Í gær var eftirfarandi haft eftir forstjóra Útlendingastofnunar, Kristínu Völundardóttur, í þessari frétt:
„Það getur verið dálítið aðlaðandi fyrir fólk sem að er ekki beinlínis hælisleitendur, sem ætla að vinna ólöglega eða koma í öðrum tilgangi, að koma til Íslands. Þetta getur verið fýsilegur kostur, að fá frítt fæði og húsnæði þegar málsmeðferðin er svona hrikalega löng.“
Kristín segir vísbendingar um að fólk komi hingað og stundi það sem kallist asylum shopping eða ferðamenn í hælisleit.
„Þá er fólk bara að fara til útlanda og kynnast landi og þjóð og nýti sér þá þjónustu sem hælisleitendum stendur til boða.“
Hún segist ekki geta sagt til um hversu stór hópur þetta sé. Stofnunin sé undirmönnuð og því ekki mikið svigrúm til að stunda fræðimennsku og rannsóknir.
Kristín hefur sem sagt ekki tíma til að stunda „fræðimennsku og rannsóknir“ (sem er ansi hrokafullt svar við spurningunni), en hún hefur nægan tíma til að dylgja í fjölmiðlum um fólk sem á framtíð sína, og jafnvel líf og heilsu, undir því að hún vinni faglega, en á því hefur verið talsverður misbrestur. Þar sem hún neitar að tilgreina um hversu marga geti verið að ræða og gefur til kynna að hún viti það ekki, og þar sem hælisleitendur á Íslandi eru ekki sérstaklega margir, varpar þetta augljóslega grun á þá alla.
Með því að dylgja svona á opinberum vettvangi um það fólk sem stofnunin fjallar um hefur Kristín gert sig vanhæfa til að fara með mál þeirra. Ef hún sæi að sér (í raun) og bæðist strax vandlega fyrirgefningar á þessum dylgjum sínum mætti fyrirgefa það. Að öðrum kosti á hún að víkja úr starfi. Geri hún það ekki sjálfviljug þarf innanríkisráðherra að reka hana.