Er hagfræði vísindi?

Það hefur talsvert verið deilt um gildi hagfræðinnar sem áreiðanlegra vísinda, eða yfirleitt hvort hún sé vísindi, þ.e.a.s. samsafn áreiðanlegrar þekkingar og áreiðanlegra aðferða til að komast að einhverjum sannleika.  Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að nánast allir hagfræðingar brugðust gersamlega í því að sjá fyrir einhverjar hrikalegustu efnahagshamfarir sem hafa dunið yfir Ísland og talsverðan hluta heimsins.

Þórólfur Matthíasson var spurður að því í Spegli RÚV í fyrra (byrjar á 18:03) hvort hagfræði væri vísindi, eða yfirleitt til einhvers gagns.  Auðvitað má vera að aðrir hefðu getað svarað þessu betur, en að dæma af því sem Þórólfur hafði að segja sýnist mér svarið vera nei.
Ég er reyndar nokkuð sannfærður um að hagfræði sé ekki eintóm þvæla eða bara illa grundaðar pólitískar skoðanir.  En því er ekki að leyna að ansi margir hagfræðingar hafa talað tóma vitleysu, og  margir þeirra eru enn á fullyrðingafylleríi og ekki að sjá að á því verði nokkurt slot.  Þessar endalausu staðhæfingar hagfræðinga um hluti sem þeir hafa margir greinilega ekkert vit á væru ekki skaðlegri en það sem spákonur segja fólki um mikla peninga, utanlandsferðir og hávaxna dökkhærða karlmenn (eða hvað það nú er sem  tíðkast um þessar mundir) ef ekki vildi svo illa til að fjölmiðlar ætu einlægt upp eftir þeim kristalskúlurövlið.
Nýlegt og átakanlegt dæmi um þetta er viðtal við Þráin Eggertsson, prófessor í hagfræði, sem „hefur vakið mikla athygli“ sem aftur leiddi til þess að eigendur blaðsins Frjálsrar Verslunar ákváðu að birta það í heild á netinu.  Hér segir viðmælandinn ýmis almælt tíðindi og rabbar um hvað gæti ef til vill hugsanlega mögulega kannski gerst, þótt það sé reyndar ómögulegt að vita hvað muni gerast.  Það sem er athyglisvert hér er því ekki neitt af því sem Þráínn segir, heldur hitt að viðtalið skuli talið athyglisvert.  En, kannski voru það aðallega „Atlagan að kvótakerfinu“ og „Atlagan að stjórnarskránni“ sem eigendur blaðsins vildu koma á framfæri?
Ég ætla ekki að fjalla um það sem Þráinn segir í þessu viðtali, því það er nóg að láta hann sjálfan tala til að sjá að hér eru ekki á ferðinni fræði, heldur vangaveltur manns sem ómögulegt er að sjá að byggi á öðru en því sem umræðurnar í heitapottinum í Laugardalslauginni gera að öllu jöfnu.  Ég set hins vegar nokkrar athugasemdir mínar í hornklofa.
Mikil vandi blasir við þeim sem um þessar mundir bera ábyrgð á stjórn efnahagsmála. Mörg vestræn ríki eru stórskuldug, meðal annars vegna bankahruns, og jafnframt hrjáir þau kreppa og mikið atvinnuleysi. Hvað er til ráða? Er brýnast að jafna ríkisfjármálin með skattahækkunum og niðurskurði ríkisútgjalda og greiða niður skuldirnar eða er farsælast að vinna fyrst bug á atvinnuleysinu með því að auka ríkisútgjöldin og lækka skatta – og þar með dýpka skuldirnar?
[Og svo fylgja fleiri spurningar sem við spyrjum okkur öll sem lesum fjölmiðla, en engin svör]
Í Bandaríkjunum var nýlega gefin út skýrsla sem Öryggisráð ríkisins (National Intelligence Council) vann að í fjögur ár. Í skýrslunni eru metnar horfurnar í heiminum næstu 18-20 ár með áherslu á efnahagsmál og stöðu Bandaríkjanna. Þar segir að mikilvægasta breytingin næstu tvo áratugina verði upprisa voldugrar millistéttar á heimsvísu – væntanlegir neytendur með þokkalega menntun og tekjur.
[Byggja hagfræðingar spár sínar á svona „gögnum“?]
Ég útiloka ekki að Bandaríkin, Kína og Þýskaland eigi eftir að leiða uppsveiflu á næstu árum en margt getur breytt þeirri spá. Mannkynssagan er skrifuð eftirá en ekki fyrirfram.
[Kjarni málsins, þetta með mannkynssöguskrifin. Þráinn er heiðarlegur að viðurkenna að hann viti ekkert um þróun þessara mála.  Hins vegar veltir maður fyrir sér af hverju forsvarsmenn FV töldu þetta allt svo athyglisvert …]
Ég á von á því að eftirspurn eftir háskólamenntuðu fólki verði mikil á næstu áratugum. Við erum stödd í fyrsta áfanga róttækrar byltingar í upplýsingatækni, líftækni og á fleiri sviðum sem skapar mikla þörf fyrir háskólamenntað fólk. […] Ýmislegt bendir til að Íslendingar hafi vanrækt verk- og tæknimenntun.
[Verulega djúp greining …]
Erik Brynjolfsson, prófessor í MIT, segir í nýlegri grein að …
Margir hagfræðingar eru andsnúnir því að ríkið bjargi einkabönkum í stað þess að láta eigendur bankanna taka skellinn og bera ábyrgð gerða sinna. Til dæmis var Mervyn King, yfirmaður Englandsbanka, andsnúinn björgunaraðgerðum þegar kreppan 2007-8 reið yfir, en hann virðist síðan hafa skipt um skoðun.
Ég las nýlega grein þar sem höfundurinn hélt því fram að fjórar fjármálastofnanir í Bandaríkjunum hefðu náð þeirri stærð að hrun þeirra væri ógnun við þjóðarbúskapinn en jafnframt væru þessir bankar svo stórir í sniðum að ríkið hefði ekki bolmagn til að bjarga þeim. Too big to fail, too big to save, sagði höfundurinn.
[Gaman að heyra hvað þetta fólk heldur.  En hvað með það?]
Það þarf að hugsa skipulag fjármálastofnana upp á nýtt. Við höfum lært í fjármálakreppunni að eftirlitsstofnanir, bæði hér og erlendis, hafa ekki roð við fjármálafyrirtækjunum. […]  Það er nauðsynlegt að breyta umhverfi bankanna, breyta leikreglunum og þar með hvata fjármálamanna og endurskoða einnig tölvutæknina sem bankar og eftirlitsstofnanir nota.
[Ekki orð um hvernig þurfi að breyta, og ekki að sjá að Þráinn hafi minnstu hugmynd um það.  Hann sýnir hins vegar að hann hefur lesið helstu fyrirsagnir fjölmiðla síðustu árin, en hann kemur ekki upp um það hvort hann hafi til dæmis lesið sjálfar greinarnar í sæmilegum dagblöðum.]
Nýlega var sagt frá því í fréttum að lán þýskra banka til Suður-Evrópu væru lítill hluti af vanda bankanna. Þýsku bankarnir hefðu lánað margfalt hærri upphæðir til smíða á flutningaskipum en til jaðarríkjanna á evrusvæðinu.
Ég hef óljósa hugmynd um það að bankar í norðrinu standi almennt verr en gefið hefur verið í skyn.
[Ég hef líka  lesið eina og eina frétt, og ég hef fullt af óljósum hugmyndum.  Ef Frjálsa verslun skyldi vanta efni í næsta blað …]
Ég svaraði þessari spurningu hér í Frjálsri verslun haustið 2011 og sagðist ekki eiga von á því að Grikkir hættu í evrusamstarfinu.
[Frjáls Verslun spurði mig að vísu ekki þessarar spurningar, en ég sagði þeim sem heyra vildu, og ýmsum fleiri, nákvæmlega það sama.  Ég er nokkuð viss um að svar mitt byggði á jafntraustum forsendum og svar Þráins.]
Ég sagði áðan að engin einföld lausn á efnhagsvandanum í Evrópu blasir við vegna þess að uppsafnaðar skuldir takmarka úrræðin sem koma til greina.
[Það hefði ég líka sagt, en ég hefði hins vegar vikið mér hjá að láta hafa svona sjálfsagða og ómerkilega hluti eftir mér í fjölmiðlum.]
Ein lausn á vanda evrusvæðisins, sem ég hef séð og sel ekki dýrar en ég keypti, …
[Til þess eru sérfræðingar, að greina kaffihúsaspjall frá traustri þekkingu, fyrir okkur hin …]
Mig dreymir um að Ísland verði eins konar nýtt Hong Kong með öfluga samvinnu í efnahagsmálum við Norðurlöndin og Grænland, við Evrópusambandið og Bandaríkin og við rísandi ríki í þriðja heiminum.
[Draumurinn um Ísland sem miðstöð alþjóðlegra viðskipta er ekki nýr.  Flestir sem töluðu um hann fyrir hrun hafa þó farið með hann eins og mannsmorð síðan, af skiljanlegum ástæðum.]

Deildu færslunni