Rannsóknarnefnd manndrápa lögreglu

Þegar flugvél ferst á Íslandi fer strax á staðinn rannsóknarnefnd samgönguslysa (áður rannsóknarnefnd flugslysa).  Mikilvægt þykir að sérhvert flugslys sé rannsakað til hlítar, hvort sem manntjón hefur orðið eða ekki. Markmiðið  með starfinu er að fækka slysum og auka öryggi.  Því er reynt að greina eins og frekast verður unnt orsakir slyssins, í þeirri von að hægt sé að nota upplýsingarnar til að koma í veg fyrir fleiri sambærileg slys, hvort sem orsök slyssins er mannleg mistök eða bilun í búnaði.

Engum dytti í hug að láta sjálft flugfélagið sem á vélina, eða samtök flugmanna, sjá um rannsóknina, heldur er hún framkvæmd af óháðum aðilum, sem hafa það hlutverk eitt að komast að sannleikanum um hvað gerðist og af hverju, eins ítarlega og hægt er.
Þegar lögregla banar manneskju ætti að vera jafn sjálfsagt að samstundis fari af stað rannsókn óháðra utanaðkomandi aðila, sem hafi ótakmarkaðar heimildir ti að skoða öll gögn lögreglu og taka skýrslur af þeim sem einhvern þátt tóku í aðgerðinni.  Markmiðið væri að skilja hvað gerðist, og hvort manndrápið var óhjákvæmilegt, miðað við aðstæður, í þeim tilgangi að fækka slíkum tilfellum eins og unnt er í framtíðinni.
Lögreglan getur ekki rannsakað sjálfa sig, og það á heldur ekki að setja ríkissaksóknara í þá aðstöðu, enda er hann sérhæfður í að rannsaka athæfi sem fyrirfram leikur grunur á að sé saknæmt og á eingöngu að komast að niðurstöðu um hvort svo sé, en ekki að greina í smáatriðum hvað hafi gerst að öðru leyti.
Það er rangt, og til vansa, að gefa sér fyrirfram að lögregla hafi gert mistök í því manndrápsmáli sem nú breiðir skugga sinn yfir samfélagið.  En það er líka rangt að láta eins og allt hljóti þetta að hafa verið óhjákvæmilegt, því öll gerum við mistök, ekki síst við jafn hræðilega erfiðar aðstæður og hér var um að ræða.
Til að koma í veg fyrir grunsemdir og illmælgi sem ekki er á rökum reist, og umfram allt til að koma í veg fyrir ónauðsynleg manndráp lögreglu í framtíðinni, er nauðsynlegt að sérhvert mál af þessu tagi sé rannsakað í kjölinn af óháðum aðilum sem geta notið trausts almennings.