ráðuneytið hefði ekki kært til lögreglu að dreift hefði verið til fjölmiðla fölsuðu minnisblaði sem látið er líta út fyrir að samið sé í ráðuneytinu og sem Morgunblaðið heldur fram fullum fetum að sé þaðan.
Allar spurningarnar kringum þetta ljóta mál munu lifa svo lengi sem ráðherra svarar ekki skýrt og skorinort hvernig í pottinn er búið. Eða að minnsta kosti þangað til hún segir af sér.
———————————————————————
Sæll enn Gísli
Í þessari frétt segir ráðuneytið um hið „óformlega minnisblað“ sem Morgunblaðið hafði undir höndum að „ekkert bendir til þess að slík gögn hafi verið afhent frá embættismönnum innanríkisráðuneytisins“: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/11/22/ekki_fra_embaettismonnum_raduneytisins/
Mér skilst að aðstoðarmenn ráðherra séu ekki embættismenn. Hinn aðstoðarmaður innanríkisráðherra, Þórey Vilhjálmsdóttir, hefur svarað mér því að hún hafi ekki „haft þetta minnisblað“. Þá ert þú einn eftir af þeim sem helst koma til greina, ef embættismenn eru undanskildir, enda virtist þú vita til þess að „einhverjir gætu verið að búa til einhverja punkta hjá sér“ samkvæmt þessari frétt: https://www.dv.is/frettir/2013/11/21/fordaemalauslekiraduneytisapersonuupplysingum/
Því spyr ég þig enn:
1. Hefur þú haft þetta minnisblað, eða minnisblað með svipuðum texta, undir höndum?
2. Hefur þú afhent aðilum utan ráðuneytisins þetta minnisblað eða minnisblað með svipuðum texta um mál Tony Omos?
Bestu kveðjur,
Einar