Birgi Þór Runólfssyni svarað

Vegna pistils sem ég skrifaði um óheiðarlegan málflutning Birgis Þórs Runólfssonarí gær svaraði hann mér í dag, vegna stóryrtra árása minna.  Það er alveg rétt hjá Birgi að ég var stórorður og að þetta var árás.  Hvort tveggja finnst mér ekki bara sjálfsagt heldur líka nauðsynlegt þegar fólk sem kynnir sig sem fræðafólk við háskóla hefur í frammi jafn óheiðarlegan málflutning og Birgir gerir í bloggi sínu. Þar sem Birgir leyfir ekki ummæli við blogg sitt verð ég að svara honum hér, en svar hans er í svipuðum stíl og skrif hans öll: útúrsnúningur og afvegaleiðing.

Í upphafi gerir Birgir sig sekan um enn eina rökvilluna, þegar hann segir
„… á bak við þá tilgátu, að orsakasamband sé á milli atvinnufrelsis og góðra lífskjara, stendur hvort tveggja, öflug kenning hagfræðinnar allt frá dögum Adams Smiths, sem hefur sífellt verið aukin og endurbætt, og reynsla þjóða heims af kapítalisma og sósíalisma, sem hefur aðeins leitt til einnar niðurstöðu: Lífskjör eru miklu betri við kapítalisma en sósíalisma.“.
Í fyrsta lagi getur engin kenning stutt staðhæfingu um orsakasamband, það er aðeins hægt að gera með rökum og gögnum, sem Birgir hefur ekki lagt fram.  Hitt er líka ljóst öllum sem vita hið minnsta um hagfræði, þótt ekki sé nema af lestri íslenskra fjölmiðla, að „kenning hagfræðinnar“ er ekki ein, þær eru margar, og á mörgum sviðum, ekki síst þeim sem Birgir hefur fjallað um, algerlega andstæðar.  Auk þessa hefur Birgir ekki einu sinni útskýrt hvaða lönd hann telur kapítalísk og hver sósíalísk, né heldur hefur hann útskýrt hvernig hann mæli lífskjör.  (Eru lífskjör góð í Bandaríkjunum?  Fyrir hverja?)
Það er líka athyglisvert að lesa hvað Birgir segir um samanburð sinn á tekjudreifingu á Íslandi rétt fyrir hrun og þrem árum eftir það, sem hann notar sem rök fyrir því að þeir fátæku hagnist ekki á því að hinir ríku lækki í tekjum: „Það kemur þessu máli í sjálfu sér ekkert við, að hér á Íslandi varð bankahrun árið 2008.“  Ef það kemur málinu ekkert við að tekjubreytingarnar sem koma fram í þessu línuriti eru augljóslega afleiðing hrunsins, hver er þá tilgangurinn með að birta það?  Þegar Birgir segir að hann hefði í staðinn getað tekið „dæmi af tveimur löndum á sama tíma með tvenns konar tekjudreifingu“ gerir hann sig enn sekan um rökvillu: Slík fylgni getur aldrei sagt neitt, ein sér, um orsakasamband, auk þess sem enginn hagfræðingur með sómatilfinningu myndi láta sér detta í hug að eitt slíkt dæmi sannaði eitt eða neitt.
Þegar ég benti á að heimildir Birgis væru oftar en ekki rit pólitískra áróðurssamtaka átti ég ekki við þær tvær færslur sem ég tilgreindi sérstaklega í bloggi mínu, eins og augljóst er þeim sem les það.  Það má hins vegar skilja það sem ég sagði þar sem svo að ekkert af þeim gögnum sem Birgir vísar í sé marktækt og þar var ég of ónákvæmur; sú staðhæfing á aðeins við heimildir frá umræddum áróðurssamtökum.  Þetta breytir hins vegar í engu gagnrýni minni á þær ályktanir sem Birgir gefur í skyn að megi draga, jafnvel af þeim gögnum hans sem ekki eru áróðursþvæla.
Varðandi Lafferbogann sem Birgir talar mikið um er réttast að segja að hann er ekki til.  Hann er ekkert annað en gríðarlega einfölduð útlistun á þeirri augljósu staðreynd að skatttekjur hækka ekki stöðugt með hækkuðu skatthlutfalli.  Ég hef hins vegar aldrei séð sannfærandi útgáfu af honum fyrir nokkurt land, og það er ekkert sem segir að á ferlinum sem þessi bogi á að lýsa séu ekki fleiri en eitt hámark, auk þess sem það er ekki einu sinni ljóst að um sé að ræða feril falls, í þeim stærðfræðilega skilningi sem hann er kynntur.  Myndin sem Birgir endurtekur í þessu svarbloggi sínu er þar að auki hreint og klárt hugarfóstur hans; það má draga óendanlega marga ferla gegnum þá þrjá punkta sem Birgir notar.
Að síðustu er athyglisvert að Birgir vitnar í Adam Smith, sem frjálshyggjumenn kynna gjarnan sem hugmyndafræðing sinn.  Adam þessi var nefnilega andsnúinn því að eigendur hlutafélaga töpuðu engu nema hlutafé sínu, en gætu haldið öðrum eignum, á meðan kröfuhafar eiga það á hættu að bíða gríðarlegt tjón vegna misgjörða annarra.  Um þetta eru ótal dæmi úr íslenska hruninu, eins og allir vita.  Hér er eitt slíkt dæmi, og svo kaldhæðnislega vill til að þar er Birgir sjálfur í aðalhlutverki.  Vegna þess að hann er varamaður í stjórn Seðlabankans skora ég á hann, sóma hans vegna, að skýra almenningi frá því hver staða þeirra mála er sem fjallað er um í ofangreindri frétt.

Deildu færslunni