Af einhverjum ástæðum varð ég óskaplega dapur yfir miklu af umræðunni um þennan pistil Evu Hauksdóttur (og þennan), sem fjallar um höfundarrétt og hvort háskólar eigi að starfa fyrir opnum tjöldum eða vera einhvers konar frímúrarareglur.
Umræðan hefur ekki síst snúist um eftirfarandi spurningar (sem annars vegar var beinlínis spurt í ofannefndum pistlum, og sem hins vegar hafa verið ræddar í ýmsum tjásukerfum, bæði við pistlana og á Facebook):
- Er eðlilegt að háskólakennarar sem dreifa tilteknu námsefni (t.d. fyrirlestraglærum) til allra nemenda í tilteknu námskeiði vilji alls ekki að efnið verði gert aðgengilegt almenningi?
- Gerir höfundarréttur kennara á kennsluefni að verkum að háskóli megi alls ekki krefjast þess að allt efni sem birt er nemendum námskeiðs (sem í geta verið tugir eða hundruð nemenda) sé birt á opnum vef, þannig að það verði aðgengilegt almenningi?
- Kæmi umræddur höfundarréttur (sem margir virðast rugla saman við réttinn til dreifingar) í veg fyrir að háskóli gæti krafist þess að allir nemendur skólans hefðu aðgang að kennsluefni sérhvers námskeiðs í skólanum, til dæmis til að nemendur geti betur valið sér námskeið við hæfi?
- Er höfundarréttur háskólakennara, á kennsluefni sem þeir dreifa til nemendanna sem þeir kenna, frábrugðinn höfundarrétti fréttafólks á fjölmiðlum (og þeirra sem senda inn greinar í blöð), sem ekki hefur neitt að segja um dreifingu fréttanna sem það skrifar?
- Er það virkilega rétt ályktað hjá einum háskólakennara sem tjáði sig um málið að ef HÍ ákvæði einfaldlega að hafa engan lokaðan vef fyrir kennsluefni, bara opinn, þá myndu margir kennarar skólans hverfa aftur til fortíðar og hætta að nota netið til að birta efni?
Það sem mér hefur fundist sorglegast við umræðuna er hversu margir hafa tekið undir þá afstöðu að það sé vont, ómögulegt, og líklega lögbrot, að ætlast til að almenningur geti fengið aðgang að kennsluefni sem birt er á innrivef HÍ.
Auðvitað gera sér allir grein fyrir því að um leið og tugir nemenda hafa aðgang að kennsluefni á vef skólans getur hver sem er komist yfir það sem hann hefur sérstakan áhuga á, því Ísland er nógu lítið til að allir þekkja einhvern sem þekkir einhvern sem þekkir einhvern sem er skráður í viðkomandi námskeið. Það er því augljóst að efni sem birt er á innrivef HÍ er ekki lengur „leynilegt“.
Það er líka sérkennilegt að almenningur, sem borgar alla starfsemi HÍ, þar með talin laun kennaranna fyrir að setja saman kennsluefni, megi ekki fá aðgang að því kennsluefni sem dreift er til nemenda skólans.
Það sem er þó verst við þetta, finnst mér, er leyndarhyggjan sem birtist í mótbárunum sem svo margir flýta sér að leita að. Örfáir þeirra sem hafa tjáð sig teljandi um málið tala um að það væri auðvitað gott að gera sem mest kennsluefni aðgengilegt almenningi. Flestir tala hins vegar um það eins og sjálfsagðan hlut að halda verndarhendi yfir þessari leynd, og leita að alls konar rökum og lagabókstöfum til að útskýra mikilvægi þess að sem minnst ljós fái að skína inn í þennan ryðhjall sem reynir svo oft að vera fílabeinsturn.
Nánast engum virðist detta í hug að það væri ef til vill eftirsóknarvert að starf HÍ væri opið almenningi að því leyti sem auðvelt er að opna það. Það þarf til dæmis bara að „ýta á einn takka“ til að gera kennsluefnið aðgengilegt umheiminum í stað þess að loka það inni í afmörkuðum hópi innan skólans.
Fáum virðist heldur detta í hug að það gæti verið eftirsóknarvert að feta í fótspor þeirra skóla erlendis (t.d. Tübingen, Michigan, TU Delft, MIT, Yale …) sem vilja veita almenningi aðgang að því sem þeir hafa fram að færa. Nei, það væri hræðilegt „brot á höfundarrétti“ að veita almenningi aðgang að þeim leyndardómum sem fjallað er um í hinum sérstaka Háskóla Íslands.
Ég veit svo sem af hverju margir kennarar við HÍ óttast innsýn almennings í kennslu sína. Þótt í HÍ sé talsvert af mjög öflugu vísindafólki er mikill fjöldi kennara skólans, sérstaklega á Menntavísinda- og Félagsvísindasviði, alls engir þátttakendur á þeim vettvangi sem skólinn segist, opinberlega, ætla að gera sig gildandi á, þ.e.a.s. á þeim alþjóðavettvangi sem vísindastarf er. Þótt sérhver kennari við íslensku ríkisháskólana fái 40% launa sinna greidd fyrir að stunda rannsóknir er það opinbert leyndarmál að stór hluti þeirra hefur aldrei stundað rannsóknir, og annar stór hluti stundar rannsóknir sem ná engu máli í því alþjóðasamfélagi sem skólinn hefur sem yfirlýsta stefnu að tilheyra.
(Það er svo efni í annan pistil að þótt ofangreind tvö svið innan HÍ séu samanlagt umtalsvert fjölmennari en bæði Verkfræði- og náttúruvísindasvið og Heilbrigðisvísindasvið, þá er framlag þeirra fyrrnefndu til alþjóðasamfélags vísindanna innan við einn tíundi af framlagi hvors hinna sviðanna, eins og sjá má í þessari samantekt úr gagnagrunninum Web of Science, yfir fjölda birtra greina á ritrýndum alþjóðlegum vettvangi. Rétt er að hafa í huga hér að þetta yfirlit, sem ég mun fjalla betur um síðar, er yfir allar birtingar íslenskra stofnana. Það þýðir meðal annars að stór hluti birtinga í heilbrigðisvísindum er frá Erfðagreiningu og Hjartavernd.)
Það er þó ekki þetta sem gerir mig dapran, því það hef ég vitað lengi. Heldur hitt, hversu fátt af því frambærilega vísindafólki sem HÍ þó á skuli vera tilbúið að standa upp og útskýra fyrir almenningi og stjórnvöldum þá lygi sem svo stór hluti af starfi HÍ byggir á, og sem er ein ástæða þeirrar leyndarhyggju sem hér hefur verið fjallað um. Lygi undirmálsliðsins, sem hefur tögl og hagldir í æðsta valdakerfi skólans, um að það sé alvöru vísindafólk, en ekki dæmigerðir íslenskir fúskarar sem þjást samtímis af (skiljanlegri) minnimáttarkennd og (óskiljanlegu) mikilmennskubrjálæði.
Ísland er svo óskaplega sérstakt. Um það gilda allt aðrar reglur og lögmál en þessa aula sem búa í öðrum og vanþróaðri löndum. Það er af því að Íslendingar eru afburðafólk, sem hafa ekkert til annarra að sækja …