Berjumst gegn ofbeldi bænda

Á Íslandi ríkir bændaveldi.  Í þúsund ár voru það bændur sem réðu lögum og lofum, kúguðu hjúin og komu í veg fyrir að almenningur gæti um frjálst höfuð strokið, hvað þá að alþýðan gæti starfað við það sem henni sýndist, og engir komust til mennta nema þeir sem áttu ríka bændur að.  Allar valdastöður í landinu voru í þúsund ár mannaðar bændum; bæði sýslumenn og prestar voru bændur, sem og allir héraðshöfðingjar aftur til landnámsaldar.  Bændur réðu öllu atvinnulífi landsins í meira en tíu aldir, ekki bara landbúnaðinum heldur einnig öllum sjávarútvegi fram á síðustu öld, þar sem þeir kúguðu vinnumenn sína til sjósóknar og meinuðu öðrum að sækja sjó.

Auðvitað eru bændur í dag ekki allir illmenni (og reyndar er það líklega lítill hluti þeirra sem enn fremur það ofbeldi gagnvart alþýðu sem er einkennandi fyrir þá kúgun sem fylgdi bændaveldinu  gegnum aldirnar).  En, þessi hugsunarháttur er svo djúprættur í þjóðinni, bæði meðal bænda og almennings, að honum verður ekki útrýmt nema með stöðugu átaki í langan tíma.  Það er hættulegur barnaskapur að halda að kúgunarveldi af þessu tagi, með meira en þúsund ára sögu, hverfi sjálfkrafa þótt löngu sé búið að setja lög til að tryggja almenningi kosningarétt og aflétta vistarböndum.  Áhrif bændaveldisins birtast enn mjög víða, því óhætt er að segja að bændur njóti ýmissa forréttinda miðað við almenning, og bændur eru víða í valdastöðum þar sem þeir hygla enn sínum á kostnað almennings.
Bændaveldið gegnsýrði svo hugarfar þjóðarinnar að það mun taka marga áratugi í viðbót að létta þessum klafa af hugum flestra.  Þess vegna er mikilvægt að berjast alltaf og alls staðar gegn ofbeldi bænda, og það ætti að vera sjálfsagt að kenna alþýðufræði í skólum, þar sem útskýrt er fyrir börnum og unglingum hvers konar ofbeldi alþýðan varð fyrir af hálfu bænda, og hvernig hugsunarháttur bændaveldisins liggur enn til grundvallar þeirri útbreiddu hugmynd að bændur eigi að njóta forréttinda og megi níðast á öðrum.
Að sjálfsögðu á að banna bændum algerlega að ráða til sín vinnufólk, og við því eiga að liggja harðar refsingar (en þó á auðvitað ekki að refsa vinnufólkinu sem ræður sig í vist; það er fórnarlömb, og oftar en ekki flutt hingað inn frá öðrum löndum og alveg bjargarlaust og hjálparlaust gagnvart kúguninni).  Að halda fram að til sé „hamingjusamt“ vinnufólk á bændabýlum er svívirðileg afneitun á þeirri kúgun sem bændur stunda enn í skjóli hugsunarháttar bændaveldisins.
Enn fremur ætti að setja lög til að koma í veg fyrir að bændur verði nokkurn tima hlutfallslega of margir í nokkrum eftirsóknarverðum stöðum og starfsstéttum, og það þarf að sjálfsögðu lýðréttisnefnd sem almenningur getur snúið sér til þegar bóndi er ráðinn í starf þar sem hlutfallslega of margir bændur eru fyrir og gengið er fram hjá alþýðuumsækjanda sem er jafnhæfur bóndanum.
Einnig þarf að taka upp alþýðlega fjárlagagerð, svo hægt verði að rétta alls staðar af þann halla sem þar er að finna, almenningi í óhag.  Einnig ætti að skylda öll fyrirtæki með yfir 5 starfsmenn, og allar opinberar stofnanir, til að vera með lýðréttisáætlun, og opinberar stofnanir með yfir tíu starfsmenn ættu allar að vera með sérstaka lýðréttisráðgjafa, sem þurfa að vera menntaðir í lýðfræðum.
Brýnt er að efla rannsóknir og kennslu í lýðréttismálum á háskólastigi, enda ekki vanþörf á að greina á fræðilegan hátt hvernig bændaveldishugsunarhátturinn einkennir allt samfélagið.  (Talandi um það, er búið að lýðgreina skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis?)
Bændaveldið er staðreynd, og þeir sem afneita því eru algerlega blindir á skuggahliðar samfélags okkar.  Við verðum að halda vöku okkar, og því hef ég ákveðið að búa til Facebook-siðu þar sem ég safna saman ýmsum ummælum bænda sem sýna hvernig hugsunarháttur bændaveldisins lifir enn góðu lífi á meðal vor.  Ég er að hugsa um að kalla síðuna „Bændur sem hata almenning“.
Að sjálfsögðu mun þessi afstaða verða fyrir rætnum árásum frá bændum, sem eru dauðhræddir um að missa þau völd sem þeir hafa haft til að kúga alþýðuna.  En, það sannar bara hversu rótgróinn og óhuggulegur hann er þessi hugsunarháttur sem gegnsýrir enn samfélagið.

Deildu færslunni