Segir Hanna Birna satt?

Í gær sendi ég eftirfarandi fyrirspurn til innanríkisráðherra vegna þess sem virðist vera minnisblað frá ráðuneytinu sem lekið hafi verið til fjölmiðla.  (Ég hef ekki fengið svar enn.)  Greinilegt er að þessu minnisblaði hefur verið dreift víða, en svo virðist sem ráðuneytið hafi ekki ansað lögmönnum þess fólkssem fjallað er um og sem fóru fram á að fá minnisblaðið.  Ég læt fylgja með slitur úr texta minnisblaðsins sem ég sendi með fyrirspurninnni.  Ég birti fyrirsögnina (að fjarlægðu nafni) og allar millifyrirsagnir, og örlítið brot úr hverjum kafla, en ekkert sem beinlínis tengist því fólki sem um er fjallað.  Tilgangurinn með þeirri birtingu er bara að gera ljóst að þetta lítur út eins og skjal sem samið hafi verið í ráðuneytinu.

Það kæmi heldur ekki sérlega á óvart ef þetta minnisblað er upprunnið í ráðuneytinu, því aðstoðarmaður ráðherra, Gísli Freyr Valdórsson, „missti út úr sér“ óheppileg orð þar sem hann gaf í skyn að ef til vill hefðu einhverjir starfsmenn ráðuneytisins sett saman punkta um þetta mál, þegar hann var spurður hvaðan minnisblaðið kæmi.
Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, talaði í fordæmandi orðalagi á Alþingi í gær um þær vangaveltur að þetta minnisblað væri komið úr ráðuneytinu (og henni virðist í nöp við alla umræðu um málið, sem er ekki sérlega geðslegt af mannréttindaráðherra):
„Til að girða fyrir þá umræðu sem ég heyri að hv. þingmaður ætlar að fara hér með þegar hún vísar til leka úr innanríkisráðuneytinu vil ég segja að það er ekkert sem bendir til þess.
Ég minni líka þingheim á að þau gögn sem koma við í ráðuneytum, t.d. rökstuðningur er varðar svona mál, og það þekkja þingmenn mjög vel fara víða á milli stofnana, á milli lögmanna og annarra aðila sem tengjast málunum. Það að hv. þingmaður leyfi sér að fullyrða úr ræðustól að leki hafi orðið úr ráðuneyti án þess að nokkuð bendi til þess finnst mér ansi bratt.“
Þótt Hanna Birna hafi byrst  sig yfir þeirri „ósvífni“ að ætla að skjal sem lítur út eins og það sé samið í ráðuneytinu komi þaðan, þá gaf hún samtímis í skyn að vel gæti verið að gögn af því tagi sem um er rætt væru á flakki þar sem þau ættu ekki að vera, og nefndi í því sambandi aðrar stofnanir (Útlendingastofnun?) og lögmenn (fólksins sem fjallað er um í minnisblaðinu?).
Hér er eitthvað sem ekki gengur upp.  Hafi þetta minnisblað verið samið í ráðuneytinu er ekki annað að sjá en ráðherra hafi sagt ósatt.  Hafi það ekki verið samið í ráðuneytinu, hvernig í ósköpunum stendur þá á því að ráðuneytið hefur ekki kært til lögreglu eða saksóknara að verið sé að dreifa minnisblaði sem látið er líta út eins og það sé úr ráðuneytinu, og hlýtur því að vera alvarleg fölsun?
———————————————————————
Til innanríkisráðherra og ráðuneytisstjóra
Ég hef séð eftirfarandi texta sem virðist vera saminn í ráðuneytinu.  Ég spyr:
1.  Er þetta minnisblað samið af starfsmönnum ráðuneytisins?  Ef ekki, var starfsmönnum kunnugt um innihald skjalsins og hver samdi það?
2.  Hefur ráðuneytið afhent minnisblaðið aðilum utan ráðuneytisins?  Ef svo er, hvaða aðilum?
3.  Ef ráðuneytið kannast ekki við að minnisblaðið hafi verið samið innan ráðuneytisins, hefur ráðuneytið kært til lögreglu að verið sé að dreifa minnisblaði sem greinilega er samið í þeim tilgangi að líta út eins og minnisblað samið í ráðuneytinu?
Bestu kveðjur,
Einar
—————————————————————–
        Minnisblað varðandi NNNN NNNN
Málsmeðferð og niðurstaða Útlendingastofnunar
Rétt þykir að vekja athygli á neðangreindu: – Í umsókn um hæli, sem barst í …
Málsmeðferð og niðurstaða ráðuneytisins
Með kæru, dags. 23. maí 2012, kærði Stefán Karl Kristjánsson, hdl, talsmaður …
   …
Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 17. október 2013, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Úrskurður ráðuneytisins var birtur kæranda þann 8. október 2013.
Beiðni um frestun réttaráhrifa
Þann 14. október sl. barst ráðuneytinu beiðni um frestun réttaráhrifa til að bera málið undir dómstóla á grundvelli 33. gr. laga um útlendinga.
Í beiðninni kom meðal annars fram:
   …
Rökstuðningur ráðuneytisins er eftirfarandi:
   …
Í úrskurði ráðuneytisins er lagt til grundvallar að kærandi hafi ekki …
      …
Ráðuneytið tekur einnig fram að það telur ekki ástæðu til að líta svo á að flutningur …
      …
Vekur ráðuneytið athygli m.a. á dómi héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. júní 2006 í máli nr. E-6286/2005, þar sem fjallað var um kröfu um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar þrátt fyrir að aðili máls hafi ekki verið staddur á landinu. Ennfremur vísast til úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2007 í máli E-4843/2007.
   …
Með ákvörðun ráðuneytisins, dags. 14. nóvember sl., var téðri beiðni, sem fjallað var um sem beiðni um endurupptöku á úrskurði ráðuneytisins frá 17. október 2013, synjað.