Birgir Þór Runólfsson, sem kynnir sig sem dósent í hagfræði við Háskóla Íslands á bloggi sínu, hefur bloggað í mánuð hér á Eyjunni. Pistlar hans eru allir stuttir, sem er ekki frágangssök í sjálfu sér, en ein ástæða þess er að hann færir aldrei nein rök fyrir máli sínu. Hann birtir mikið af einföldum línritum, sem yfirleitt sýna samband tveggja breytna. Þótt Birgir fullyrði sjaldan beinlínis neitt ganga allir pistlar hans út á að gefa í skyn tiltekin orsakasambönd, út frá fylgni þar sem engin rök eru færð fyrir orsakasambandi. Auk þess er augljóslega oft um gríðarlega einföldun að ræða, af því að alveg er sleppt að velta fyrir sér hvaða þættir geti haft áhrif á viðkomandi breytur, aðrir en þeir sem Birgir kýs að nota.
Hér er eitt dæmi, þar sem Birgir ber saman skatthlutföll og skatttekjur í Svíþjóð og Sviss, og heldur fram að sömu skatttekjur hafi fengist í báðum löndum, með gerólíku skatthlutfalli. Gefið er í skyn, en aldrei sagt berum orðum, að skatttekjur yrðu ekkert lægri í Svíþjóð þótt skatthlutfallið yrði lækkað. Engin tilraun er gerð til að rýna í aðra þætti sem haft gætu áhrif á skatttekjur, auk þess sem talað er um hinn svokallaða Lafferboga, sem er tilbúin einfölduð mynd sem nákvæmlega ekkert segir um líklegt samband skatthlutfalls og skatttekna (umfram hið augljósa að tekjurnar eru engar bæði við 0% og 100% skatt).
Heimildir Birgis eru oftar en ekki rit pólitískra áróðurssamtaka í Bandaríkjunum, en ekkert sem nokkur fræðimanneskja myndi kalla áreiðanlegt.
Í öðru dæmi ber Birgir saman ráðstöfunartekjur á Íslandi árin 2008 og 2011, og varpar fram spurningu um hvor dreifingin væri æskilegri, rétt eins og það snúist um pólitíska afstöðu en ekki að hrun hafi orðið síðla árs 2008.
Þetta er frámunalega óheiðarlegur málflutningur, því Birgir talar um þessi mál eins og hann sé nautheimskur, en ég gef mér að það sé hann ekki. Ég gef mér líka að honum dytti ekki í hug að bera svona subbuskap á borð fyrir nemendur sína við Háskóla Íslands. Því vaknar spurningin: Af hverju eys Birgir, sem veit betur, svona þvælu yfir almenning?