Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var fjallað um lekamálið í innanríkisráðuneytinu. Fréttin var kynnt með þessum orðum í upphafi fréttatímans, nokkurn veginn eins og ætla mætti að ráðherrann Hanna Birna hefði sjálf samið innganginn:
„Innanríkisráðherrann grunar að umræða um meintan leka á persónuupplýsingum snúist ekki um hælisleitandann heldur um eitthvað allt annað, eins og að koma höggi á hana sjálfa. Hart var sótt að ráðherra á Alþingi í dag.“
Kynningin fjallar sem sagt ekki um það sem málið snýst um, meintan alvarlegan leka úr ráðuneytinu, heldur bara um skoðun ráðherra á hvötum þeirra sem vilja fá svör við þeim áleitnu spurningum sem ráðherrann hefur komið sér hjá að svara hreinskilnislega.
Það er þó annað sem er ekki síður athyglisvert við þessa frétt. Ráðuneytisstjórinn í innanríkisráðuneytinu ber, ásamt ráðherra, höfuðábyrgð á starfi ráðuneytisins, og hefur að sjálfsögðu haft mikil afskipti af þessu máli. Ráðuneytisstjórinn er Ragnhildur Hjaltadóttir. Hún er systir Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur, fréttamanns á RÚV, sem skrifaði fréttina.