Þann 16. nóvember í fyrra var Lárus Páll Birgisson dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn lögreglulögum af því að hann hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu, sem krafðist þess að hann yfirgæfi gangstéttina fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna þar sem hann stóð með skilti.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Lárus er dæmdur fyrir svipað „brot“. Hann var sakfelldur þann 9. júlí í fyrra fyrir að neita að hlýða lögreglu sem skipaði honum að fara af gangstéttinni fyrir framan sendiráðið þar sem hann stóð með skilti sem á stóð „elskum friðinn“ eða eitthvað í þeim dúr. Hann var dæmdur fyrir að brjóta gegn 19. gr. laga nr. 90/1996, þar sem stendur: „Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.“
Að vísu segir í dómnum að „Lögreglumenn þeir sem komu á vettvang töldu ekki sérstakt tilefni til aðgerða.“ Hins vegar að starfsmenn sendiráðsins hefðu beðið lögregluna „um að mótmælendurnir yrðu látnir flyja sig yfir götuna, á gangstéttina hinu megin.“ Af óskiljanlegum, og óútskýrðum, ástæðum virðist lögreglan hafa komist að þeirri niðurstöðu að óformlegar óskir ótilgreinds starfsmanns sendiráðsins væru æðri rétti borgaranna til að tjá skoðanir sínar á almannafæri.
Í dómnum stendur líka „Ákærði kvaðst alsaklaus. Hann hafi staðið á rétti sínum til tjáningar.“ Eins og allir dómarar vita er sá réttur verndaður í stjórnarskrá (í 73. grein) og þeir vita líka að stjórnarskráin er æðri öllum öðrum lögum í landinu. Í stuttu máli — og þessi dómur er sjálfur afar stuttur — var Lárus dæmdur fyrir að óhlýðnast þeirri skipun lögreglunnar að flytja sig yfir götuna, af því að ónafngreindir starfsmenn sendiráðsins eru sagðir hafa beðið um það, þótt dómurinn hafi reyndar ekkert fyrir sér í því annað en frásögn lögreglumannanna. Ekki er minnst einu orði á tjáningarfrelsi eða stjórnarskrá, þótt sakborningur hafi borið fyrir sig þann rétt. Dómarinn hefur því meðvitað valið að sniðganga stjórnarskrána.
Í Nímenningamálinu svokallaða, þar sem dómur féll þann 16. febrúar í fyrra, voru sakborningar sýknaðir af öllum ákæruatriðum, nema hvað fjórir þeirra voru sakfelldir fyrir brot gegn valdstjórninni (lögreglu og þingvörðum). Þau brot snerust annars vegar um að hafa óhlýðnast fyrirmælum, og hins vegar um að hafa reynt (með valdi) að stöðva þingverði sem reyndu að koma í veg fyrir að fólk kæmist á þingpallana, en sú hindrun brýtur gegn þeim stjórnarskrárvarða rétti almennings að fylgjast með þingfundum.
Það er mikilvægt að undirstrika að í öllum þessum málum eru sakborningar einungis sakfelldir fyrir að hlýðnast ekki fyrirmælum valdstjórnarinnar og reyna að koma í veg fyrir að hún stöðvi fólk sem var í fulum rétti (enda voru sakborningar í Nímenningamálinu sýknaðir af öllum ákærum um „húsbrot“ og að hafa „ráðist á Alþingi“). Það sem gerðist var þetta: Fólkið ætlaði að neyta stjórnarskrárvarins réttar síns, en valdstjórnin kom í veg fyrir það. Valdstjórnin tók sem sagt þá röngu ákvörðun að hindra borgara í að neyta réttar sem þeir áttu samkvæmt stjórnarskrá. Niðurstaðan dómsins er samt ekki sú að valdstjórnin fái á baukinn, heldur eru borgararnir dæmdir fyrir að óhlýðnast valdstjórninni. Með þessu eru geðþóttaákvarðanir valdstjórnarinnar, sem fara í bága við rétt borgaranna, settar ofar stjórnarskrá.
Að hunsa stjórnarskrána, í málum sem augljóslega varða þau mannréttindi sem hún á að tryggja, eru ófyrirgefanleg afglöp af hálfu dómstóla, burtséð frá því hver niðurstaða réttarins yrði um gildi viðkomandi ákvæða í umræddum málum, ef hann léti svo lítið að fjalla um þau.
Öfugt við marga sem ég er sammála um dýpt spillingarinnar í íslenskri stjórnsýslu hef ég lengi trúað að dómstólarnir séu faglegasti og áreiðanlegasti hluti ríkisvaldsins. En, þeir dómarar sem dæmt hafa ofangreind mál grafa undan eðlilegu trausti á dómstólunum, og maður veltir fyrir sér hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að dómarar hunsi gersamlega æðstu reglur þess starfs sem þeir sinna. Þess vegna ætla ég að nefna nöfn dómaranna hér, enda kemur þar í ljós athyglisvert mynstur: